Fullt nafn: Erna Indriðadóttir.
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?
Ég er fædd á Akureyri og ættuð að norðan og austan. Ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík, en hef búið víða, þar á meðal í Lundi í Svíþjóð, Seattle í Bandaríkjunum og á Reyðarfirði. Það hefur verið frábærlega skemmtilegt að búa á öllum þessum stöðum og jafn mikil lífsreynsla að búa í litlum bæ á landsbyggðinni og í útlöndum. Lífið á þessum stöðum er svo frábrugðið því sem gerist í Reykjavík.
Menntun og við hvað starfar þú í dag ?
Ég lærði samfélagsfræði í Svíþjóð og stjórnsýslufræði (MPA) í Bandaríkjunum. Hef unnið við fjölmiðla meginhlutann af minni starfsævi og geri enn, en ég er eigandi og ritstjóri vefritsins Lifðu núna sem fjallar um lífið eftir miðjan aldur. Áður vann ég lengst sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.
Hver eru þín helstu áhugamál ?
Þau eru svo mörg að það er erfitt að telja þau öll upp. En þjóðmál, saga, bókalestur, kvikmyndir og ferðalög eru þeirra á meðal. Þá má ekki gleyma barnabörnunum sem fjölgar stöðugt og eru skemmtilegasta fólkið sem ég þekki.
Bakgrunnur íþróttum og heilsurækt ?
Ég hef alltaf hreyft mig mikið, verið í leikfimi, stundað hlaup og fjallgöngur, en verð að viðurkenna að ég er ekki jafn dugleg í heilsuræktinni þessa dagana og ég þyrfti að vera.
Í hverju felst þín eigin heilsurækt ?
Ég hef síðustu misseri verið í leikfimi hjá henni Báru í JSB, en hún er merkilegur frumkvöðull í líkamsrækt kvenna hér á landi. Svo fer ég út að ganga þegar þannig liggur á mér, stundum á fjöll.
Hver var kveikjan að vefsíðunni „Lifðu núna“ og hver eru markmiðin til framtíðar ?
Eftir að hafa unnið við fjölmiðla í fjölda ára, fannst mér allt í einu skrítið hversu lítið er fjallað þar um líf og störf eldra fólksins í landinu, sem telur tugi þúsunda. Það er líka framundan veruleg fjölgun í eldri aldurshópunum og markmið síðunnar er einmitt að gera þetta fólk sýnilegra en það er í dag og vinna gegn fordómum gegn þeim sem eldri eru. Sem betur fer eru það ýmsir fleiri sem eru að vinna að þessu á ýmsum vígstöðvum og ég spái því að eftir ca.10 ár, verði orðin mikil breyting á viðhorfinu til eldri kynslóðarinnar.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?
Léttmjólk, smjörvi og egg.
Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?
Matargerð er orðin svo fjölbreytt og matsölustaðirnir svo margir og góðir að það er verulega erfitt að velja, en soðin ýsa með kartöflum, smjöri og gulrótarsalati með rúsínum, finnst mér einhver besti matur sem ég fæ. Ég fer ekki mikið á matsölustaði, enda vann ég þannig vinnu um árabil að ég var alltaf að borða á veitingastöðum. Eftir það finnst mér miklu betra að fá góðan mat sem er eldaður heima. Ég er í matarklúbbi með nokkrum vinum og maturinn sem við fáum þar er betri en nokkur veitingastaðamatur. En til að nefna eitthvað, finnst mér indverskur og pakistanskur matur mjög góður og líka matur frá Líbanon sem ég kynntist á Spáni.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?
Ég er að lesa bókina Breyttur heimur, eftir Jón Orm Halldórsson og finnst hún afar áhugaverð. Það er svo gaman að skoða heiminn og það sem þar er að gerast, en við hérna á Íslandi erum oft svo heimóttarleg finnst mér. Besta bókin sem ég hef lesið er Heimsljós eftir Halldór Laxness.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?
Slaka á heima, með fallega tónlist í geislaspilaranum. Fæ mér eitthvað gott að borða og kannski vínglas.
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?
Ég þarf ekkert sérstaklega að tala við sjálfa mig um þau stóru verkefni sem ég er með í vinnunni, ég bara vinn í þeim. Verði einhverjar hindranir á veginum, þá anda ég djúpt og ákveð að sofa á þeim. Það er aldrei gott að gera eitthvað eða taka ákvörðun um mál ef maður er reiður eða fúll. Erfiðustu verkefnin sem ég hef tekist á við hafa meira verið í einkalífinu, veikindi og slíkt. Það hefur gefist mér best að fara í Jóga í Lótushúsi hjá Sigrúnu Ólsen til að ná þeirri hugarró og því æðruleysi sem þarf þegar erfiðleikar steðja að.
Hvar sérð þú þig fyrir þér eftir 5 ár ?
Þá verð ég komin á eftirlaun og farin að sinna einhverjum þeirra verkefna sem mig langar að snúa mér að, ef ég verð svo heppin að vera við góða heilsu. Þá verður vefritið mitt Lifðu núna orðið 6 ára og vonandi orðið blómlegt fyrirtæki, sem sér eldra fólki fyrir áhugaverðu efni, fræðslu og afþreyingu ýmiss konar.