Viðvarandi syfja er algeng og nýleg rannsókn á tæplega 600 Íslendingum sýndi að 37% glíma við óeðlilega dagssyfju og tæp 13% hafa upplifað það að dotta við stýrið.
Eins og áður hefur komið fram hér virðist stór hluti Íslendinga sofa of stutt að staðaldri og því ef til vill ekki að furða að rúmlega þriðjungur þjóðarinnar þjáist af óeðlilegri dagssyfju. Nútíma samfélag og vinnuumhverfi ýtir undir syfju og svefnvandamál að vissu leyti. Vaktavinna, óreglulegir vinnutímar og vinnuálag eru þættir sem geta valdið svefntruflunum og langvarandi syfju. Ónógur svefn veldur skerðingu á athygli, minni, viðbragðsflýti og árvekni og rannsóknir hafa sýnt að syfja og svefntengd vandamál eru valdur að um 20% allra umferðaslysa.
Að dotta við stýrið í einungis 4 sekúndur á 90 km hraða þýðir að bíllinn fer stjórnlaust vegalengd sem samsvarar heilum fótboltavelli!
Ónógur svefn, ómeðhöndlaður kæfisvefn og svefnlyfjanotkun eru meðal þátta sem hafa áhrif á umferðaröryggi. Sautján klukkustunda samfelld vaka (frá kl. 8 um morgun til 01:00 eftir miðnætti) hefur sömu áhrif á árvekni og viðbragðsflýti eins og alkahólmagn í blóði uppá 0.5 g sem er ólöglegt magn. Eftir 24 klukkustunda vöku verða áhrifin sambærileg og 1 g af alkahólmagni í blóði.
Við þetta bætist að svefnlyfjanotkun Íslendinga er með því mesta sem þekkist í heiminum og þekkt er að langvarandi notkun þessara lyfja getur haft áhrif á athygli og árvekni og nú hafa til að mynda verið sett lög víða hjá nágrannaþjóðum þar sem magn svefnlyfja í blóði er sérstaklega mælt í umferðinni á morgnanna og ökumenn sektaðir mælist þeir undir áhrifum þessara lyfja. Markmiðið er að draga úr tíðni illa vakandi ökumanna og auka umferðaöryggi.
Það eru ýmis hættumerki sem ber að varast þegar við sitjum undir stýri. Ef við finnum að við eigum erfitt með einbeitingu og/eða erum djúpt sokkin í dagdrauma gæti verið að athygli okkar sé ekki í topp standi. Einnig er það hættumerki ef við lendum í því að gleyma að taka beygju, missum af umferðaskiltum, förum af leið eða erum komin skuggalega nálægt vegkanti eða annari akrein. Að sjálfsögðu eru það líka augljós hættumerki ef við finnum fyrir syfju, geispum mikið eða finnst sem augnlokin séu að þyngjast. Undir þessum kringumstæðum er mikilvægt að stöðva akstur og hvíla sig.
Til þess að forðast syfju við stýrið er lykilatriði að reyna að passa uppá að fá nægan svefn. Ef verið er að aka langar vegalengdir er mikilvægt að taka sér hlé frá akstri á um tveggja klukkustunda fresti. Ef ferðast er með öðrum getur verið gott ráð að skiptast á við akstur og hjálpast að við að halda ökumanninum við efnið. Ef mögulegt er að forðast akstur á nóttunni eða á vanalegum svefntíma ökumanns er slíkt mikilvægt. Einnig getur verið gott að fá sér kaffi eða aðra drykki sem innihalda koffein þegar verið er að aka langar vegalengdir.
Umfram allt, verum vakandi fyrir syfjunni og tökum hana alvarlega!