Til viðbótar má bæta í sjúkrakassann verkjatöflum s.s. panodil en þær fást án lyfseðils í apótekum, ofnæmistöflum sem einnig fást án lyfseðils í apótekum. Gott er að útbúa lista yfir innihald kassans og festa hann inn í lokið og setja dagsetningar fyrir aftan þá hluti sem hafa takmarkaðan endingartíma.
Rauði kross Íslands gaf út nýtt kennsluefni í skyndihjálp haustið 2000, bókina
„Skyndihjálp og endurlífgun”. Um er að ræða þýðingu á bókinni „First Aid and CPR essentials“ sem skrifuð er fyrir National Safety Council en þau samtök eru mjög framarlega á sviði skyndihjálpar í Bandaríkjunum. Við íslenska útgáfu var reynt að aðlaga bókina að íslenskum aðstæðum. Það er von okkar að bókin sé áhugaverð og fróðleg fyrir alla þá sem kynna sér innihald hennar.
Markhópur bókarinnar eru allir sem vilja fræðast um skyndihjálp, þó er sjónum helst beint að unglingum og fullorðnu fólki. Bókinni er skipt í átján kafla og hefur hver kafli afmarkað viðfangsefni. Fyrsti kaflinn gefur innsýn í sögu og starf Rauða krossins og skyndihjálparinnar en hinir kaflarnir innihalda beina fræðslu í skyndihjálp og endurlífgun. Kaflarnir eru sjálfstæðir og þá má lesa í þeirri röð sem hentar best. Bókin er einstaklega skýr í framsetningu og er prýdd fjölda mynda og teikninga. Aftast í hverjum kafla er spurningalisti sem lesendur geta nýtt sér til nánari glöggvunar á efninu.
Verklegar æfingar fyrir lesendur eru í bókinni. Einnig eru flæðirit sem gefa góða yfirsýn yfir skyndihjálparferlið.
Víðs vegar í bókinni eru litlir dálkar sem bera yfirheitið VARÚÐ: EKKI. Þeir segja frá því sem ber að varast að gera við tilteknar aðstæður og geta oft svarað spurningum sem vakna hjá lesendum.
Atriðaorðaskrá er aftast í bókinni sem nota má við leit að einstökum efnistökum.
Vinnubók fylgir kennslubókinni og gerir nemendum kleift að æfa sig og kanna stöðu sína í náminu. Um er að ræða krossaspurningar, eyðufyllingar, rétt og/eða rangt spurningar, verklýsingar, myndrænar lýsingar o.fl. Vinnubókina er gott að nota samhliða kennslu hvers kafla í kennslubók og í kennsluleiðbeiningum er vísað til kafla í vinnubók.
Margmiðlunardiskur fylgir kennsluleiðbeiningunum. Hann inniheldur glærur með aðalatriðum skyndihjálparkennslunnar og er vísað í þær á viðeigandi stöðum í kennsluleiðbeiningunum. Jafnframt eru myndir og flæðirit á disknum. Bent er á nauðsyn þess að nota aðrar kennsluaðferðir samhliða fyrirlestri og glærusýningu til þess að virkja nemandann í náminu og stuðla að fjölbreyttri kennslu.
Bókinni fylgja tvö þýdd kennslumyndbönd í skyndihjálp. Hægt er að fá þau lánuð eða keypt á aðalskrifstofu Rauða kross Íslands. Þar sem myndböndin eru nokkuð ítarleg og löng er ekki ráðlagt að leiðbeinendur sýni þau í heild sinni. Betra er að velja úr þau myndskeið sem eru gagnleg og árangursrík í kennslunni hverju sinni. Í byrjun hvers myndbands er stutt kynningarmyndband um Rauða krossinn, „When I think of angel“, sem æskilegt er að sýna nemendum
Heimild: raudikrossinn.is