Hennar helstu áhugamál eru Boot Camp, hlaup, útivist og allt sem viðkemur andlegri og líkamlegri heilsu.
„Núna get ég líka bætt við mig rithöfundartitlinum“ sagði Birna því hún var að gefa út bókina Molinn minn.
Hvers vegna þetta nafn „Molinn minn“
Molinn minn er í raun þroskasaga sem fjallar fyrst og fremst um reynslu mína af íþróttaátröskun og hvernig ég náði bata. Titill bókarinnar er tilvitnun í setningu úr frægri mynd Forrest gump.
Mama always said: “Life was like a box of chocolates. You never know what you’re gonna get”
Hér er það semsagt átröskunin sem er moli í konfektkassa lífsins og ég seildist eftir honum.
Hver var kveikjan að skrifunum
Skrifin voru ákveðið uppgjör fyrir mig og hjálpuðu mér verulega mikið. Eftir svona krefjandi tímabil þá eru ýmsar tilfinningar sem þarf að vinna með og mér fannst mjög gott að koma þeim frá mér með þessum hætti.
Það var alltaf markmiðið að gefa bókina út, enda er þetta umræða sem við þurfum að opna betur. Átröskun meðal íþróttafólks er algengari en margir gera sér grein fyrir og ástæðurnar fyrir því eru ósköp einfaldar. Oftast er um að ræða mjög metnaðarfulla og kappsama einstaklinga sem vilja ná langt í sinni grein og vinna til verðlauna. Útlitsdýrkun á það til að þvælast inn í sem og utanaðkomandi þrýstingur. Þá getur fyrri reynsla og vilji til að brjótast út úr einhverri skel og öðlast viðurkenningu haft sín áhrif.
Ef kröfurnar eru of miklar þá getur það reynst mörgum um of að vinna rétt úr málunum. Öll líkamsþjálfun er frábær og það er mín skoðun að börn og unglingar eigi að vera virk í íþróttum og njóta þess. Það er bara eins þar og á öðrum sviðum að það er hægt að fara of geyst eða missa tökin.
Ég ákvað að gefa bókina út sjálf þar sem það reyndist erfitt að komast að hjá forlögunum. Það var og er mér mikið kappsmál að opna umræðuna því þögn er engin forvörn.
Birna Varðardóttir í útgáfuteitinu.
Hvernig hafa viðtökurnar verið, upplifir þú þakklæti fyrir bókina og þann boðskap sem hún hefur fram að færa
Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og bókin vakið lukku margra. Ég hef fundið fyrir miklu þakklæti frá mörgum foreldrum sem og þeim sem hafa glímt við þetta sjálfir.
Hefur þú upplifað fordóma í þinn garð eða í garð átraskana almennt ?
Fordómar eru kannski ekki réttnefni heldur frekar skilningsleysi. Þegar ég var veikust átti ég oft erfitt með að vera innan um fólk þar sem mér fannst öll augu beinast að mér og allir hafa skoðun á mér. Svo margir tilbúnir að æpa upp yfir sig og segja manni að maður þyrfti að taka sig á og það strax. Flest er það þó vel meint en það er auðvelt að fá nóg af potinu.
Það verður engin kúvending á dögum eða vikum því bataferlið tekur sinn tíma. Þegar leið á bataferlið hugsaði ég oft með sjálfri mér að ég vissi á hvaða leið ég væri, hverju ég hefði áorkað og hvað ég ætlaði mér. Með það að leiðarljósi hélt ég áfram og hætti að láta samfélagslegar glósur hafa áhrif á mig.
Hvaða valkostir eru í boði fyrir þá sem eru með átröskun, hvaða valkostur er að þínu mati áhrifaríkastur.
Það er að mínu mati persónubundið hvaða valkostur er áhrifaríkastur og/eða hentar best.
Sérstaklega í ljósi þess að átröskun getur tekið á sig ýmsar ólíkar myndir.
Ég fann það fljótlega út að hefðbundin meðferð inni á spítala hentaði mér ekki. Það er átröskunarteymi hjá BUGL og svo er Hvítabandið fyrir þá sem eldri eru. Það er leið sem hentar mörgum og er vel fær ef viljinn er fyrir hendi.
Ég vildi fara ,,mína leið” og hana fór ég. Ég fékk dyggan stuðning og aðhald í Boot Camp og þar vann ég mig upp frá mínus einum og til heilbrigðis á ný.
Mér tókst að virkja keppnisorkuna sem ég hafði haft á hlaupabrautinni í þessu verkefni.
Allt er þetta ákveðið langhlaup.
Hvernig ætlar þú að fylgja bókinni þinni eftir
Ég hef verið að kynna bókina víða og mun halda því áfram sem og halda fyrirlestra fyrir ýmsa hópa. Það er bara verst að klukkustundunum fjölgar ekki í sólarhringnum þó maður gefi út bók.
Eitthvað sem þú vilt bæta við í lokin?
Átraskanir eru engin endalok – ekki vandamál, heldur verkefni.
Í dag er ég í góðu formi, andlegu og líkamlegu jafnvægi. Ég get hlaupið hratt, klifið fjöll, róið, keppt í þrekkeppnum, lyft lóðum og gert allt sem hugurinn girnist. Ég er heilbrigð íþróttakona. Ég losaði mig við takmarkanirnar sem fylgdu átröskuninni og leiðin mun bara liggja upp á við.
Átraskanir eru ekki eitthvað sem þurfa að fylgja einstaklingum það sem eftir er eða skilgreina persónu hans. Alls ekki.
Hins vegar eiga sumir erfiðara með að ná bata og það er ekkert sjálfgefið, því miður.
Að sjálfsögðu hvet ég alla til að kaupa Molann minn enda er þetta eitthvað sem kemur okkur öllum við. Átraskanir eru víða og geta skotið upp kollinum í hvaða fjölskyldu sem er.