Kynfræðsla er ekki lengur einungis bundin við þá fræðslu sem foreldrar/forráðamenn og skóli standa fyrir, heldur hefur hún í auknum mæli færst yfir til fjölmiðla. Þeir hafa á undanförnum árum aukið markaðssetningu á kynlífi, til dæmis á netinu, í tónlistarmyndböndum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þessari markaðssetningu er oft á tíðum ætlað að höfða til barna og unglinga.
Afleiðingar þessarar þróunar eru meðal annars þær að nú fá börn og unglingar mörg misvísandi skilaboð um kynlíf sem leitt geta til ranghugmynda um það hvað telst vera eðlilegt kynlíf. Þessi þróun undirstrikar mikilvægi uppeldishlutverks foreldra og að þeir leggi grunn að gildismati barna sinna á þessu sviði. Börn og foreldrar þurfa að ræða saman um kynlíf, eins og hvern annan málaflokk. Skoðanir og gildi foreldra gagnvart kynlífi eru börnum og unglingum nauðsynlegt mótvægi við þeim misvísandi og villandi upplýsingum sem þau hafa greiðan aðgang að.
Kynlíf er eðlilegur hluti af lífinu. Kynfræðsla fyrir börn og unglinga gerir þeim betur kleift að takast á við eigin tilfinningar og taka ákvarðanir sem stuðla að eigin kynheilbrigði. Með góðri fræðslu eru unglingar betur undir það búnir að takast á við þann félagslega þrýsting sem er í umhverfinu og þeir eru líklegri til að geta myndað gott og heilbrigt ástarsamband í framtíðinni. Þekking á kynlífi getur hjálpað þeim að vernda sig gegn kynferðislegri misnotkun og fyrir því að misnota aðra.
Fjölskyldan er ein sterkasta fyrirmynd barna og unglinga. Frá unga aldri hafa foreldrar samskipti við börn sín og miðla þekkingu til þeirra með beinum og óbeinum hætti. Umræða um kynlíf og allt sem því viðkemur er mikilvæg á öllum heimilum. Ef unnt er að ræða opinskátt og af einlægni um kynlíf við börn frá því þau eru lítil geta foreldrar byggt upp traust samband milli sín og barna sinna. Með þessu móti leggja foreldrar grunninn að jákvæðri og heilbrigðri sjálfsmynd barna í kynlífi. Þegar börnin eldast og vangaveltur og spurningar vakna um kynlíf er líklegra að þau leiti aðstoðar og leiðbeininga foreldra sinna á sviði kynlífs sem og á öðrum sviðum.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að opin og góð umræða um kynlíf á heimilunum er líkleg til að skila sér í því að börn byrja seinna en ella að stunda kynlíf og eru ábyrgari þegar þau byrja. Því seinna sem börn byrja að stunda kynlíf, því minni líkur eru á eftirsjá, kynsjúkdómum, ótímabærum þungunum og ofbeldi. Kynfræðsla skilar sér því í aukinni þekkingu og meðvitaðri ákvörðunartöku ungs fólks um kynlíf.
En mörgum foreldrum finnst af ýmsum ástæðum erfitt að ræða um kynlíf við börnin sín, ekki síst hvernig byrja eigi samtalið. Fyrir suma getur verið gott að byrja einfaldlega á því að segja barninu frá þessum erfiðleikum, t.d. með því að segja: ,,Mér finnst erfitt að tala um kynlíf. Foreldrar mínir ræddu það aldrei við mig en ég vil gera betur.“ Hafa líka í huga að það er aldrei of seint að byrja að tala um kynlíf og að kynfræðslan verður aldrei afgreidd í eitt skipti fyrir öll.
Frekari upplýsingar og leiðbeiningar er m.a. hægt að fá í bæklingnum: Samskipti foreldra og barna um kynlíf
Góð umræða um kynlíf á heimilinu skilar sér m.a.í því að:
Greinin er fengin af vefnum landlaeknir.is og birt með góðfúslegu leyfi þeirra
Dagbjört Ásbjörnsdóttir
mannfræðingur, MA í kynlífs- og kynjafræðum
Guðbjörg Edda Hermannsdóttir
félagsráðgjafi, MA í félagsráðgjöf
Sigurlaug Hauksdóttir
félagsráðgjafi, MA í uppeldis- og menntunarfræði
Af vef doktor.is