Læknar bera oft meira traust til þess framleiðanda sem mest hefur rannsakað lyfið; þarna gildir einnig sölumáttur þekktra vörumerkja eins og á mörgum öðrum sviðum. Hins vegar eru öll eftirlíkingarlyfin sem hér eru seld framleidd af mjög virtum lyfjaframleiðendum og fást ekki skráð nema sýnt sé fram á, að verkun lyfjanna sé sambærileg verkun frumlyfjanna í nær öllum þáttum. Oftast koma sambærilegu lyfin á markaðinn nokkrum árum síðar en frumlyfið, en þess eru þó dæmi að eftirlíkingarlyf sé skráð á undan frumlyfinu.
Stundum eru lyfjaform lyfja með sama innihaldsefni svo ólík að verkun þeirra verður ósambærileg. Þetta á t.d. við um lyf þar sem annað lyfið leysist hægar upp og gefur jafnari þéttni í blóði eða það fer með öðrum hætti inn í blóðrásina.
Fyrir kemur að sjúklingar halda því fram að þeir finni mun á verkun sambærilegra lyfja. Þetta er oftast útskýrt sem ímyndun og er það vafalaust oft. Þó geta verið viss lyfjafræðileg rök fyrir slíkum mun. Hið virka efni lyfsins er oft blanda tveggja sameinda sem eru spegilmynd hvor af annarri. Oft er verkun þessara tveggja mynda lyfsins ólík. Lyfjasameindir sambærilegra lyfja eru oftast framleiddar með ólíkum aðferðum. Þetta getur valdið því að hlutfall þessara spegilmynda sé breytilegt í lyfjunum tveimur. Stundum eru líka efni í töflum sem binda þær saman eða lita þær, og þessi efni geta hugsanlega breytt einhverju í verkun lyfsins.
Með aukinni nákvæmni í framleiðslu verður þessi munur þó sífellt minni.