Stór rannsókn er í bígerð þar sem skoða á hvort næringarefnin í dökku súkkulaði geti komið í veg fyrir hjartaáfall og heilablóðfall.
Rannsóknir hafa nú þegar leitt í ljós að þegar efnið flavonóíð sem finna má í kakói er tekið í pilluformi þá getur það bætt blóðþrýsting, kólesteról og það hvernig líkaminn notar insúlín.
Þetta næringarefnið skemmist þó oft í þeirri vinnslu sem fer fram þegar súkkulaði er framleitt.
Rannsóknin sem er í bígerð mun hafa um 18.000 þátttakendur og er styrkt af Alþjóðlegu hjarta, lungna og blóðstofnuninni sem og fyrirtækinu Mars. Fyrirtækið Mars framleiðir M&M og Snickers og er með einkaleyfi á því að nota flavonóíð úr kakói í háu hlutfalli og setja það í hylki. Fyrirtækið selur nú þegar slíkar pillur en virka efnið í þeim er ekki eins mikið og í þeim sem á að prófa í nýju rannsókninni.
JoAnn Manson sem er yfirmaður fyrirbyggjandi lyflækninga á Brigham and Women‘s Hospital í Boston segir að í þessari rannsókn muni verða reynt að komast að því hvort það sé heilsubætandi ávinningur af innihaldsefnum í súkkulaði, þegar sykur og fitan eru ekki tekin með. Dr. Manson segir að flavonóíð finnist ekki í flestu því nammi sem sé á markaðnum þar sem efnið eyðileggist oftast í framleiðslu nammis.
Helmingur þátttakenda í rannsókninni mun fá tvö hylki á dag með flavonóíð úr kakói í en hinn helmingurinn fær lyfleysur, sem eru hylki sem innihalda fjölvítamín og önnur næringarefni. Hylkin munu þátttakendur taka í fjögur ár en hvorki þeir né rannsakendur munu vita hverjir fá flavonóíð og hverjir ekki, en bæði hylkin eru húðuð og bragðlaus.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að flavonóíð í kakói geti meðal annars hjálpað þeim sem kljást við heilabilun. Ian Macdonald frá Háskólanum í Nottingham lét 20 sjálfboðaliða fá mismunandi tegundir af kakói með mismiklu magni af flavonóíð í, allt frá 13 mg til 450 mg í hverjum bolla. Þátttakendur voru síðan settir í heilaskanna meðan þeir voru beðnir um að leysa verkefni sem örvuðu heilavirknina. Niðurstöður sýndu að hjá þeim sem höfðu drukkið kakó sem innihélt mikið flavonóíð þá jókst blóðflæðið til gráa efnisins í heilanum. Rannsakendur halda að flavonóíð virki þannig að það víkki æðarnar.
Dr. Macdonald segir að þetta gefi til kynna að efni eins og flavonóíð í kakói geti verið gott til að auka blóðflæði heilans og þannig bætt heilavirkni hjá eldra fólki eða hjá þeim sem eru með einhverskonar heilabilun.
Heimildir: hjartalif.is