Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?
Ég rumska við vekjaraklukkuna kl.6 þegar eiginmaðurinn fer á fætur. Hann dekrar svo við mig á hverjum morgni með því að færa mér kaffibolla, banana og vítamíntöflur þegar hann fer kl.7.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Skyr og hvítvín! Og fullt af sultum, það er eins og þær fjölgi sér í ísskápnum.
Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?
Ég get ekki verið án fjölskyldu og vina, en það eru ekki hlutir. Ég fer ekki úr húsi án gleraugna, veskis og lykla, svo ég býst við að ég geti illa verið án þessa
Ef þú vaknar extra úldin á morgnana hvað er þitt besta ráð til að ná ferskleikanum aftur ?
Góð sturta og svo geng ég í vinnuna, það er oftast mjög hressandi og notalegt og gott að hugleiða það sem liggur fyrir
Hver er uppáhalds tími dagsins ?
Það er misjafnt, mér finnst notalegt að hafa tíma til að koma mér af stað á morgnana, en mér finnst líka dásamlegt á kvöldin að slappa af í rólegheitunum. Og svo er alltaf gaman í vinnunni því ég á svo frábæra vinnufélaga.
Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?
Það er kraftaverk ef ég næ að skokka einu sinni í viku núna þegar lægðirnar skella á, en ég reyni að ganga eins mikið og ég get.
Hvort velur þú bók eða bíómynd ef þú ætlar að hafa það gott heima ?
Þessa dagana prjóna ég í akkorði og þá vel ég bíómynd eða sjónvarp, en mér finnst óskaplega gott að fara upp í rúm með bók.
Hvernig ferð þú á milli staða? þá á ég við keyrandi, gangandi, hjólandi...
Ég er svo lánsöm að búa nálægt vinnustaðnum, ég fer mest fótgangandi og stundum hjólandi. Og þar sem ég fer lítið austur fyrir læk dugir þetta mér svona dags daglega.
Kaffi eða Te ?
Ég drekk allt of mikið kaffi og finnst það gott.
Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Ekki taka þig of alvarlega, það er enginn fullkominn og maður þarf að geta gert grín að eigin mistökum og vanköntum.