Um árabil hafa vísindamenn við Mayo Clinic í Bandaríkjunum stundað rannsóknir á tengslum heilabilunar og mataræðis. Nýlega birtu þeir áhugaverðar rannsóknarniðurstöður í tímaritinu Journal of Alzheimer´s Disease. Rannsóknin náði til 1230 einstaklinga á aldursbilinu 70 - 89 ára sem gáfu upplýsingar um hvað þeir höfðu borðað síðasta árið. Vitsmunaleg starfsemi (cognitive function) einstaklinganna var könnuð af læknum, hjúkrunarfræðingum og taugasálfræðingum. Þeir sem höfðu enga vitsmunalega skerðingu, alls 940 einstaklingar, héldu áfram í rannsókninni og komu reglulega í skoðun þar sem vitsmunaleg hæfni var mæld. Eftir fimm ár sýndu 200 þessara einstaklinga merki um væga vitsmunalega skerðingu. Aðallega var um að ræða minnistruflanir og raskanir sem tengdust hugsun, tungumáli og dómgreind. Þessi einkenni geta verið forstig Alzheimer sjúkdóms og annarra tegunda heilabilunar.
Þeir einstaklingar sem neyttu mestra kolvetna í upphafi rannsóknarinnar voru 1.9 sinnum líklegri til að sýna merki um vitsmunalega skerðingu, borðið saman við þá sem neyttu minnstra kolvetna. Þeir sem neyttu mests sykurs voru 1.5 sinnum líklegri til að sýna merki um vitsmunalega skerðingu en þeir sem borðuðu minnst af sykri.
Þeir einstaklingar sem borðuðu mesta fitu voru 42 prósent ólíklegri til að upplifa vitsmunalega skerðingu en þeir sem borðuðu minnst af fitu. Þessi sami rannsóknarhópur hefur áður sýnt fram á að neysla fjölómettaðra og einómettaðra fitusýra virðist draga úr líkum á vitsmunalegri skerðingu. Þeir sem borðuðu mest af prótínum voru 26 prósent ólíklegri til að mælast með vitsmunalega skerðingu en þeir sem borðuðu minnst af prótínum.
Prófessor Rosebud Roberts sem fer fyrir rannsóknarhópnum segir að mikil neysla kolvetna og sykurs geti haft neikvæð áhrif vegna áhrifanna á blóðsykur og insúlínframleiðslu. "Sykur er aðaleldsneyti heilans, því er hófleg neysla kolvetna af hinu góða. Hins vegar getur mikið framboð á sykri truflað hæfni frumnanna til að nýta sér sykurinn, svipað og sést í sykursýki af tegund 2”.
Grein af vef mataraedi.is