Miðtaugakerfið er stjórnstöð líkamans og er starfsemi þess mjög flókin. Enn höfum við hvorki fulla þekkingu á því hvernig það starfar né rannsóknartæki til að mæla eða meta nema brot af starfsemi þess. Sífellt fleiri rannsóknir staðfesta að mörg einkenni vefjagigtar og síþreytu stafa af truflunum á þessari stjórnstöð líkamans.
Vefjagigtarsjúklingar eru næmir fyrir hverskonar áreiti. Skynjun þeirra á áreiti eins og hita, kulda, hljóðum, snertingu, lykt og birtu virðist ekki vera eðlileg (13). Rannsóknir benda til að truflun á starfsemi miðtaugakerfisins hvað varðar úrvinnslu á taugaboðum í mænu og til heilans geti verið ein af orsökum vefjagigtar. Úrvinnsla á verkjaboðum hefur verið mest rannsökuð og virðist sem að mögnun verði á verkjaboðum, sem kölluð er miðlæg verkjanæming (e. central sensitization), bæði í mænu og í heila (13).
• Mænan - Í mænu eru viðtakar sem taka við boðum frá vefjum og líffærakerfum líkamans og flytja þau upp til heilans. Þessir viðtakar eiga að velja, með hjálp taugaboðefna, hvaða boð eiga að komast upp til heilans, en svo virðist sem að hömlun á flæði verkjaboða til heilans virki ekki. Því berast stöðugt ný boð um verki. Þekkt er að slík bjögun verði á taugaviðtökum eftir mikil eða langvinn verkjaáreiti (14,15).
• Heilinn - Rannsóknir hafa leitt í ljós truflanir á starfsemi heila vefjagigtarsjúklinga(16,17). Of lítið eða of mikið magn efna er í heila- og mænuvökva sem hafa áhrif á úrvinnslu verkjaboða. Skortur er á serótónín boðefni sem temprar verkjaboð og of mikið er af substance P taugaboðefni sem magnar verki. “Somatomedin” C er notað sem mælikvarði á framleiðslu á vaxtarhormónum og of lítið mælist af því.
Truflun er á starfsemi undirstúku-heiladinguls-nýrnahettu-öxuls
(e. hypothalamic-pituitary-adrenal axis) og í ósjálfráða taugakerfinu (e. autonomic nervous system) hjá vefjagigtarsjúklingum (18) . Bæði þessi kerfi gegna mikilvægu hlutverki í stjórnun á streituviðbrögðum líkamans og úrvinnslu verkjaboða.
Einnig hafa rannsóknir á blóðflæði í heila með SPECT skanni sýnt að skert blóðflæði er í ákveðnum kjörnum í miðhluta heila sem gæti orsakað m.a. þreytu, einbeitingar- skort, skert minni og fleiri einkenni vefjagigtar og síþreytu (19).