Nú er að renna upp annasamur tími fyrir marga og sumir upplifa jafnvel streitu í jólaundirbúningnum.
Góður svefn yfir jólin skiptir máli
Nú er að renna upp annasamur tími fyrir marga og sumir upplifa jafnvel streitu í jólaundirbúningnum.
Á þessum árstíma er mikilvægt að huga að svefninum og þegar jólafríið skellur á kemst gjarnan óregla á svefnmynstrið sem erfitt getur verið að leiðrétta á nýju ári.
Hér eru því nokkur einföld ráð til að halda svefninum góðum yfir hátíðirnar:
- Reyndu að forðast streitu og passa uppá skipulag: Streita er ein algengasta orsök svefnvandamála en með góðu skipulagi má draga úr líkum á streitu. Ekki geyma allt sem þarf að gera fram á síðustu stundu og stilltu kröfunum í hóf. Það koma jól þó svo ekki náist að klára allt á listanum langa og það mikilvægasta er að njóta jólanna í faðmi ástvina og gefa sér tíma til að slaka á.
- Reyndu að halda þinni rútínu: Fyrir utan jólastressið þá er breyting á rútínu það sem helst veldur erfiðleikum með svefn á þessum árstíma. Vissulega getur reynst erfitt að halda sínum hefðbundnu svefntímum i jólafríinu þar sem mikið er um veislur og börn og fullorðnir þurfa ekki að vakna til að mæta í skóla eða vinnu. Óhætt er að vaka örlítið lengur á kvöldin og sofa aðeins lengur á morgnana en forðast skal í lengstu lög að snúa sólarhringnum við. Slíkt hefur neikvæð áhrif á svefn og almenna líðan og langan tíma getur tekið að komst í réttan takt á ný þegar fríinu lýkur.
- Reyndu að hafa kvöldin róleg: Að slaka á og forðast áreiti eins og tölvunotkun og sjónvarpsgláp síðasta klukkutímann fyrir svefn er gott ráð. Mikilvægt er að koma líkama og sál í ró áður en farið er uppí rúm á kvöldin. Gott ráð getur verið að fara í heitt bað og lesa góða bók fyrir svefninn.
- Stundaðu reglubundna hreyfingu: Þó það geti verið freistandi að taka sér frí frá ræktinni í jólafríinu þá er skynsamlegt að stunda einhverja hreyfingu. Reglubundin hreyfing er ekki aðeins góð fyrir líkama og sál því hún stuðlar einnig að góðum svefni.
- Notaðu dagsbirtuna: Reyndu að fara út þegar dagsbirtan er til staðar. Það hjálpar líkamsklukkunni að vera í réttum takti og göngutúr í snjónum hressir, kætir og jafnvel bætir svefn.
- Ekki borða alltof mikið: Auðvitað er eðlilegt að borða aðeins meira en við erum vön á þessum árstíma en forðast skal þó mjög þungar máltíðir og sykurneyslu seint á kvöldin. Slíkt hefur neikvæð áhrif á svefn og almenna líðan.
- Takmarkaðu neyslu áfengis: Á þessum árstíma er gjarnan mikið um veislur þar sem áfengi er haft við hönd. Þess ber að gæta að neysla áfengis hefur slæm áhrif á svefn. Áfengi getur valdið því að við sofnum fyrr en svefninn verður hins vegar gæðaminni og uppvöknunum á nóttinni fjölgar. Mikilvægt er því að forðast áfengisneyslu síðustu klukkustundirnar fyrir svefninn.
Heimild: betrisvefn.is