Harvard háskólinn í Boston hóf árið 1938 einhverja lengstu rannsókn á þroskaferli karlmanna sem um getur. Næstu áratugi var fylgst með 268 karlmönnum sem útskrifuðust úr skólanum það ár. Markmiðið var að finna hvaða þættir það væru helst sem stuðluðu að því að mönnum vegnaði vel í lífinu. Líffræðilegir þættir, sálfræðilegir og mannfræðilegir voru skoðaðir í rannnsókninni, svo sem eins og greind, manngerð, drykkjuvenjur og fjölskylduhagir.
George Vaillant sem stjórnaði rannsókninni í meira en þrjá áratugi gaf nýlega út bók með helstu niðurstöðunum, en hún heitir „Triumphs of Experience“ (Amazon). Í úrdrætti bókarinnar segir:
"Á tímum þegar margir í heiminum verða næstum hundrað ára, sýnir lengsta rannsókn sem hefur verið gerð á lífshlaupi karla, jákvæðar niðurstöður fyrir þá sem eldri eru. Líf okkar heldur áfram að þróast á gamals aldri og verður oft innihaldsríkara en áður. Árið 1938 hófst rannsókn á líffræðilegri og andlegri heilsu rúmlega 200 karlmanna í háskólanámi. Þessi sígilda rannsókn á því hvernig mönnum farnast í lífinu, veitti upplýsingar um líf þeirra til 55 ára aldurs og gaf upplýsingar um þróun þeirra á fullorðinsárum. George Vaillant fylgdi þessari könnun eftir og hélt rannsókn sinni áfram, þegar karlarnir voru komnir á tíræðisaldur. Rannsóknin náði til margra þátta í lífi karlmannsins, þar á meðal til sambanda hans við aðra, stjórnmálaskoðana, trúarlífs, aðferða við að komast af og áfengisnotkunar. (Það kom í ljós að misnotkun áfengis er helsti einstaki þátturinn sem veldur heilsubresti og óhamingju þeirra sem tóku þátt í rannsókninni). Niðurstöðurnar koma á óvart. Fólk sem lifir góðu lífi á efri árum er ekki endilega sama fólkið og átti gott líf um miðbik ævinnar og öfugt. Rannsóknin sýnir að það er hægt að ná sér á strik þótt menn hafi upplifað óhamingjusama æsku, en hún sýnir líka að það er stöðugt hægt að sækja styrk í hamingjusama bernsku. Hjónabandið veitir mönnum meiri ánægju eftir að þeir ná sjötugsaldri og erfðaþættir hafa mun minni áhrif á heilsu manna eftir áttrætt en það hvernig þeir höguðu lífi sínum á miðjum aldri. Við höfum meiri áhrif á það sjálf, hvort við eldumst á farsælan hátt, en genin sem við berum“.
Niðurstöður rannsóknarninnar eru margvíslegar, en sú helsta er samt sem áður sú, að áfengissýki er helsta orsök þess að menn missa tökin á lífi sínu. Áfengissýki var aðalorsök hjónaskilnaða hjá þeim körlum sem könnunin náði til. Of mikil áfengisneysla reyndist einnig tengjast sálrænum erfiðleikum og þunglyndi (sem kemur oftast nær í kjölfar drykkju en ekki á undan henni) Áfengisneysla og reykingar voru aðalorsök dauðsfalla í þessum hópi. Þegar komið er yfir ákveðin mörk í drykkjunni, duga góðar gáfur ekki til að koma í veg fyrir að menn fari sér að voða.
Önnur niðurstaða könnunarinnar var að menn sem voru frjálslyndir í skoðunum stunduðu meira kynlíf en þeir sem voru íhaldssamir. Pólitískar skoðanir höfðu almennt ekki áhrif á ánægju manna með lífið, en íhaldssamir karlar hættu að stunda kynlíf um 68 ára aldur, en þeir frjálslyndu stunduðu kynlíf fram á níræðisaldur. Menn hafa ekki skýringu á þessu á takteinum. En í rannsókninni „Triumphs of Experience“ kemur margt fram hjá Vaillant. Eitt af því sem honum verður tíðrætt um er hversu mikil áhrif, tilfinningasambönd við aðra hafa á hamingju þeirra á eftir árum. Það kom til dæmis í ljós að þeir menn í rannsókninni sem voru í góðum samböndum, höfðu hærri tekjur en hinir sem voru það ekki.
Annað sem var forvitnilegt í rannsókninni var að samband sona við mæður sínar reyndist hafa mikil áhrif á það hversu vel þeim gekk í lífinu. Vitnað er í grein í Business Insider um það, en þar segir:
"Menn sem höfðu náið samband við mæður sínar í æsku þénuðu mun meira en þeir sem áttu mæður sem skiptu sér lítið af þeim. Þá voru karlar sem höfðu lítið samband við mæður sínar í æsku, líklegri en hinir til að þjást af heilaglöpum sem gamlir menn. Á fullorðinsárum var afkastageta þeirra í vinnu, tengd sambandi þeirra við móður sína en ekki föður. Gott samband við feður hafði hins vegar þau áhrif, að þeir þjáðust minna af streitu og gátu slakað á í sumarleyfum. Það hafði einnig í för með sér meiri vellíðan við 75 ára aldur, en samband þeirra við móður sína virtist aftur á móti ekki hafa mikil áhrif á það“.
Í sem fæstum orðum er niðurstaða rannsóknarinnar þessi, segir í greininni. Hamingjan er kærleikurinn.
Heimild: lifdununa.is