Vísindamenn við Massachusetts General sjúkrahúsið í Boston í Bandaríkjunum hafa komist að þessari niðurstöðu í rannsóknum sínum. Þeir rannsökuðu áhrif ástarhormónsins oxytósín á þyngd fólks og hvort það geti hjálpað fólki við að léttast.
Hormónið losnar úr læðingi þegar fólk er í líkamlegri snertingu við annað fólk og dregur úr þörf fólks á að borða. New York Post hefur eftir Franziska Plessow, sem stýrði rannsókninni, að vitað hafi verið að oxytósín drægi úr neyslu fólks og dýra á mat en ekki hafi verið vitað hvernig það gerðist. Rannsóknin hafi leitt í ljós að hormónið geti haldið of þungu fólki frá því að borða stjórnlaust mikið.
Vísindamennirnir gáfu of þungum karlmönnum nefsprey, sem innihélt oxytósín, og gátu séð áhrif þess á getu karlanna til að hafa stjórn á matarlöngun sinni. Rannsókninni er ekki að fullu lokið en niðurstöðurnar lofa mjög góðu að sögn Plessow. Hún sagði að oft verði of feitt fólk að fara í skurðaðgerðir til að minnka fituna og því sé mjög ánægjulegt að sjá niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hugsanlega verði hægt að nota hormónameðferð gegn aukakílóunum.