Heiða Björg Hilmisdóttir starfar sem deildarstjóri Eldhúss og matsala á Landspítalanum. Hún er með meistarpróf í næringarrekstrarfræði frá Gautaborgarháskóla og MBA í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Heiða Björg hefur um árabil skrifað um mat og næringu í blöð og tímarit og hefur í félagi við Dr. Bryndísi Evu Birgisdóttur gefið út matreiðslubók.
Heiða Björg hefur verið virk í félagsstörfum, meðal annars gegnt formennsku í Matvæla og næringarfræðafélagi Íslands og setið í stjórn Starfsmannaráðs Landsspítala og Manneldisfélagsins. Um þessar mundir er Heiða Björg formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar og varaformaður MS félags Íslands. Og í framboði í 3 – 4 sæti í flokksvali Samfylkingarinnar
Heiða Björg er gift Hrannari Birni Arnarssyni og eiga þau fjögur börn, fimm, átta, fimmtán og tuttugu og tveggja ára. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu framboðsins https://www.facebook.com/heidabjorghilmisdottir
Nú ert þú í framboði fyrir Samfylkinguna fyrir Borgina okkar, hver eru þau málefni sem eru þér efst í huga og þú munt leggja þig fram við að koma á framfæri?
Fátt eigum við verðmætara en heilsu okkar og hamingju. Þetta vitum við flest, en einhverra hluta vegna fá þessi mikilvægu mál lítið rými á hinu pólitíska sviði. Þessu þurfum við að breyta og um leið færa pólitíkina nær íbúum borgarinnar. Ég vil gera Reykjavík að heilsueflandi borg - samfélagi þar sem íbúum er á öllum aldursskeiðum tryggt heilnæmt umhverfi og góðar aðstæður til að lifa heilsusamlegu og hamingjuríku lífi. Til að skapa heilsueflandi borgarsamfélag í Reykjavík þarf einfaldlega að horfa til flestra þátta borgarsamfélagins með heilsueflandi langtímahugsun að leiðarljósi. Þannig getum við jafnt og þétt bætt lífgæði íbúa.
Ég lít á mig sem notanda þjónustu borgarinnar og vill horfa á þjónustuna út frá því með grunngildi jafnaðarmennskunnar að leiðarljósi: jöfnuð, jafnrétti og réttlæti. Mér standa velferða og skólamál næst hjarta. Mig langar að sjá öfluga þjónustu við þá sem þurfa aðstoð samfélagsins til að eiga gott líf.
Allir Reykvíkingar eiga að hafa jöfn tækifæri til að nýta sér lífsgæði borgarinnar. Forsenda þess er að þjónusta borgarinnar sé sveigjanleg og einstaklingsmiðuð og sem virkur þátttakandi í félagasamtökum langveikra veit ég hversu ótrúlega dýrmætt það getur reynst. Sem uppalandi þriggja barna hef ég kynnst mikilvægu starfi borgarinnar fyrir barnafjölskyldur. Í Reykjavík er gott að ala upp börn og við höfum allar forsendur til að bæta lífsgæði barnafjölskyldna enn frekar.
Ég vil að reykjavík verði í fararbroddi í mannréttindamálum. Launamunur kynjanna, kynbundið ofbeldi, ofbeldi gegn börnum, fátækt, bágar aðstæður meðal fatlaðs fólks og aldraðra – allt eru þetta brýn mál sem verður að hafa í forgangi á næsta kjörtímabili í baráttunni fyrir auknu réttlæti.
Er þetta þitt fyrsta framboð og var erfitt að taka ákvörðun um það hvort þú ættir að bjóða þig fram?
Ég hef aldrei áður gefið kost á mér á lista en hef starfað með Samfylkingunni síðustu 2 ár, þá aðallega í kvennahreyfing flokksins. En það er ekki síður starf mitt sem varaformaður MS félagsins sem dreif mig i að taka þessa ákvörðun. Mig langar virkilega að leggja mitt af mörkum til að gera samfélagið betra. Þetta einhvern vegin bara gerðist, fólk var að hvetja mig áfram og svo var ég allt í einu komin í framboð.
Nú ert þú yfirmanneskjan yfir eldhúsum spítalanna, hvernig er spítalamaturinn í dag? (sem dæmi, morgunmatur, hádegis, og kvöldmatur)
Á LSH er eitt framleiðslueldhús þar sem allur matur er framleiddur og svo tíu matsalir fyrir starfsmenn. Við bjóðum fimm máltíðir fyrir sjúklinga morgunverð, hádegisverð og kvöldverð og tvo millibita. Eldhúsið býður upp á þá þjónustu að sjúklingar geti valið milli þriggja rétta í hverri máltíð, það er oft fiskréttur, kjötréttur og grænmetisréttur. Þetta er mikilvægt fyrir ánægju fólks og líklegra er að fólk borði meira af mat sem það hefur valið frekar en af mat sem sendur er.
Hvernig byrjar þú venjulegan dag?
Ég vakna korter í 7 og vek börnin hálftíma síðar og við borðum morgunmat saman öll áður en haldið er af stað í daginn. Með nesti og íþróttaföt og allt sem muna þarf eftir að þau séu með með sér.
Hvað hefur þú að segja um ástandið sem er á spítölunum núna?
Á LSH vinnur mikið af færu fagfólki sem gaman er að vinna með, undanfarið hefur verið erfitt bæði vegna niðurskurðar og vegna þess að okkur vantar vissu um það að við séum að fara að fá nýtt húsnæði undir þessa mikilvægu starfssemi. Aðstaða er víða mjög slæm á spítalanum og það hefur mikil áhrif.
Er eitthvað sem þú getur ekki verið án, s.s síminn eða eitthvað í þá áttina ?
Nei, í rauninni ekki en ég vil helst ekki vera mjög lengi langt frá tölvunni minni samt. Góð bók má heldur ekki vera langt undan. Ég les helst á hverju kvöldi.
Áttu uppáhalds stað á Íslandi?
Ég er mjög hrifin af Ásbyrgi og Þingvöllum en svo er Laugardalurinn eiginlega minn uppáhalds staður. Að vera í dalnum með börnunum að skoða, hjóla eða ganga er alveg yndislegt.
Kaffi eða Te?
Kaffi best og grænt te
Hvernig fer skammdegið í þig?
Ég er mikil sumar manneskja, rækta grænmeti á sumrin og hef unun af að vera úti. Þegar fer að dimma fer ég í svona inni tímabil þar sem ég les rosalega mikið og vill komast í jóga og meira inn á við. En kertin og jólin bjarga þessu alveg.
Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Ég mundi segja fólki að vera það sjálft og forgangsraða heilsu og hamingju í lífinu og gera mikið af skemmtilegum hlutum með þeim sem eru manni kærir.