Við erum með verslunarmannahelgi í byrjun ágúst en þegar verslunarmannahelgin er afstaðin tekur við verslunarmannajól og þar tekur við neysla á jólavörum en ekki öli eins um verslunarmannahelgina. Verslunarmannajólin eru hafin í lok september í verslunum með sölu á jólasmákökum, jólaseríum og öðru jóladóti. Ekki minnkar nú neysluhyggjan þegar við tökum upp ameríska siði í verslunarháttum og höldum svartan föstudag og rafrænan mánudag heilagan.
Við Íslendingar megum alveg fara að hægja á okkur í neyslunni og fara að njóta meira jólaundirbúningsins án þess að þurfa að eyða pening í gjafir, jólahlaðborð, jólatónleika, jólaglögg, jólaskemmtun, jólapeysu, jólabjór eða jólautanlandsferð. Jólin snúast ekki um allar dýru gjafirnar undir jólatrénu heldur miklum frekar um góða jólaandann og hamingjuna frá fólkinu í kringum jólatréð.
Hvernig væri að fara að eyða bara tíma með okkar nánustu og heimsækja ömmu gömlu á elliheimilið? Það sem okkar nánustu vilja er ekki nýjasta dótið heldur miklu frekar tími með okkur.
Það væri mikill jólaandi í því að hafa símalausa daga á heimilinu alla aðventusunnudagana. Notum sunnudagana á aðventunni saman með fjölskyldunni í göngutúr í Heiðmörk, heitt súkkulaði á kaffihúsi á eftir, spila og leika þegar heim er komið og bara að lifa og njóta að hanga saman…..án þess að allir séu að hanga í símum „snjall“símum.
Notum jólamánuðina í að gefa meira af okkur í knúsi og góðmennsku. Mætum í vinnu og knúsum Siggu á þjónustuborðinu og hrósum henni fyrir brosið hennar. Brosum á móti öllum í kringum okkur og knúsum þá extra vel sem við höldum að þurfi á góðu knúsi að halda, munið þó #metoo byltinguna og engan dónaskap.
Við eigum öll alveg nóg af dóti og drasli. Kompan mín og bílskúrinn eru full af einhverju óþarfa dóti sem ég hef fengið í gjafir eða keypt í gengum árin. Ég var rétt í þessu að reyna að skrifa árlegan jólagjafalista áðan til að senda á mín nánustu fjölskyldu (að þeirra ósk J) og þegar ég var búinn að skrifa niður óskirnar um að fá bækurnar frá Arnaldi eða Yrsu í jólagjöf var ég stopp. Mig vantar gjörsamlega ekki neitt og þarf ekkert sem ég á ekki nú þegar. Þetta held ég að eigi við mjög stóran hluta okkar Íslendinga. Ég á fjölskyldu sem ég elska útaf lífinu og þak yfir höfuðið, það er nóg fyrir mig. Hins vegar væri ég til í meiri nætursvefn, meiri gæðatíma með eiginkonunni og dætrum, minna stress og aðeins meiri hugarró. Þeir hlutir sem við virkilega þurfum getum við ekki skrifað á óskalista því þá er ekki hægt að kaupa. Því fyrr sem við áttum okkur á þessu því betra. Jólin munu líka verða mun innihaldsríkari ef við horfum meira inn á við í stað þess að hugsa bara í hlutum.
Í stað allra þessara jólagjafa ættum við að gefa meira í hjálparsamtök eins og Samhjálp, Rauða Krossinn, Mæðrastyrksnefnd, Konukot, Barnaheill, SOS Barnaþorp eða bara hvert sem er í kringum ykkur sem þið telið að þurfi virkilega á peningum að halda. Því það er til fólk á þessu landi sem nær ekki að halda gleðileg jól fyrir sig og sína því það á ekki húsaskjól, getur ekki borgað húsaleiguna, og getur ekki keypt sér jólamatinn og hvað þá að fara á Baggalútstónleika. Í stað þess að eyða hundruðum þúsunda í að halda jólin með öllum gjöfunum, skreytingum, dýra matnum og nýju jólafötunum á alla fjölskylduna ættum við að slá af þessum klikkuðu kröfum okkar og eyða a.m.k. 100.000 kr í góðgerðarmál. Sú gjöf mun gefa margfalt tilbaka. . . LESA MEIRA