„Vegna umfjöllunar um gallaða silikonpúða (PIP) vil ég koma því á framfæri til minna skjólstæðinga að ég hef ekki notað þessa púða“.
Ágúst Birgisson - Lýtalæknir
Innihald brjóstapúða er venjulega sílikon (annað hvort hálffljótandi eða gel) eða saltvatn. Yfirborð allra púða er hinsvegar gert úr sílikoni, og er annaðhvort slétt eða hrjúft. Púða með sléttu yfirborði er hægt að leggja undir brjóstvöðva, en púðar með hrjúfu yfirborði eru oftar lagðir undir brjóstkirtilinn (en þá er minni hætta á aukaverkunum/kapsúlumyndun).
Venjulega er talað um að líftími púðanna sé 10-12 ár. Að minnsta kosti hefur verið mælt með því að skipta um púða að þessum tíma liðnum. Þetta er þó að breytast þar sem sumum púðum fylgir lífstíðar ábyrgð.
Þegar lagður er inn í líkama okkar aðskotahlutur (brjóstapúði) svarar líkaminn með því að mynda bandvefshimnu utan um hann og einangra hann þar með. Þessi bandvefur hefur í sér kollagen og bandvefsfrumur og hefur á margan hátt sömu eiginleika og ör. Það er mismunandi hve þykk þessi bandvefshimna verður. Hjá 2-10% af þeim sem fá púða verður þessi bandvefshimna þykk - og eins og ör gera - þá dregst hún saman. Við þetta verður plássið minna fyrir púðann og brjóstið verður hart. Í þessum tilfellum er talað um kapsúlumyndun. Hluti þeirra sjúklinga sem mynda ör með þessum hætti þarf að gangast undir aðra aðgerð þar sem kapsúlan er klofin eða fjarlægð.
Þrátt fyrir gríðarlega miklar rannsóknir, alveg frá 1964, hefur ekki verið hægt að sýna fram á aukna tíðni krabbameins hjá konum með brjóstapúða. Þegar konur með brjóstapúða fara í brjóstamyndatöku þurfa þær að láta vita, þar sem taka þarf tillit til púðanna við rannsóknina. Brjóstapúði veldur ekki seinkun á greiningu krabbameins. Ekki hefur heldur verið hægt að sýna fram á aukna tíðni bandvefssjúkdóma (gigtar) hjá konum með brjóstapúða, hvort sem um er að ræða silikon- eða saltvatnspúða.
Grein af síðu ablaeknir.is