Allt að 30-40% fólks í sambandi kýs að sofa sitt í hvoru lagi og rannsóknir benda til þess að slíkt geti haft jákvæð áhrif á svefnvenjur fólks og sumir vijlja jafnvel meina að það að sofa í sitthvoru lagi geti bjargað hjónabandinu. Hjón sem deila rúmi eru sögð allt að helmingi líklegri til þess að upplifa svefnvandamál samanborið við þau sem sofa í sitthvoru lagi og ljóst er að langvarandi svefnskortur getur haft neikvæð áhrif á sambandið.
Helstu ástæður þess að sum pör sofa betur í sitthvoru lagi eru truflandi hrotur maka, ólík hitastjórnun og ólíkir svefntímar. Einnig getur verið að annar aðilinn vilji lesa fyrir svefninn á meðan hinn vill geta lagst á koddann og farið beint að sofa. Það er algengara með aldrinum að vakna upp á nóttinni t.d. til að nota salernið og slíkt brölt getur truflað svefn makans.
Mörgum pörum finnst vera mikið feimnismál að viðurkenna að þau sofi ekki í sama rúmi og því telja sérfræðingar að þetta sé í raun mun algengara en tölur gefa til kynna. Flestar rannsóknir á þessu hafa verið gerðar í Bandaríkjunum en forvitnilegt væri að vita hvort þetta sé jafn algengt meðal íslenskra para?
Ljóst er að lítið hefur verið um þessa umræðu hér á landi og spurning hvort ástæðan sé sú að við kjósum frekar að kúra saman á köldum vetrarnóttum?
Eflaust er það rétt að sum pör sofa betur í sitthvoru lagi og ef fólk upplifir endurteknar andvökunætur vegna makans er líklegt að slíkt skapi spennu og hafi neikvæð áhrif á sambandið. Í þeim tilvikum gæti verið góð hugmynd að prófa að sofa í sitthvoru rúminu eða jafnvel herberginu og sjá hvort að svefninn og sambandið batni.
En þrátt fyrir allar þessar staðreyndir er þó ljóst að mörgum finnst gott að kúra hjá makanum og líklega eru kostir þess að sofa saman ekki síðri fyrir gott samband.
Meira um svefn má lesa á betrisvefn.is