Á Íslandi þjást 12-15 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma. Þótt þunglyndi sé svo algengt gerir fólk sér oft litla grein fyrir eðli sjúkdómsins og þar gætir oft misskilnings. Þunglyndi er ekki merki um dugleysi, ekki fremur en sykursýki eða of hár blóðþrýstingur.
Fólk veikist oft af þunglyndi mitt í dagsins önn. Stundum er erfitt að greina það frá venjulegri óánægju, viðbrögðum við missi og sorg, eða kreppu í einkalífinu. Fyrstu kvartanir við lækni eru stundum um líkamlega þætti, eins og langvarandi þreytu eða slen, eða óljósa og breytilega verki. Með ítarlegum spurningum fæst þó yfirleitt alltaf örugg greining á sjúkdómnum. Greiningin er afar mikilvæg því að flestir þunglyndissjúklingar geta fengið áhrifaríka meðferð.
Þunglyndi hefur margvísleg einkenni, sem öll hafa í för með sér að draga úr lífsgleði og framtaki, lækka geðslag, hægja á hugsunum og atferli. Allt þetta dregur úr þreki einstaklings til að sinna daglegum skyldum, rækta fjölskyldu og vini.
Ef þunglyndið greinist ekki leiðir það til óþarfra þjáninga og viðvarandi röskunar á starfsgetu og lífsnautn. Þegar verst lætur getur þunglyndið stefnt lífi sjúklings í óefni, jafnvel sjálfsvígshættu.
Mikilvægt: Þunglyndi er engin „ímyndun", heldur algengur og stundum lífshættulegur sjúkdómur sem oftast er læknanlegur og alltaf er hægt að ráða einhverja bót á.
Embætti landlæknis hefur starfrækt verkefnið Þjóð gegn þunglyndi síðan vorið 2003. Er því nánar lýst á næstu vefsíðum og eru lesendur hvattir til að kynna sér efni þeirra. Sumt höfðar frekar til hins almenna lesenda og annað til fagfólks.
Fram kemur í sérfræðiáliti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að þunglyndi sé og verði einn þyngsti og dýrasti sjúkdómurinn á heimsvísu, jafnt í þróuðum ríkjum sem í þróunarlöndum. Sjúkdómurinn er einstaklingnum þungur í skauti og dýr vegna vanlíðanar sem honum fylgir, vegna glataðra vinnudaga og minnkaðra lífsgæða. Þunglyndi hefur einnig mjög neikvæð áhrif á fjölskyldu viðkomandi. Samfélaginu er sjúkdómurinn erfiður, bæði vegna meðferðarkostnaðar og neikvæðra áhrifa á þjóðarframleiðslu.
Heimildir: landlaeknir.is