Norræna velferðarstofnunin hefur gefið út ritið „Misnotkun staðreynda? Áfengi og vímuefni í fjölmiðlum“ sem hefur að geyma ábendingar fyrir viðmælendur og fréttamenn. Markmið ritsins er að stuðla að því að umfjöllun fjölmiðla um áfengi og vímuefni byggi í ríkari mæli á staðreyndum og nálgist málin frá öllum hliðum.
Í stafrænu samfélagi eru gerðar sífellt meiri kröfur um að geta metið og miðlað staðreyndum hratt og rétt. Þetta á ekki síst við um fréttamenn sem þurfa að útskýra flóknar aðstæður og rannsóknarniðurstöður. Ef viðfangsefnið er umdeilt og vekur upp sterkar tilfinningar, eins og áfengi og vímuefni gera, er aukin hætta á að misskilningur komi upp á milli fréttamanna og fræðimanna.
Fréttamenn leitast við að upplýsa og skýra hlutina á sem einfaldastan hátt, með skýru fréttagildi, um leið og krafa er gerð um fyrirsagnir sem laða að smelli. Rannsóknir hafa aftur á móti þann tilgang að afla þekkingar á grundvelli staðreynda, ekki endilega með stuttum og hnitmiðuðum svörum.
Vegna þessara mismunandi nálgana geta stéttirnar tvær haft fyrirframmótaðar skoðanir á hvor annarri. Margir fræðimenn líta á einföldun rannsóknarniðurstaðna sem vandamál og sumir þeirra forðast að mæta í viðtöl af ótta við að niðurstöður þeirra verði rangtúlkaðar.
Á móti vildu margir fréttamenn gjarnan að fræðimenn settu niðurstöður sínar fram á aðgengilegri hátt og skildu betur á milli þess sem á erindi við almenning og þess sem ætlað er sérfræðingum.
Með auknum skilningi og gagnkvæmri virðingu aukast líkurnar á því að fréttaflutningurinn verði trúverðugur og réttur.
Í ritinu má finna ábendingar fyrir bæði fréttamenn og fræðimenn um hvernig þeir geta bætt samskipti á milli hópanna tveggja. Í ritinu er einnig orðalisti sem getur komið að gagni þegar fjalla þarf um rannsóknarniðurstöður, auk dæma um hugtök sem geta verið til vandræða í umfjöllun um mismunandi tegundir misnotkunar.
Ritið, sem gefið er út á öllum Norðurlandamálunum, er ætlað þeim sem stunda nám í blaða- og fréttamennsku og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í fræðistarfi, en einnig öðrum sérfræðingum sem koma að áfengis- og vímuefnamálum.
Embætti landlæknis á fulltrúa í vinnuhópi sem vann náið með höfundum ritsins.
Pantaðu ritið eða sæktu það ókeypis á vefnum:
Misnotkun staðreynda? Áfengi og önnur vímuefni í fjölmiðlumOpnast í nýjum glugga
Rafn M. Jónsson
verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna