Fyrirgefning líkt og flest annað er einfalt mál þegar maður er barn. Þá er vandalítið að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa. Það eina sem getur flækt málið er að komst að samkomulagi um hver hafi byrjað og hver eigi að biðjast fyrirgefningar fyrst. Þá skynjar maður afsökunarbeiðni sem hálfgerðan ósigur og viðurkenningu á því að hafa verið aðalsökudólgurinn. Það mál leysist þegar lærist að biðjast afsökunar á eigin hegðun og sínum þætti í átökum án þess að taka á sig alla ábyrgðina á misklíðinni.
Á fullorðinsárum fyrirgefum við áreynslulítið börnum okkar óþekkt þeirra, ekki síst þegar þau iðrast og lofa bót og betrun og við fyrirgefum maka okkar hverskyns yfirsjónir. Við viljum gjarnan að okkur sé fyrirgefið þegar okkur verður á í messunni og við viljum yfirleitt frekar lifa í sátt og samlyndi en ófriði.
Með því að fyrirgefa segjum við að við munum ekki erfa það sem var gert á hlut okkar, að við séum tilbúin til að breiða yfir atvikið og helst ekki tala um það meir. Með fyrirgefningu viljum við og treysta því að atvikið endurtaki sig ekki og við viljum trúa því að sýnd iðrun sé sönn eða að það hafi ekki verið með vilja gert að særa eða meiða.
Áleitnar spurningar og vangaveltur um fyrirgefningu vakna þegar erfitt verður að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar. Er hægt að fyrirgefa allt? Ætti maður að fyrirgefa allt? Hvað felst í því að fyrirgefa? Hvers vegna er stundum svo erfitt að fyrirgefa?
Það getur verið erfitt að fyrirgefa ef brotið er ekki viðurkennt, fyrirgefningarbeiðni er engin né heldur bætur fyrir skaðann. Ekki kærir maður sig heldur um að fyrirgefa ef manni þykir að með því leggi maður blessun sína yfir hegðun sem særði og geri þar með lítið úr þeim sársauka sem hún olli. Slíkt gæti þá jafnvel orðið þá til þess að sagan endurtæki sig. Loks getur manni þótt að með fyrirgefningu sé veitt einhverskonar syndaaflausn sem ekki sé í mannlegu valdi að veita.
Stundum er ekki skynsamlegt að fyrirgefa í þeim skilningi að breiða yfir, gleyma og leyfa öllu að verða eins og áður. Ef sá sem hefur brotið hefur framið er samviskulaus eða ofbeldisfullur og er ekki líklegur til að breytast, ætti ekki að samþykkja óbreytt ástand. Þá ætti maður forða sér og sínum en láta fyrirgefningu liggja milli hluta. Að minnsta kosti um sinn. Ekki ætti maður heldur að hafa samviskubit yfir því að geta ekki fyrirgefið eða finnast maður minni manneskja fyrir vikið. Í stað þess að reyna að fyrirgefa ætti maður heldur að leitast við að losna við gremju og græða sárin.
Ef maður setur sér það að markmiði að láta liðin atvik ekki valda frekari vanlíðan og erfa ekki það sem gert var á hlut manns, felur það ekki í sér samþykki verknaðarins né að gert sé lítið úr afleiðingum hans. Það þýðir ekki heldur að maður kjósi að viðhalda samskiptum né falla frá ósk um bætur.
Ef það er ekki í mannlegu valdi að veita syndaaflausn ætti maður að geta fallist á að það sé ekki heldur í manna valdi að útdeila dómum og refsingu. Um leið og látið er af kröfu um að fyrirgefa ætti maður að geta látið af þörf fyrir að refsa eða hefna. Ef fyrirgefning er einhversskonar syndaaflausn sem einungis er í valdi Guðs að veita, hlýtur dómur og refsing einnig að vera í valdi Guðs.
Þegar maður losar sig undan kröfunni um að fyrirgefa og lönguninni til að refsa, afsalar maður sér ábyrgð á því að fólk hljóti þau málagjöld sem maður helst vildi. Þá þarf maður hvorki að halda lífi í minningum um hið liðna né eyða tíma né orku í að rifja upp það sem gerðist eða lifa upp aftur sársauka og reiði. Þá þarf maður ekki að láta tilvist annarra eða misgjörðir þeirra spilla lífsgleði sinni.
Samt er það svo að óvelkomnar hugsanir hafa tilhneigingu til að elta mann uppi og liðin atvik leita á hugann. Kannski vegna þess að manni finnst eitthvað ógert eða ósagt eða maður hefur þörf fyrir frekari skilning á því sem gerðist. Meðan einhver von er um frekara uppgjör eða málalok sem maður getur sætt sig við getur verið erfitt að sleppa tökunum. Hvort sem von um slík málalok er raunhæf eða ekki er gagnslítið að viðhalda gremju meðan þeirra er beðið enda gæti sú bið orðið æði löng.
Ef leiðinda hugsanir og gremja truflar líf manns og lífsgleði er hér aðferð sem ég lærði fyrir mörgum árum og hefur reynst mér vel til að láta af óvelkomnum hugsunum. Hún felst í því að skrifa á miða það sem veldur hugarangri, nöfn fólks sem maður er ósáttur við og eins áhyggjuefni sem maður er vanmáttugur gagnvart. Hvert atriði fer á einn miða. Miðana brýtur maður saman og setur í krukku merkta Guði og treystir því að Guð muni sjá um þessi mál meðan maður sinnir öðru.
Þegar maður erfir ekki lengur neitt við neinn, ber ekki kala til nokkurs manns og hið liðna fær ekki hróflað sálarró manns, má segja að maður hafi fyrirgefið. Ef maður kýs að kalla það einhverjum öðrum nöfnum eða bara alls ekki neitt þá er það í góðu lagi. Það sem skiptir máli er að maður hefur öðlast frelsi frá reiði og beiskju og getur lifað í sátt við sjálfan sig, Guð og menn.
Ásta Kristrún Ólafsdóttir ráðgjafi og sálfræðingur
Heimild: Fjölskylduhús