Ofan á svo ótal margt annað, þá raskast þessi stöðuga veröld þegar maki manns veikist alvarlega. Það sem við þekktum er breytt. Það sem við vorum vön að gera og vön að vera er jafnvel ekki mögulegt. Við getum upplifað okkur sjálf breytt og maka okkar líka.
Veikindi maka kalla á að maður standi sterkur sem nánasti stuðningsaðili maka síns, taki við verkefnum og skyldum, aðstoði jafnvel við meðferð og endurhæfingu en stundi um leið starf sitt og haldi eðlilegu róli fjölskyldunnar gangandi eins og hægt er. Samt er maki manns veikur og einmitt þess vegna upplifa margir þörf fyrir stuðning sem aldrei fyrr. Stuðning sem áður var sóttur til makans sem nú er veikur og getur ef til vill minni stuðning veitt.
Veikindi hafa mun víðtækari áhrif en skilgreinast af sjúkdómnum sjálfum. Algengt er að þau hafi mikil áhrif á samskipti hjóna og í fjölskyldum, á sjálfsmynd okkar, sjálfstraust og andlega líðan. Það hvernig við sjáum heiminn, lífið og tilveruna. Framtíðardraumar geta raskast, óvissan nagað og flestir upplifa áður óþekkta ógn við heilsu og lífsgæði.
Mjög margir komast sem betur fer í gegn, halda fast í hönd hvort annars og vaða skaflana saman í eins miklum takti og vindar bjóða. Aðrir missa takið og finnst þeir feta stíginn einir á leið. Einmanaleiki er algeng tilfinning þegar maður berst með maka sínum fyrir heilsu, sorg yfir missi, reiði yfir aðstæðum, ótti við það sem framundan er og kvíði sem heltekur hugann á hljóðum kvöldum.
Það er á þessum tímum sem það er einna mikilvægast að muna eftir því að eiga góða stund með maka sínum þegar færi gefst. Ná taki hönd í hönd. Eiga samtal, hlusta, spyrja og rifja upp hvernig við forvitnuðumst um hvort annað í upphafi. Áður en við þekktumst svo vel. Það er nefnilega svo skrítið að í þessari ókunnu stöðu er ein leiðin áfram undarlega kunnugleg. Kynnumst á ný eins og við gerðum fyrst.
Gefum okkur tíma til að tala, læra að skilja og þekkja, okkur sjálf og makann. Hefjumst aftur handa við að byggja upp líf, gefum því færi til að þroskast og myndum smám saman hefðir og venjur sem henta báðum miðað stöðuna eins og hún er í dag.
Heimild: hjartalif.is