Beinþynning er beinasjúkdómur sem einkennist af því að beinvefurinn tapar steinefnum, aðallega kalki, og misröðun verður á innri byggingu beinsins. Afleiðingarnar eru þær að beinstyrkur minnkar og hættan á beinbrotum eykst. Sjúkdómurinn er yfirleitt einkennalaus þar til eitthvert bein brotnar. Þó svo að bæði kynin geti fengið beinþynningu á hvaða aldri sem er þá eru konur eldri en 50 ára í mestri áhættu að fá sjúkdóminn.
Því miður eru flestir ekki greindir með beinþynningu fyrr en beinþéttnin hefur minnkað svo mikið að hættan á beinbroti er umtalsverð. Hins vegar getur fólk með lága beinþéttni fundið fyrir einkennum í munni sem tannlæknar þeirra geta greint og þekkt sem fyrsta stig beinþynningar.
Merki um beinþynningu
Tannlæknar eru færir um að greina einkenni um beinþynningu á frumstigi sem byggir á því að þeir skoða sjúkraskrár sjúklinga sinna og niðurstöður úr nákvæmum röntgenmælingum (myndgreiningar). Sjúkrasagan getur gefið upplýsingar um áhættuþætti s.s. erfðir, kalkskort, reykingar, tíðahvörf, óhóflega neyslu á kaffi eða áfengi og kyrrsetulífstíl. Röntgenmyndir af kjálka og tönnum geta gefið vísbendingu um að beinþéttnin minnki í kjálkabeini og beini við tennur frá ári til árs og sýnt þannig hvernig sjúkdómurinn færist í aukana. Auk þess eru önnur alvarleg merki sem tannlæknirinn getur tekið eftir sem vísbendingu um beinþynningu.
Beintap í kjálka og í kringum tennur: Getur verið merki um beintap annars staðar í líkamanum.
Tannmissir. Rannsóknir styðja þá tilgátu að fólk með lága beinþéttni hafi ríkari tilhneigingu til að missa tennur en aðrir.
Lausir og falskir tanngómar sem passa illa: Beintap getur orðið svo mikið að ómögulegt sé að hanna/útbúa falskan tanngóm. Aldrað fólk sem getur ekki notað gervitennur til að tyggja fæðuna þjáist oft af alvarlegum næringarskorti og ef tennurnar passa illa geta sár myndast í munni og tal aflagast.
Sjúkdómar í gómum. Sýkingar í gómum geta leitt til beintaps og gefið vísbendingu um að ástæða sé til að greina hvort sjúkdómar liggi að baki s.s. beinþyning.
Ábendingar til að koma í veg fyrir beinþynningu
Mikilvægt er að mæta reglulega til tannlæknis en auk þess er gagnlegt að hafa eftirfarandi atriði í huga:
Ef þú eða tannlæknir þinn hafið minnsta grun um beinþynningu þá er næsta skref að láta kanna það nánar með beinþéttnimælingu. Lyf geta komið í veg fyrir frekara beintap og einnig byggt upp bein að einhverju marki. Mikilvægt er að greina vandann tímanlega og grípa strax til aðgerða sem bætt geta ástand tanna og beina og heilsuna almennt.
Heimild: beinvernd.is