Nú kann að virðast frekar undarlegt að sannur súkkulaðigrís skrifi pistla fyrir Náttúrulækningafélagið en heilsa snýst um svo margt annað en líkamann, góð heilsa þarf að ná yfir andlega sviðið í leiðinni. Þar kemur súkkulaðið sterkt inn. Ég hef það líka fyrir reglu að gleðjast alltaf þegar ég borða súkkulaði, ég tel að súkkulaði borðað af gleði og ánægju valdi síður aukakílóum en súkkulaði sem borðað er með vondri samvisku.
Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar á meintum áhrifum súkkulaðis og ég hef lesið þær fjölmargar. Niðurstöður þeirra rannsókna sem sitja eftir í kollinum á mér eru eingöngu jákvæðar. Þannig man ég eftir rannsókn sem sýndi fram á það að súkkulaðiát bætir minnið og hækkar greindarvísitöluna. Miðað við þá rannsókn held ég að ég teljist með gáfaðasta fólki landsins. Önnur rannsókn af svipuðum toga sýndi fram á það að því meira sem heildarsúkkulaðiát þjóðar var, því fleiri nóbelsverðlaunahafa átti viðkomandi þjóð. Ég dreg þó þá rannsókn aðeins í efa því enn sem komið er eigum við Íslendingar einungis einn nóbelsverðlaunahafa og miðað við það magn sem við höfum lagt á súkkulaðivogarskálarnar ættu þeir að vera mikið fleir. Eins hef ég lesið pistla sem lýsa því hvernig súkkulaði getur lækkað kólesteról í blóði, dregið úr hjartasjúkdómum og jafnvel komið í veg fyrir heilablóðfall. Allar þessar fínu niðurstöður eru þó ekki ástæður þess að ég borða súkkulaði, mér finnst það einfaldlega gott.
Það olli mér því töluverðum áhyggjum þegar ráðstefna kakóframleiðenda, sem haldin var í London fyrir um ári, lýsti því yfir að árið 2020 væri fyrirsjáanlegur skortur á kakóbaunum og þá myndi vanta um það bil 2 milljónir tonna kakóbauna til að svara eftirspurn. Þessi yfirvofandi skortur er tilkominn vegna ýmissa þátta.
Asíubúar eru hægt og rólega að byrja að narta í súkkulaðið, árið 2013 var áætlað að hver Asíubúi borðaði sem næmi um 200 g af súkkulaði á ári á meðan hver Evrópubúi sporðrenndi um 4,6 kg af súkkulaði á ári. Ef Asíubúar tileinka sér evrópska nálgun að súkkulaðiáti er því voðinn vís hjá súkkulaðiunnendum.
Kakó er upprunnið í Suður-Ameríku en um meginþorri allra kakóbauna er ræktaður í Afríku, einkum á Fílabeinsströndinni og í Ghana. Þar hafa miklar þurrkar herjað á bændur undanfarin ár og hefur það valdið uppskerubresti víða en kakóplantan þarf mikinn raka til að þrífast almennilega. Talið er að breytingar á veðurfari vegna hlýnunar jarðar leiki stórt hlutverk í þessum þurrkum og gæti ástandið því hæglega versnað á næstunni. Verð á kakóbaunum til bænda er ákaflega lágt, þótt heimsmarkaðsverð hafi hækkað gífurlega undanfarin ár. Bændurnir eru því hver á fætur öðrum að höggva niður kakórunnana sína og færa sig yfir í að rækta gúmmítré en fyrir þær afurðir fá bændurnir umtalsvert hærra verð. Kakóræktun hefur líka verið tengd við barnaþrælkun í Afríkuríkjum þannig að meðvitaðir súkkulaðiframleiðendur vilja einungis versla við bændur sem geta sýnt fram á að þeir misnoti ekki vinnuafl barna, sem enn dregur úr fjölda framleiðenda.
Auk alls þessa hafa alvarlegir plöntusjúkdómar herjað á kakóplönturnar. Skæðir sveppasjúkdómar lögðu kakóræktun næstum í rúst í heimkynnum plantnanna og var það ein helsta ástæða þess að framleiðslan færðist í aðra heimsálfu en þar voru þessir sjúkdómar ekki til staðar. Nú eru blikur á lofti því afrískir bændur hafa orðið varir við sveppasjúkdóma í kakóaldinum sem skemma um 30-40% af uppskerunni. Þessir sjúkdómar eru illgreinanlegir og sýkt kakóaldin sýnir engin einkenni fyrr en sveppurinn er kominn á alvarlegt stig. Flutningar á kakóaldinum milli staða hafa þannig breitt sjúkdóminn út og valdið alvarlegum faröldrum hjá bændum. Notkun sveppalyfja er ekki í boði við þessum sjúkdómum því þau gera aldinin óhæf til neyslu.
Allt þetta hefur í för með sér hækkun á heimsmarkaðsverði á kakói, aðalhráefninu í súkkulaðið. Árið 1993 kostaði tonnið af kakóbaunum um 185 þúsund krónur en í júlí 2014 var verðið komið upp í um 390 þúsund krónur á tonnið. Á svipuðum tíma jókst framleiðslan úr um 2 milljónum tonna í 3,5 milljónir tonna á ári. Stórir birgjar hamstra kakóbaunir og selja svo aftur á uppsprengdu verði, okkur hinum til mikilla ama því það hefur óhjákvæmilega í för með sér að súkkulaðistykkin hækka.
Súkkulaðiframleiðendur verða að bregðast við þessu með einhverju móti. Auk þess sem verðið á súkkulaðibitanum hækkar, minnka súkkulaðistykki að umfangi. Þessi þróun er nú þegar hafin. Jafnframt fara menn í að þróa sætindi þar sem súkkulaði er í aukahlutverki, ekki aðal eins og nú er víða. Þannig fyllast súkkulaðistykki af sykri, ávöxtum, hnetum, lakkrís og alls konar gúmmelaði sem kostar ekki eins mikið og súkkulaðið sjálft.
Ég vona að hægt verði að snúa þessari óheillaþróun við. Í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi eru nú í ræktun nokkrar bústnar og þrifalegar kakóplöntur sem vonandi gefa af sér fjöldann allan af kakóaldinum þegar þær hafa aldur til. Þannig gæti skapast viðskiptatækifæri fyrir Ísland, íslenskt súkkulaði, framleitt með nýtingu grænna auðlinda landsins, vonandi sérlega ljúffengt og bragðgott. Að minnsta kosti ætla ég að fresta öllum frekari áhyggjum af súkkulaðiskorti fram yfir jól því framundan er súkkulaðiveisla ársins, heitt súkkulaði á aðventunni, súkkulaðibitakökur að hætti mömmu og ómissandi Nóakonfekt á jólunum, allt í hófi að sjálfsögðu.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og súkkulaðiunnandi.
Heimild: nlfi.is