Inn í þetta ferli spila félagslegar aðstæður sem hafa orðið viðkomandi andsnúnar, skyndileg áföll, missir eða langvarandi streita; persónuleikaþættir sem kunna að einkennast af reiði og hvatvísi; óhófleg áfengis- og vímuefnaneysla og síðast en ekki síst, þunglyndi og/eða mikill kvíði.
Nokkrar rannsóknir, ein íslensk og nokkrar erlendar hafa sýnt fram á að sjálfsvíg geta fylgt ákveðnum ættum. Þó er ekki vitað hvað erfist, fyrirmyndir og ákveðin „fjölskylduhefð“, þunglyndi, áfengissýki eða persónuleikaraskanir, svo eitthvað sé nefnt. Það er þó ljóst að stór meirihluti þeirra sem sviptir sig lífi hefur átt við þunglyndi að stríða og jafnvel aðrar geðraskanir.
Það hefur viljað brenna við að sjálfsvíg sé sveipað dulúð og jafnvel upphafið á einhvern hátt. Kemur þetta sérstaklega fram við sjálfsvíg frægs fólks. Ekki verður þó horft fram hjá því að sjálfsvíg er alltaf harmleikur, sem hefur gríðarleg áhrif á umhverfi þess sem sviptir sig lífi, fjölskyldu, vini, vinnu- og skólafélaga og aðra.
- Af þessu má ætla að nokkrir tugir karla og kvenna, tengdir einstaklingi sem sviptir sig lífi, muni finna fyrir verulegri röskun á geðheilsu.
- Í flestum tilfellum mun um tímabundna röskun að ræða, en nokkur hluti þessa hóps mun þurfa faglega ráðgjöf eða sérfræðimeðferð til að ná sér vel á strik aftur.
Þeir sem eftir lifa sitja eftir uppfullir af sárum tilfinningum, undrun, dofa, afneitun, ákafri sorg, reiði, sjálfsásökunum og/eða ásökunum á aðra. Sjálfsmynd aðstandenda brotnar og þeir sitja uppi með áleitnar spurningar. Þeir kenna sér um og hafa oft tilhneigingu til að einangra sig. Erfitt getur reynst að vinna úr sársaukanum og sumir losna aldrei undan honum. Því er alltaf mjög mikilvægt að sinna eftirlifendum vel. Það sama á við um það þegar einhver gerir sjálfsvígtilraun, sem ekki tekst. Áhrifin eru oft svipuð, þó ekki eins áköf, og mikilvægt að vinna úr þeim.
Tíðni
Tíðni sjálfsvíga á Íslandi er í lægri kantinum miðað við önnur Norðurlönd, eða nú um 12,8 sjálfsvíg á hverja 100.000 íbúa. Þessi tala sveiflast mikið milli ára og er hér miðað við nokkurra ára meðaltal. Þetta þýðir að:
Karlar eru mun líklegri en konur til að svipta sig lífi, en konur gera mun fleiri sjálfsvígstilraunir sem enda ekki með dauða. Það hefur valdið miklum áhyggjum hve sjálfsvígstíðni karla undir 25 ára aldri hefur aukist undanfarna áratugi, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim. Orsakir eru óljósar og eflaust margþættar, en ekki er ólíklegt að örar félagslegar breytingar, jafnvel breytingar á samfélagslegri stöðu karlmanna kunni að valda einhverju þar um.
Hverjir eru í hættu?
Erfitt er spá fyrir um hverjir kunna að verða líklegir til að komast í sjálfsvígshættu og víst er að sjálfsvíg geta komið fyrir í öllum fjölskyldum. Samkvæmt niðurstöðum erlendra rannsókna má greina ákveðna hópa sem eru í meiri hættu en aðrir:
Auk þeirra sem þjást af þunglyndi virðist sem fólk með mikinn fíkniefnavanda sé hættara en öðrum, svo og fólki sem hefur orðið fyrir miklum breytingum á félagslegri stöðu eins og við missi, atvinnuleysi og los á tengslum við aðra. Þeir sem áður hafa reynt sjálfsvíg eru líklegri til að reyna aftur og líklegri til að láta tilraunina takast.
Að þekkja fyrstu einkenni og stigmögnun einkenna
Stundum er hægt að sjá einkenni sem geta verið forboði sjálfsvígstilraunar. Hugsanir um dauðann eru einar og sér nokkuð algengar, en taka ber þær alvarlega ef þær verða mjög áberandi. Þá geta þær þróast yfir í vægar sjálfsvígshugsanir og síðan hugsanir um sjálfsvíg. Þegar hugsanir um sjálfsvíg verða yfirþyrmandi svo að ekkert annað kemst að er veruleg hætta á ferð.
Sjálfsvígsáætlun, og svo tal um dauðann, beint eða undir rós, ber alltaf að taka mjög alvarlega. Þegar fólk talar um að hann/hún sé einskis virði fyrir aðra, sé bara fyrir, aðrir séu best komnir án hans/hennar þarf alltaf að fylgja því eftir. Hegðunarbreytingar eins og ef viðkomandi fer að gefa frá sér eigur sínar, sýnir skeytingarleysi um eigin hag, stundar áhættuhegðun eða ef bera fer á vaxandi og óvarlegri notkun áfengis eða annarra vímuefna geta verið merki um verulega kreppu.
Það er mikilvægt að spyrja viðkomandi um líðan, og ef ástæða er til, að ræða um leiðir til hjálpar ef samtöl ein og sér duga ekki til. Þá kemur til kasta fagaðila eins og heimilislæknis, sérfræðinga á geðsviði, göngudeilda geðdeildanna, presta eða jafnvel Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Það er mikilvægt að grípa inn í fljótt ef grunur leikur á að einhver nákominn manni sé í sjálfsvígshættu. Það er oft erfitt að stíga yfir þann þröskuld af ótta við að styggja viðkomandi. Reyndin er þó sú að flestum léttir við það geta rætt um sína erfiðu líðan við vini eða ættingja.
Áhugaverðir vefir um sjálfsvíg:
Heimildir: landlaeknir.is