Ég skal segja þér frábært ráð til að fá næðisstund þegar þú ert heima, ekkert áreiti, enginn að trufla og þú ert ein eða einn með sjálfri eða sjálfum þér.
Það eru ekki uppþvottvélar á hverju heimili, t.d á ég ekki slíkt heimilistæki. Eins þæginlegt og það er að skella bara í vélina og setja í gang og snúa sér að öðru.
Krakkarnir mínir voru nú stundum dugleg að vaska upp en oftast lenti það nú á mér.
Fyrir mér er það að vaska upp heilög stund, að fá að vera í friði, því á meðan uppvaskið situr óhreint í vaskinum þá er annað heimilisfólk oft fljótt að láta sig hverfa.
Stundin sem vatnið er að renna í vaskinn með tilheyrandi sápu og er vel heitt, er notuð til að þurrka af eldhúsborðum og jafnvel pússa kámugan ísskápinn.
Meira að segja Madonna vaskar upp
En svo kemur að því að uppvaskið hefst. Þar stend ég ein með sjálfri mér og mínum hugsunum án þess að vera trufluð. Það er líka afar gott að hugsa bara ekki neitt, tæma hugann og þvo leirtau. Því það þarf engan eldflaugasérfræðing í uppvask sko.
Heitt vatnið og froðan af sápunni, gulir gúmmí hanskar, gulur burstinn og allt á fullu. Hver diskur fær sinn skammt af þvotti ásamt glösum, hnífapörum, pottum og pönnu. Og fyrir utan glamrið í leirtauinu er þögnin algjör.
Ég er það heppin að minn eldhúsvaskur er við glugga svo ég horfi oft út í myrkrið og læt hugan reika. Nema á sumrin, þá er auðvitað bjart úti og róandi að horfa á blómin og trén.
Ég mæli með þessu fyrir ykkur sem vantar næðisstund á heimilinu í algjörum friði. Prufið að sleppa uppþvottavélinn stundum og vinnið verkið sjálf.
Að fá að vaska upp leirtauið er fyrir mér tilhlökkunar efni á hverjum degi. Og ég er ekki að grínast. Því þar er friður og ró og hugurinn reikar, stundum langt, stundum er eins og tíminn standi í stað.