En þetta hefur sem betur fer breyst, og hvernig ætti að vera hægt að berjast á móti sjálfsvígum ef það má ekki tala um þau,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Geðhjálpar, en um næstu mánaðamót ætlar tólf manna hlaupahópur að hlaupa hringveginn til að safna pening í átaksverkefni undir heitinu Útmeða, sem er vitundarvakning gagnvart sjálfsvígum ungra íslenskra karla. Geðhjálp, Hjálparsími Rauði krossinn og hlaupahópurinn standa saman að átakinu.
Karlar eru hvatvísari
„Í hinum vestræna heimi eru ungir karlmenn á aldrinum 18 til 25 ára, þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að fremja sjálfsvíg en konur á sama aldri. Nokkrar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessum kynjamun. Karlmenn eiga erfiðara en konur með að tala um tilfinningar sínar, og það er einmitt ástæðan fyrir því að við köllum þetta átak okkar Útmeð‘a, við viljum hvetja karlmenn til að tala um tilfinningar sínar, af því það eitt að segja einhverjum frá því hvernig manni líður léttir mikið á vanlíðan. Einnig hefur verið talað um að karlmenn neyti frekar vímuefna en konur og séu hvatvísari. Ungir karlmenn virðast eiga erfiðara með að finna sér stað í samfélaginu en konur, þeir eru undir miklum kröfum, þeir verða frekar fyrir einelti og vinna ekki úr því. Margt af þessu bendir til þess að körlum líði oft tilfinningalega verr en konum, og það getur brotist út á þann hræðilega hátt sem sjálfsvíg er.“
Vandi hjá báðum kynjum
Anna segir að á hverju ári séu hundrað manns lagðir inn á sjúkrahús hér á landi vegna vísvitandi sjálfsskaða, og í þeim hópi séu fleiri konur en karlar.
„Þó við leggjum áherslu á ungu karlana núna, þá erum við að vekja athygli á þessum vanda hjá báðum kynjum. Að meðaltali hafa 35 manns tekið líf sitt á hverju ári á Íslandi, sem er gríðarlega há tala eða þrír einstaklingar í hverjum mánuði. Auk þess er líklegt að talan sé hærri því stundum getum við ekki vitað fyrir víst hvort að um sjálfsvíg eða slys hafi verið að ræða,“ segir Anna og bætir við að því miður sé staðan þannig núna að sjálfsvíg séu algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára.
Margar leiðir til hjálpar
„Áður var algengasta dánarorsök karlmanna á þessum aldri dauðaslys í umferðinni, en með sérstöku átaki hefur slíkum dauðsföllum fækkað gríðarlega. Árið 2011 dó enginn ungur karlmaður í umferðarslysi, fjórir árið 2012 og einn árið 1213 og 2014. Þessi árangur sýnir vel hversu forvarnir eru mikilvægar. Á hverju ári falla fjórir til sex karlar á þessum aldri fyrir eigin hendi, sem er mjög sárt, vegna þess að það er eitthvað sem þarf ekki að gerast. Þetta eru ungir menn í blóma lífsins og það er hægt að hjálpa þeim. Ýmsar leiðir eru í boði, ef menn eru í skóla þá er gott að leita til námsráðgjafa, en talið er að 12 prósent brottfalls úr skóla sé vegna andlegrar vanlíðunar. Einnig er hægt að leita til heimilislæknis eða heilsugæslunnar og ef vandinn er á mjög alvarlegu stigi þá er best að fara á bráðageðdeild geðsviðs Landspítalans við Hringbraut. Einnig er Hjálparsími Rauða krossins mjög góð leið til að byrja að leita sér hjálpar, á öllum tímum sólarhringsins er hægt að hringja í þann síma, 1717. Þar er hlustað á fólk, því veitt ráðgjöf og vísað áfram, eftir því á hvaða stað það er,“ segir Anna og bætir við að símtölum um sjálfsvíg, eigið eða annarra, hafi fjölgað um 42% milli fyrrihluta ársins 2014 og fyrrihluta ársins 2015.
„Það sýnir vel hversu mikil þörf er fyrir svona hjálparleið. Eitt símtal á hverjum einasta degi í Hjálparsímann snýst um sjálfsvíg, ýmist hjá þeim sem hringir eða einhverjum nákomnum.“
Vöðvar duga ei ef sál er veik
Anna leggur áherslu á nauðsyn þess að umræðan um sjálfsvíg sé opin og að forvörnum sé sinnt.
„Forvarnarátakið Þjóð gegn þunglyndi um aldamótin sannaði svo ekki varð um villst að hægt er að ná verulegum árangri til að fækka sjálfsvígum með vitundarvakninu. Þetta er vissulega viðkvæm umræða og ber að fara varlega, en okkur finnst að umræðan hafi opnast og fólk gerir sér grein fyrir því að það er engin heilsa án geðheilsu. Það skiptir engu máli að vera vöðvastæltur eða geta hlaupið maraþon ef manni líður alvarlega illa á sálinni. Við erum ekki talsmenn ofgreininga, það er eðlilegt að okkur líði ekki hundrað prósent vel alla daga, en þegar þunglyndi er farið að hamla því að fólk geti gert það sem það vill og þarf, hvort sem það er að vinna, vera í skóla eða hitta fólk, þá er það alvarlegt og þá þarf að leita sér hjálpar. Við hjá Geðhjálp erum með ókeypis ráðgjöf fyrir fólk sem líður illa, hægt er að koma í þrjú fjögur skipti í klukkutíma í senn, og fólk getur fengið leiðbeiningar um hvað leiðir eru færar miðað við stöðu mála hjá viðkomandi. Við erum líka með ráðgjöf fyrir ættingja, því í kringum hverja einustu manneskju eru margir sem hafa áhyggjur og vita ekki hvað skal gera við slíkar aðstæður.“
Þekkja af eigin reynslu
Anna segir sérlega ánægjulegt að upplifa það að fólk úr líkamsræktargeiranum komi til Geðhjálpar og óski eftir samstarfi við þau, líkt og fólkið í hlaupahópnum gerði sem leggur upp í langferðina um næstu mánaðarmót.
„Þetta fólk gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að bæði líkaminn og sálin séu heilbrigð, enda hafa sum þeirra kynnst veruleika sjálfsvíga, þarna eru sjúkraflutningamaður, slökkvuliðsfólk og fleiri. Með þessu átaki erum við að safna fyrir forvarnarverkefni því okkur langar að gera myndband og frumsýna það á aljóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga í haust, þann 10. september. Okkur langar líka til að fara í skóla og vera með fræðslu um sjálfsvíg. Allt kostar þetta peninga og vonandi safnast sem mest í hlaupinu.“
Með slagorðinu eru ungir menn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð í því skyni að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. Markmið átaksins er að efna til vitundarvakningar meðal almennings til að fækka sjálfsvígum í þessum viðkvæma hópi.