" Það er einmitt það sem rak mig út í að stofna og reka mitt litla fatahönnunarfyrirtæki, Íris Berg ehf. fyrir tæpu ári síðan. Ég er með algjöra og ólæknandi ástríðu fyrir endurvinnslu af öllu tagi,og þó sérstaklega þegar kemur að endurhönnun og nýtingu notaðs fatnaðar. Ég gæti trúlega verið án matar, lokast í eigin heimi og týnst í þessum verkefnum heilu helgarnar ef ég ætti ekki minn yndislega skilningsríka eiginmann og börnin mín. En ég elska líka að hanna og vinna "hefðbundin verkefni" sem er dásamlegt mótvægi og samspil við hitt" Segir Íris. Sjá má hennar hönnun HÉR.
Hvernig byrjar þú þinn týpíska morgun ?
Vakna og stekk á fætur 5.30 og það fyrsta sem ég geri ALLTAF er að taka góðan slurk af þorskalýsi og stórt glas af vatni á meðan ég bíð eftir að kaffivélin hitni. Svo er kaffi í stóran bolla, tékka eldsnöggt á tölvupóstum&facebook fer í gymgallann, fylla brúsann með NoXplode, í skóna og hoppa út.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Lýsi&mjólk, annars er panikk!
Nú hefur þú búið í Danmörku, hvað er ólíkt við að búa þar og hér (ef við spáum í með hreyfingu og mataræði t.d) ?
Það augljósasta er auðvitað bílaofgnóttin á Íslandi, er enn ekki búin að jafna mig og venjast því og stærðinni á bílunum. Í Danmörku hreyfa flestir sig margfalt meira, þrátt fyrir að þetta hafi breyst hér að einhverju leyti, þá er eins og guðlast að eiga ekki bíl hér og ég veit um dæmi að vinkona mín hafi verið spurð hvort hún hafi misst prófið eftir að hún valdi að eyða peningunum sínum í annað en bíl.
Mataræði er ótrúlega ólíkt líka, hér eru sjoppur og skyndibitastaðir á hverju horni, og að auki eru allar þessar heimsendingar á mat alveg magnaðar miðað við alla bílana! Eitt enn er áberandi öðruvísi og merkilegt hér, en það er þetta All-in dæmi, allir verða að prófa þetta og hitt mataræðið, þessar æfingar eða álíka, annars ertu bara úti að skíta og alls ekki samtalshæfur – finnst þetta svo skemmtilegt og fyndið eitthvað.
Hvað ertu alltaf með í handtöskunni þinni?
Síma, tyggjó, farða, gloss, eyeliner, naglaþjöl&acetone klúta (just in case) og alltaf prufuglas af ilmvatninu sem ég er með þann daginn.
Hvað ertu að æfa og hvernig æfingar gerir þú?
Æfi í World Class alla virka daga, aðallega styrktarþjálfun því mér leiðist alveg með eindæmum að ganga innandyra. Þessvegna geng ég 5-6 km minnst 3x í viku úti í yndislega ferska íslenska loftinu, eða hleyp ca 3-4 km.
Áttu gott ráð fyrir okkur sem vöknum stundum ofur myglaðar?
Humm, það fer eftir hvort ráðið á að vera hvað á að gera þá morgna sem myglan er, eða hvort það á að vera til fyrirbyggingar.
Ef þið vaknið myglaðar, lýsi og ískalt vatn gerir kraftaverk og koma svo blóðinu af stað með einhverri hreyfingu!
Finnst þér íslendingar duglegir að hreyfa sig?
Sko, sorglega finnst mér já og nei. Það sem ég meina er að mér finnst íslendingar að stórum hluta skiptast í 2 hópa; þá sem hreyfa sig (mun minni hópur ) og hina sem fara allt í bíl og eru búnir að gleyma að fæturnir voru settir á okkur til að ganga og flytja okkur á milli staða. Það eru auðvitað einhverjir þarna á milliveginum, eins og ég lít á mig og mína fjölskyldu, en allt of stór hluti er því miður í hreyfingarlausa hópnum og ég verð alltaf alveg galin í hausnum þegar fólk segist ekki "geta" farið hitt og þetta því bíllinn sé ekki klár fyrir utan. En ég get auðvitað bara dæmt út frá því hvernig ég sé þetta í kringum mig
Myndir þú nota hjól meira til að komast á milli staða ef aðstæður leyfa?
Að hjóla er einn mesti og besti ferðamáti sem til er, og ég nota mitt alltaf reglulega þar sem það er oft fljótlegra hér á milli í HF. En það er staðreynd að aðstæður eru ekki nógu góðar til að nota hjólið sem staðgengil fyrir bíl hér á landi og við erum ekki komin nógu langt til að það breytist í bráð og já ég myndi nota hjólið mun meira ef aðstæður væru meira hjólavænar. En svo er líka þetta með íslendingasnobbið, þegar það er voða kúl að hjóla sem líkamsrækt og taka þátt í hjólakeppni, en ekki eins kúl að kjósa að eiga ekki bíl og nota hjólið sem ferðamáta, þá vorkennir fólk manni.
Hvað er besti tími dagsins?
Sko, finnst eiginlega allur dagurinn bestur, en á milli 5.30-8 á morgnana er toppurinn! Að vakna á undan öllum í allri kyrrðinni er dásemd, skutlast í ræktina og svo tekur við rólegheitastund með stelpunum mínum til 8, vildi oft geta fryst þessar klukkustundir.
Ef þú værir beðin um að gefa gott ráð til hóps af fólki,hvaða ráð væri það ?
Upp úr sófanum ef þið eruð hreyfingarlaus og stökkvið út í ferska loftið og fallegu náttúruna okkar, lífið verður svo miklu auðveldara og skemmtilegra, og orkan til daglegra athafna margfaldast! Taka svo undradropana okkar LÝSIÐ (og mér er alveg sama hvort það er "in eða out" í augnablikinu, veit það virkar!) og leyfa sér að "syndga" líka smá því annars finnst mér oftast hlutirnir klúðrast og óstjórn verða, amk ef ég tala út frá eigin reynslu. Fyrir mörgum árum ákvað ég að "banna" sjálfri mér að borða nammi, og það sem gerðist var að allt í einu fór ég að kaupa og borða kex og kökur eins og lífið lægi við, því hitt (allt sem hét NAMMI) var bannað! Þar af leiðandi er ég persónulega mikið á móti boðum og bönnum í þessum efnum, en ef mig langar í Snickers, þá LEYFI ég mér það og vegna þess að það er ekki bannað er valið mitt hvenær sem ég vil. Það merkilega sem kemur út úr þessari hugarleikfimi er að löngunin kemur sárasjaldan fyrir.