Hilda Jana Gísladóttir sjónvarpskona hefur vakið athygli fyrir störf sín á sjónvarpsstöðinni N4. Hún rasaði út snemma á lífsleiðinni en náði tökum á lífi sínu með hjálp SÁÁ. Hún segir mikilvægt að ná sem fyrst til krakka sem eru í neyslu -því lengur sem fólk er í rugli, þeim mun meira skaðast það.
„SÁÁ eru fyrir mér eins og ósýnilegt öryggisnet, rétt eins og foreldrar manns. Maður þarf ekki alltaf á þeim að halda en það er öryggi fólgið í því að vita af þeim,“ segir sjónvarpskonan Hilda Jana Gísladóttir.
Hilda Jana er landsmönnum að góðu kunn en hún hefur starfað bæði sem fréttamaður á RÚV og Stöð 2 en síðustu ár hefur hún tekið þátt í að byggja upp sjónvarpsstöðina N4. Sú stöð hefu smám saman náð góðri fótfestu fyrir norðan en um leið laðað að sér forvitna áhorfendur um allt land.
„Við höfum reynt að gera venjulegt sjónvarp fyrir venjulegt fólk. Það má alveg líka,“ segir Hilda Jana, hógværðin uppmáluð.
Hilda Jana var ein þeirra sem rasaði út snemma á lífsleiðinni og kann hún SÁÁ miklar þakkir fyrir þá hjálp sem henni var veitt til að koma sér á beinu brautina. „Ég fór hratt upp og hratt niður aftur. Ég þurfti mikið á SÁÁ að halda á þeim tíma og fór inn og út úr meðferð í eitt ár. Ég var á Vogi og á Vík og gerðst meira að segja svo fræg að vera í síðasta hollinu á Vífilsstöðum.“
„Það hefur oft verið gagnrýnt að fólk geti komist aftur og aftur í meðferð en það var afar mikilvægt fyrir mig að geta gert það. Ég átti alltaf leið til baka.“
Hún kveðst telja að það hafi unnið með sér hversu ung hún var. „Af því ég var ung var auðvelt að koma strax til baka. Ég fattaði það ekki þá en tíminn var algert lykilatriði. Fólkið sem var með manni í rugli, því lengur sem það var í ruglinu, þeim mun meira skaðaðist það. Þeir sem hafa náð sér upp voru þeir sem gátu hætt sem allra fyrst. Og því fyrr, því betra. Þetta snýst ekki um hvað þú gerir heldur hversu ungur þú kemst út úr því aftur.“
Hilda Jana segir ennfremur að þetta sé algjört lykilatriði í meðferðarstarfi. „Ef einhver fókus ætti að vera þá er það að ná krökkum strax. Þá eiga þau séns.“
Aðspurð segist Hilda Jana ekki vera virk í starfi SÁÁ í dag en myndi þó ekki hika við að nýta sér starf samtakanna ef á þyrfti að halda. Hún segir að afar mikilvægt sé að SÁÁ hafi aðstöðu á Akureyri en starfið mætti vera meira úti á landi. Nálægðin skipti nefnilega máli.
Fyrstu árin eftir meðferð var hún þó mjög virk. „Já, endalaust. Lífið snerist um að vera edrú fyrstu árin. Ég þurfti að gera það þannig. Þetta var bara eins og allar byltingar eru, svo finnur maður jafnvægi og rólegheit. Þá var ég fyrst og fremst óvirk. Í dag er það ákveðin forsenda fyrir því sem ég er en vegna þess að ég hætti hef ég tækifæri til að vera fullt annað. Það er leið sem ég hef valið og ég fylgi henni ennþá.“
"Lífið er gott."