Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein á Íslandi. Með skipulegri hópleit er hægt að koma í veg fyrir myndun þess og bæta lífshorfur þeirra sem greinast.
Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein á Íslandi. Með skipulegri hópleit er hægt að koma í veg fyrir myndun þess og bæta lífshorfur þeirra sem greinast.
Hvað er ristilkrabbamein?
Að meðaltali greinast árlega 135 einstaklingar með ristil- og endaþarmskrabbamein og 52 látast úr sjúkdómnum eða sem nemur einum á viku. Í árslok 2013 voru um 1160 manns á lífi með sjúkdóminn.
Krabbamein í ristli og endaþarmi eru í daglegu tali flokkuð saman og kölluð ristilkrabbamein, því þau eiga margt sameiginlegt. Í flestum tilvikum myndast ristilkrabbamein út frá góðkynja forstigsbreytingum sem í daglegu tali eru kallaðir separ. Sú tegund sepa sem eru forstig ristilkrabbameins eru svonefnd kirtilæxli.
Þó að separ séu nokkuð algengir þá verða flestir þeirra (yfir 90%) aldrei að krabbameini. Reglan er samt að fjarlægja þá ef þeir finnast við ristilspeglun. Með því að fjarlægja sepa í ristilspeglun er ekki einungis hægt að koma í veg fyrir myndun ristilkrabbameins, heldur einnig hægt að senda þá í vefjagreiningu og leggja mat á hvort um eiginlegt forstig er að ræða og ákvarða í framhaldi af því eftirlit fyrir viðkomanda. Liðið getur langur tími, jafnvel 10 til 20 ár, frá því að ristilkrabbameinsfrumur myndast í kirtilæxli þar til einkenni koma fram.
Þessi langi tímarammi útskýrir af hverju tiltölulega auðvelt er að lækna ristilkrabbamein finnist það nægilega snemma og af hverju árangursríkasta leiðin er að leita að sjúkdómnum hjá einkennalausu fólki. Hægt er að beita mörgum aðferðum til að leita að sjúkdómnum. Ein leiðin er að skima fyrir blóði í hægðum. Ástæða fyrir því er að mörg kirtilæxli, sérstaklega ef þau hafa fengið tíma til að þróa með sér frumubreytingar í átt að krabbameini eða eru jafnvel orðið krabbamein á frumstigi, eru þau líkleg til að blæða. Ef tekin eru hægðarpróf skiptir máli að nota viðurkennd hægðarpróf og þau þarf að endurtaka á eins til tveggja ára fresti. Ef hægðapróf reynist jákvætt er mikilvægt að viðkomandi fari í langa ristilspeglun.
Hver eru einkenni ristilkrabbameins?
Sumir með ristilkrabbamein eða kirtilæxli hafa einkenni. Þau geta verið:
- Viðvarandi breytingar á hægðavenjum, einkum aukin tíðni salernisferða eða niðurgangur sem varir vikum saman.
- Blóð í hægðum án augljósra skýringa. Bæði ferskt og sýnilegt með berum augum og svo svartar hægðir, sem geta orsakast af blæðingu ofar í meltingarveginum. Mælt er með að allar blæðingar í hægðum séu teknar alvarlega.
- Kviðverkir eða krampar sem hætta ekki.
- Blóðleysi af óþekktri orsök.
- Þyngdartap og þrekleysi.
Ef þú hefur einhverra þessara einkenna skaltu ræða við lækni. Þessi einkenni geta verið vegna einhvers annars en krabbameins. Engu að síður er rétt að leita álits læknis til að fá skýringu.
En ef ég er einkennalaus?
Ristilkrabbamein er einkennalaust til að byrja með en eftir því sem æxlið stækkar getur það farið að gefa einkenni. Flestir sem fá ristilkrabbamein eru eldri en 50 ára. Þeir sem hafa náð þeim aldri skilgreinast í meðaláhættu að fá ristilkrabbamein (þ.e.a.s. ekki eru undirliggjandi sérstakir áhættuþættir hjá viðkomanda eins og vikið er að síðar).
Ristilkrabbamein er það algengt hjá einstaklingum eldri en 50 ára, að álit flestra er að rétt sé að leita sjúkdómsins hjá einkennalausum þegar þeim aldri er náð. Ástæðan er að ristilkrabbamein gefa ekki alltaf einkenni, sérstaklega ekki í byrjun, en geta þrátt fyrir það verið til staðar. Það þýðir að fólk getur verið með sjúkdóminn og ekki vitað af því. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að vera með skipulagða hópleit að ristilkrabbameini og greina ristilkrabbamein eða forstig þess áður en einkenni koma og ná að lækna meinið, langoftast að fullu.
Hver fær ristilkrabbamein?
Bæði karlar og konur geta fengið ristilkrabbamein. Ristilkrabbamein er þó heldur algengara hjá körlum. Áhættan eykst upp úr fimmtugu og með hækkandi aldri. Rannsóknir sýna að erfðir eru mikilvægur áhættuþáttur en einnig lífshættir (sjá hér að neðan).
Er ég í aukinni áhættu?
Líkur á að fá sjúkdóminn geta verið auknar ef
- Þú átt náinn ættingja (móður, systkini, barn), einn eða fleiri sem hafa greinst með ristilsepa (kirtilæxli) eða ristilkrabbamein.
- Þú hefur greinst með bólgusjúkdóm í ristli (sáraristilsjúkdóm eða svæðisgarnabólgu).
- Þú hefur erfðasjúkdóm eins og familial adenomatous polyposis (FAP) eða hereditary nonpolyposis colorectal cancer (HNCPP, öðru nafni Lynch heilkenni).
Fólk sem er í aukinni áhættu á að fá ristilkrabbamein gæti þurft að huga að leit fyrr og oftar en almennt er ráðlagt fyrir einstaklinga í meðaláhættu, allt niður í mjög ungan aldur. Ræddu við heimilislækni eða meltingarlækni (sérfræðing í meltingarsjúkdómum) um hvenær væri rétt að hefja leit hjá þér ef þú telur þig tilheyra hópi í aukinni áhættu eða vilt vera viss um að breyta rétt.
Hafa lífshættir áhrif á tíðni sjúkdómsins?
Rannsóknir hafa sýnt að ákveðnir lífshættir auka líkur á að fá sjúkdóminn:
- Neysla á rauðu kjöti og unnum kjötvörum. Ráðlagt er að neyta ekki meira af slíkum kjötvörum en um 500 g. á viku.
- Mikil kyrrseta. Almennt er ráðlagt að hreyfa sig að minnsta kosti 30 mínútur á dag fimm daga vikunnar.
- Holl fæða, reglubundin hreyfing, hugrækt og góður svefn (vísa í heilbrigt líf) vinnur saman í því að halda okkur í heilbrigðri þyngd.
- Krabbameinsvaldandi efni í sígarettureyk finnast ekki eingöngu í lungum heldur berast um allan líkamann og þar á meðal í meltingaveginn. Margar leiðir eru til að hætta að reykja eins og ýmis lyf. Krabbameinsfélagið veitir ráðgjöf í reykbindindi. Hægt er að hafa samband í síma 540 1900 eða senda tölvupóst á netfangið reykleysi.krabb.is. Vísa í bækling.
- Áfengi. Allt áfengi brotnar niður í asetaldehýð í líkamanum. Acetaldehýð hefur tilhneigingu til að loða við vefi líkamans og er krabbameinsvaldandi efni. Því meira sem drukkið er af áfengi því meiri er áhættan. Ef þú drekkur áfengi er ráðlagt að halda því í hófi.
Hvað er hópleit að ristilkrabbameini?
Hópleit þýðir að leitað er að ummerkjum um krabbamein í ristli eða endaþarmi (ristilkrabbameini) hjá einkennalausum einstaklingum. Leit að ristilkrabbameini hefur þann tilgang að finna forstig (kirtilæxli) eða krabbamein á byrjunarstigi svo hægt sé að lækna meinið með því að veita viðeigandi meðferð. Það eru til nokkrar leiðir til hópleitar. Þær algengustu í Evrópu eru:
- Hægðapróf eða leit að blóði í saur. Svokölluð FIT-próf (Fecal Immunochemical Test) eru nýjust og nákvæmust á markaðnum af þeim hægðaprófum sem í boði eru. Þau greina blóð sem er ekki sýnilegt með berum augum. Þú tekur prófið heima og notar til þess ákveðið sýnasett með leiðbeiningum til að ná hægðasýni og koma sýni fyrir í þar til gerðu glasi (staut). Þú skilar prófinu með pósti á tilgreinda rannsóknarstofu eða beint á rannsóknarstofu þar sem athugað er hvort blóð leynist í hægðasýninu. Ef blóð greinist í hægðasýninu þarf að gera langa ristilspeglum til að leita að orsök. Ef ekki greinist blóð er miðað við að endurtaka þessa leit á eins til tveggja ára fresti meðan einstaklingur er á aldursbilinu 50-75 ára. FIT-próf eru enn ekki fáanleg á Íslandi en nú eru á markaðinum önnur hægðapróf sem fást í apótekum en þau eru ekki jafn árangursrík.
- Löng ristilspeglun. Læknir notar sveigjanlega holsjá sem þrædd er upp ristilinn alveg inn í botn hans og lýsir upp slímhúð ristilsins og gerir kleift að leita að sepum og krabbameini. Á meðan á spegluninni stendur getur læknirinn fjarlægt flesta þá sepa sem sjást og jafnvel krabbamein á frumstigum. Hversu oft þarf að koma endurtaka ristilspeglun er háð fjölda, stærð, staðsetningu og vefjagreiningu sepa eða annars meins sem finnast við skoðun. Annars er mælt með speglun á tíu ára fresti hjá þeim sem eru hvorki með sepa né krabbamein.
Bjargar leit mannslífum?
Ef þú ert á aldrinum frá 50 til 75 ára ættir þú að ræða við lækni um leit að ristilkrabbameini því rannsóknir sýna að leit bjargar mannslífum. Ef sterk ættarsaga eða aðrir áhættuþættir eru til staðar þá gæti þurft að leita fyrr. Ræddu við heimilislækninn þinn eða meltingarlækni um leit að ristilkrabbameini. Ástæðan er sú:
- Ristilkrabbamein byrjar yfirleitt sem sepi í ristli eða endaþarmi.
- Með tímanum geta sumir separ breyst í krabbamein.
- Með hópleit er hægt að finna sepa og kirtilæxli, sem hægt er að fjarlægja áður en þau breytast í krabbamein.
- Með hópleit er einnig hægt að finna sum krabbamein snemma. Þegar meinið finnst snemma eru góðar líkur á lækningu.
- Fjölmargar heilsuhagfræðilegar úttektir í mörgum löndum hafa sýnt fram á að hópleit að ristilkrabbameini er eitt hagstæðasta krabbameinið til að skima fyrir.
- Ristilkrabbamein er eina krabbameinið hjá körlum sem er talið æskilegt að skima fyrir með skipulagðri hópleit.
Hvert á ég að leita?
- Ef þú ert með einkenni sem geta bent til ristilkrabbameins er þér ráðlagt að ræða við heimilislækninn þinn, sem gæti vísað þér beint í ristilspeglun eða fá tíma sem fyrst hjá sérfræðingi í meltingarsjúkdómum sem gæti speglað ristilinn.
- Ef þú ert einkennalaus en hefur náð 50 ára aldri er þér ráðlagt að ráðfæra þig við heimilislækni eða meltingarlækni um leit að ristilkrabbameini.
- Ef fjölskyldusaga um ristilkrabbamein er í ætt þinni eða þú ert með aðra áhættuþætti þá ættirðu að ræða við lækninn þinn um það hvort ástæða sé til að láta leita fyrr en ella. Í Bandaríkjunum er byrjað að leita að ristilkrabbameini tíu árum áður en náinn ættingi (foreldri, systkini eða barn) greinist og eigi síðar en um fimmtugt. Ef fjarskyldari ættingjar hafa greinst (afi, amma, móðursystir o.fl.) er ekki talin ástæða til að flýta leit.
Grein þessi er fengin af vef krabb.is í tilefni Bleiku Slaufunnar 2015 og birtist með góðfúslegu leyfi þeirra
Höfundur greinar:
Grein af vef doktor.is