Þegar ég hef þurft að sækja mér þjónustu þá hef ég gengið út frá því að ég sé að tala við fagfólk. Læknarnir sem ég hef talað við í gegnum tíðina viti meira um lyf og starfsemi líkamans en ég, að tölvuviðgerðarþjónustan kunni sitt fag og ég er fullkomlega sannfærð um að bifvélavirkinn sem gerir við bílinn minn sé betri í því en ég. Það hefur margsannað sig í gegnum tíðina að svona sé þessu háttað hjá mér og ég veit að ég eins og fleiri án sérstakrar ákvörðunar treysti því að ég sé að tala við fagmann þegar ég sæki mér þjónustu. Ekki síst í heilbrigðiskerfinu.
Enda þurfum við ekki að treysta blint á það, það eru til lög fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Í þeim er m.a. fjallað um hvaða stéttir eru löggiltar heilbrigðisstéttir, hverjir fái starfsleyfi, réttindi, skyldur, faglegar kröfur og fleira. Ég er heilbrigðisstarfsmaður. Löggiltur áfengis- og vímuefnaráðgjafi og hef starfað við áfengisráðgjöf í 9 ár. Okkar stétt er fámenn og fékk lögverndun á starfsheitið 2006 og gat í raun hver sem er fram að því kallað sig áfengisráðgjafa sýndist þeim svo.
Áður en lögverndun starfheitisins kom til hafði fagið verið í mótun í rúm 30 ár svo starfið er ekki nýtt þó lögverndunin sé ekki gömul. Á upphafsárunum voru ráðgjafar fyrst og fremst hugsjónarfólk með persónulega reynslu í farteskinu af áfengissýki og höfðu óbrennandi áhuga á því að bæta hag alkóhólista og aðstandenda þeirra. Með tímanum bætist við þekking og ómetanleg reynsla sem kemur fram í skipulögðu námi og mikilli áherslu á að gera vel, veita góða og faglega þjónustu.
Til er reglugerð um um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa (nr.974/2006) Hægt að læra áfengis- og vímuefnaráðgjöf á tveimur stöðum í dag, hjá SÁÁ og Landspítalanum og hvergi annarstaðar, þó til séu stutt námskeið utan þessara staða sem skilar fólki ekki löggiltum réttindum til að starfa sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Í náminu fær maður mikilvægan grunn, markvissa þjálfun og handleiðslu ásamt kröfu um endurmenntun að formlegu námi loknu. Enda verður maður seint fullnuma þegar kemur að því að vinna með fólk.
Við störfum við hlið annarra heilbrigðisstarfsmanna og erum ekki að vinna sem eyland í þessum geira. Við höldum ekki úti prógrammi sem er til þess ætlað að meðhöndla alkóhólista á eigin spýtur án eðlilegs eftirlits og samstarfs við aðrar stéttir. Við þurfum ekki að horfa langt aftur í tímann til að sjá skaðann sem getur orðið þegar “einhverjir” vinna þetta mikilvæga starf án menntunar, eftirlits og gæðastjórnunar.
Áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru mikilvægir hlekkir í meðferðarkeðjunni. Í meðferð við sjúkdómi sem snert hefur flest heimili Íslands á einn eða annan hátt. Áfengissýki er algengur sjúkdómur og er fjöldinn allur af fólki allt árið um kring að leita leiða til að ná tökum á sínum sjúkdómi. Þar sem ég vinn erum við hluti af þverfaglegu teymi þar sem verkaskiptingin er öllum ljós og starfsfólk veit hvaða hlutverki það gegnir í þeim hópi.Við vitum líka hvert við eigum að leita ef við erum óviss, þurfum að fá álit annarra eða eitthvað vefst fyrir okkur í okkar daglegu störfum. Þannig virkar skipulögð teymisvinna.
Lög um heilbrigðisstarfsmenn eru í mörgum liðum og er markmið laganna að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með kröfum um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshátta þeirra, ásamt því að hafa ákvæði um þá sem eru að sinna þessum störfum án þess að hafa formlega þjálfun eða eftirlit á bakvið sig.
Í 10. gr í lögum um heilbrigðisstarfsmenn er fjallað um óheimila notkun starfsheita og fjallað um í okkar tilfelli að það má ekki hver sem er veita áfengismeðferð eða kalla sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa eða sinna störfum þeirra þó þeir kalli sig eitthvað annað. Það er ekki nóg að hafa farið á námskeið, hafa áhuga eða hafa farið sjálfur í gegnum áfengismeðferð til að geta veitt slíka þjónustu. Einnig eru komin inn refsiákvæði (28. gr) sem leggja enn meiri áherslu á að tryggja öryggi sjúklinga og aðstandenda þeirra og tekið er fram að brot á þessum lögum varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Ekki myndi ég sækja mér læknisþjónustu til einstaklings sem hefur þá einu reynslu að hafa oft farið til læknis sjálfur, lesið læknablaðið eða farið á stutt námskeið eða færi með bílinn í viðgerð til einhvers sem hefur mikla reynslu af því að sitja í bíl og kann að nefna margar mismunandi tegundir af bílum.
Það er ekki bara óheppilegt eða óábyrgt ef að einhverjir sem ekki hafa réttindi kalli sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa eða sinni þeim störfum undir öðrum nöfnum. Það varðar við lög. Alkóhólistar og aðstandendur þeirra eiga rétt á bestu mögulegu meðhöndlun í sínum veikindum. Það er eðlileg spurning að spyrja hver það er sem gefur út starfsleyfi þess sem við erum að fá ráðleggingar frá, hver er bakvið stofnunina og hvaða þjálfun fólk hefur fengið. Við þurfum að vita við hvern við erum að tala.
Kristbjörg Halla Magnúsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ
-----------------------------------------------------------------------------------------
Nú stendur yfir landssöfnun SÁÁ, Áfram Vogur, til styrktar Sjúkrahúsinu Vogi.
Leggðu söfnuninni lið með því að hringja í símanúmerið
903-1001 fyrir 1000 króna styrk
903-1003 fyrir 3000 króna styrk
903-1005 fyrir 5000 króna styrk