Hvað er sólanín?
Sólanín er samheiti yfir glýkóalkalóíðana en það eru náttúruleg eiturefni sem geta myndast í kartöflum. Magn þessara efna er yfirleitt mest í hýði og spírum. Magn þessara efna fer þó eftir afbrigðum. Sólarljós, hnjask og annar skaði sem kartöflurnar geta orðið fyrir stuðla að myndun sólaníns í kartöflunum. Svokölluð „græna“ myndast í kartöflunum þegar þær eru geymdar í ljósi. Tengsl eru á milli myndun á þessari „grænu“ og glýkóalkalóíða í kartöflunum. Ef magn þessar efna nær yfir ákveðinn styrk í kartöflunum (200mg/kg) eru þær ekki taldar viðunandi til neyslu vegna eiturefnanna.
Hvað áhrif getur sólanín haft?
Meðal áhrifa sem þessi eiturefni hafa, ef þeirra er neytt í of miklu magni, eru meltingartruflanir og í verstu tilfellum getur það haft neikvæð áhrif á taugakerfið. Talið er að inntaka yfir 2mg/per kg líkamsþyngdar geti valdið eitrun. Einkenni eitrunar eru uppköst, niðurgangur, magaverkir, sinnuleysi, slappleiki og meðvitundarleysi. Ekki er þó ástæða til að hætta að borða kartöflur eða sniðganga þær, heldur einungis að hafa þetta í huga þegar við veljum kartöflurnar okkar.
Inni á vef matvælastofnunnar má finna ráðleggingar er varðar sólanín í kartöflum en þar segir meðal annars:
Framleiðendur og pökkunaraðilar eiga að flokka grænar kartöflur frá í framleiðslu. Pökkunaraðilar verða að sjá til þess að kartöflurnar séu geymdar í myrkri meðan þær stoppa hjá þeim. Verslanir verða að sjá til þess að sem minnst lýsing sé á kartöflum meðan þær eru í búðinni, t.d. geyma þær í dimmum kössum sem viðskipavinir taka kartöflurnar úr eða í dökkum umbúðum. Neytendur ættu að geyma kartöflur á dimmum stað heima fyrir. Varist að borða skemmdar og/eða grænar kartöflur.
Höfundur: Valgerður Lilja Jónsdóttir, matvælafræðingur
Þessi grein birtist fyrst í Matur er Mannsins Megin 2014.