Unglingar verða syfjaðir á kvöldin af líffræðilegum ástæðum og það er brýnt að skapa heilsusamlegar svefnvenjur og fyrirbyggja langvarandi svefnskuld hjá þeim.
Hvernig eru þínar svefnvenjur? Vaknar þú úthvíld/-ur á morgnana?
Pirringur, skapsveiflur og hömluleysi eru gjarnan fyrstu vísbendingar um ónógan svefn. Langvarandi svefnskortur getur haft það í för með sér að viðkomandi verði sinnulaus og þvoglumæltur, upplifi tilfinningalega deyfð, sumir verða varir við lélegra minni og einbeitingarskort. Svefnvana unglingar detta út af án þess að ætla sér, smá lúr verður óumflýjanlegur – og þá getur viðkomandi lent í vandræðum og jafnvel orðið hættulegur í umferðinni.
*Sofnar um leið og höfuð leggst á kodda.
*Þarft oftast á vekjaraklukku að halda til að vakna og getur jafnvel sofið þó hún hringi hátt.
*Þarf gjarnan að blunda á daginn, eða "dettur út af".
*Erfitt að vakna á morgnana og sefur jafnvel yfir sig.
*Verri frammistaða í námi, vinnu og/eða íþróttum.
*Aukinn klaufaskapur.
*Erfiðleikar með ákvarðanatöku.
*Sofnar í vinnu eða skólatímum.
Rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að 23,6% af þjóðinni á aldrinum 18-79 ára sofi að staðaldri aðeins sex klukkutíma eða skemur á nóttu (Heilsa og líðan, 2007), ert þú ein/-einn af þeim? Nú er ágætt að staldra við og meta eigin svefnvenjur fyrir betri líðan.
Gangi þér vel að hugsa um heilsuna.