Að glíma við geðröskun segir ekkert til um að þú sért eitthvað öðruvísi. Það segir að þú þurfir hjálp eins og aðrir þurfa hjálp við sínum sjúkdómum.Sumir þurfa að lifa með sínum geðröskunum allt sitt líf á meðan aðrir geta náð fullum bata. Mikilvægast er að geta eignast lífsgæði sem þátttakandi í lífinu. Samvinna er þá besta meðalið þar sem góð hlustun getur gefið einstaklingum traust og trú á að þeir skipti máli og hafi tækifæri á að nýta sýna styrkleika.
Við sem glímum við geðraskanir erum alls staðar í samfélaginu óháð stöðu og stétt eins og aðrir sem glíma við aðra sjúkdóma. Það eru 35 til 40 manns sem falla fyrir eigin hendi á ári hér á landi og 500 til 600 sem gera tilraun. Afleiðingarnar eru skelfilegar fyrir aðstandendur og vini. Þau sem reyna eru í aukinni hættu. Sem betur fer er umræðan aðeins að opnast og ég vona að miklar umræður muni skapast í kringum sjónvarpsþáttaröð sem Jón Ársæll mun vera með á RÚV eftir áramót. Í þáttunum verður rætt við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða.
Grófin geðverndarmiðstöð hefur sýnt notagildi sitt sem félagasamtök á þeim 3 árum sem þau hafa verið starfandi. Eftir fyrsta árið gátum við ráðið sálfræðing sem var viss viðurkenning yfirvalda á okkar starfi. Grófin hefur unnið mikið forvarnarstarf sem hefur hjálpað mörgum að stíga skrefið til að öðlast bætt lífsgæði. Árið 2015 fékk Grófin hvatningarverðlaun frá forvarna- og fræðslusjóðnum ,,Þú getur“ fyrir forvarnarstarf og námsmenn hlutu námstyrki. Grófin hefur stuðlað að aukinni þekkingu í samfélaginu með geðfræðslu í skólum sem og sveitarfélögum og fengið mikið lof fyrir.
Geðfræðsla Grófarinnar fór m.a. í 2 daga ferð með geðfræðslu til Norðfjarðar. Það var foreldrafélag Nesskóla á Norðfirði sem sá fréttaviðtal á RÚV um okkar fræðslu sem skilaði þessari ferð. Ferðin heppnaðist framar vonum en þessi málaflokkur er enn lokaðri í minni sveitarfélögum. Þetta sýnir líka hverju fjölmiðlar geta komið til skila með að sýna það jákvæða sem er verið að gera og mætti vera meira gert af því.
Grófin hefur átt í góðu samstarfi við Háskólann á Akureyri á ýmsum sviðum og útlit fyrir framhald þar á. Grófin er komin í nánara samstarf við geðdeild á sjúkrahúsi Akureyrar og vonandi mun heilsugæslan koma í samstarf en þeim hefur verið kynnt okkar starf. Einstaklingar úr Grófinni hafa opnað sig í fjölmiðlum og miðlað af sinni reynslu til samfélagsins til að auka þekkingu og gefa öðrum von. Grófin hefur tekið þátt í málþingum og verið með aðstandendafræðslur. Þegar notendur fá aukið vægi og takast á við áskoranir með góðum stuðningi eflist sjálfstraustið og sjálfsvirðingin sem gerir þá sterkari til að takast á við lífið. Þar hefur hópastarfið komið sterkt inn þegar þátttakendur fara að taka skrefið aðeins lengra og fara að ögra sjálfum sér með því að spreyta sig í hlutverki hópstjóra.
Einstaklingar úr Grófinni hafa byrjað að vinna aftur og aðrir hafa náð að rjúfa sína einangrun og byggja sig upp hægt og rólega. Að hafa hlutverk í lífinu skiptir alla máli og fyrir suma er þeirra hlutverk að koma í Grófinna og hitta aðra og taka þannig þátt í starfinu. Sameiginlega getum við svo haft áhrif á samfélagið og nýtt okkar reynslu til góðs. Við sem glímum við geðraskanir erum allstaðar í samfélaginu óháð stöðu og stétt. Það sem getur skipt einstakling máli sem glímir við geðröskun eða er að einangra sig mikið er að hitta aðra sem hafa verið í þeirri stöðu.
10.október s.l var Aðþjóðlegur geðheilbrigðisdagur og um leið 3 ára afmælisdagur Grófarinnar. Við höfum haldið upp á þennan dag öll þessi ár til að minna á og sýna í verki hvað geðheilbrigði skiptir miklu máli. En talið er að 1 af hverjum 4 muni á hverju ári glíma við geðröskun en þó í mismiklum mæli.
Höfundur greinar:
Eymundur Eymundsson ráðgjafi og félagsliði með master í félagsfælni og kvíða.