Kristín Linda Jónsdóttir er sveitastelpa alin upp í Fnjóskadal í Þingeyjarsýslu en líka borgardama
sem býr nú í Fossvoginum í Reykjavík. Ég kýs að lifa litríku lífi og hef nokkrum sinnum breytt
hressilega til á lífsveginum. Ég hef meðal annars unnið í skógrækt, sem þjónn á Bautanum á
Akureyri og á hótelum, í sláturhúsi, verið bankastarfsmaður á Akureyri og blaðamaður í fullustarfi
og svo var ég kúabóndi í Aðaldal í Þingeyjarsýslu í15 ár. Síðustu tíu ár hef ég búið í Reykjavík og er
sjálfstætt starfandi sálfræðingur hjá eigin sálfræðistofu Huglind. Samhliða öllu þessu hef ég ritstýrt
tímaritinu Húsfeyjunni sem Kvenfélagasamband Íslands gefur út, í 19 ár. Ég á þrjá fullorðna syni sem
allir blómstra á sinni vegferð, tendadætur og barnabörn og vænsta karl sem heitir Jens og er frá Grindavík.
Við hvað starfar þú í dag?
Í starfi mínu sem sálfræðingur sinni ég fólki sem er að fara í gegnum erfið tímabil á lífsleiðinni. Þeim sem vilja bæta eigin heilsu, líðan og lífsgæði og efla sjálfan sig. Við glímum öll einhvertíman við erfiðleika, vansæld og heilsubrest eða áföll og þá er sjálfsagt að leita sér faglegrar hjálpar til að ná fyrr bata og betri líðan. Ég held líka fyrirlestra og námskeið um líðan, lífsgæði, streitustjórnun, heilsueflingu, stöðumat og stefnumótun í eigin lífi svo eitthvað sé nefnt. Í Endurmenntun Háskóla Íslands og fyrir fjölda vinnustaða, hópa og samtaka. Námskeið sem ég held á Spáni í samvinnu við Ingu Geirsdóttur fararstjóra hjá Skotgöngu fyrir konur 40 ára og eldri voru afar vinsæl fyrir Covid. Þetta eru viku námskeið ýmist á Albír eða Tenerife þar sem ég held námskeið fyrir hádegið, alvöru námskeið byggð á vísindum sálfræðinnar en líka hagnýt og skemmtileg og þátttakendur fara svo með Ingu eftir hádegið í gönguferðir og skoðunarferðir. Það myndast einstök samkennd og stemming í þessum ferðum sem má lesa um nánar á skotganga.co.uk/sjalfsraektarferdir. Tónninn er sleginn að morgni í samveru á námskeiðinu og svo halda konurnar áfram að spjalla og kynnast og ný sýn og vináttubönd verða til. Nú erum við að bóka í næstu ferðir sem verða í október og áhuginn er mikill. Við höfum líka verið sem svona viku námskeiðsferðir fyrir hópa og vinnustaði. Svo komum við Inga upp síðu á facebook sem heitir KVENNAKLÚBBUR INGU GEIRS OG KRISTÍNAR LINDU núna í mars fyrir konur 40 ára og eldri til gagns og gamans og nú þegar njóta þúsundi kvenna þess að fylgjast með okkur þar. Það kom mér satt að segja á óvart hvað kvennaferðirnar til Spánar hafa fengið einstakleg góðar umsagnir, konur um og yfir miðjan aldur virkilega njóta þess að eiga viku fyrir sig til alvöru uppbyggingar þar sem dagskráin er vegleg og vönduð.
Hver er þín helsta hreyfing?
Ég sæki vatnsþrektíma í Kópavogslauginni hjá Helgu Guðrúnu Gunnarsdóttur og það er algjör snilld. Kraftmiklir og skemmtilegir tímar með tónlist og fjöri. Svo stunda ég gönguferðir í náttúrulegu umhverfi, ekki manngerðu. Helst flatlendisgöngur eða gönguferðir þar sem hækkun er undir 300 metrum. Þetta er markviss ákvörðun hjá mér því að mér finnst endurnærandi að njóta gróðurs, fuglalífs og fegurðar á láglendi frekar en að klífa urð og grjót. Í gönguferðunum legg ég mig fram um að taka eftir fegurð og mikilfengleika í umhverfinu og einbeita mér að því. Það er miklu meira nærandi heldur en að flækjast fram og aftur í eigin hugsunum. Svo á ég rafmagnshjól og það er algjör dýrð að skella sér á bak og taka einn hring. Ég mæli með því að fólk geri sér það að reglu að taka eina til þrjár myndir í hverri gönguferð. Sú ákvörðun verður til þess að maður tekur betur eftir af því að ósjálfrátt er maður að leita að myndefni dagsins. Svo þegar heim kemur er notalegt að skoða myndirnar í símanum sínum og varðveita áfram þá bestu. Með tímanum verður svo til myndasafnið, ævintýri á gönguför.
Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Lífið er allt í tímabilum. Áratugum saman nýtti ég sæla sumardaga til að ferðast á hestbaki á Norðurlandi. Það er einstök upplifun að ríða þingeysku heiðarnar og dalina. Ég upplifið sannarlega að vera drottning um stund, á hestbaki á góðum hestum, þá kemst vanur knapinn í algjört flæði sem fylgir mikil sæla og gleði. Síðasta áratug hafa hins vegar annarskonar ferðalög verið á dagskránni. Ég tók mig til og fór að ganga, og hef meðal annars gengið á Stöndum og Laugarveginn, í Austurrísku ölpunum og pílagrímaleiðina til Rómar og eftir Jakobsveginum á Spáni. Spánn er í uppáhaldi hjá mér og Tenerife þar með talin. Það er eitthvað við Spán sem ég elska meira en önnur lönd þó ég hafi vissulega notið þess að ferðast víða um Evrópu og vestur um haf.
Núna fer ég oft til Albír og Tenerife bæði til að sækja mér heilsubót í sól og yl en líka vegna vinnu minnar á námskeiðunum, sem er bara algjör dýrð. Námskeiðin eru haldin á góðu hóteli á Albír og öll stemmingin þar og í nágreninu er afslöppuð og notaleg svo fólk endurnærist. Tenerife er svo að mínu mati kjörin til heilsubótar, fyrst og fremst að hreyfa sig úti í góðu veðri og njóta þess að bara vera.
Hver er þinn uppáhalds matur?
Það er þessi kjarngóði íslenski matur. Lambakjöt, þorskur, gulrætur, ostur, tómatar, gúrkur, blómkál, hvítkál og bláber. Mér finnst lambakjöt og folaldakjöt vera næstum náttúruleg villibráð og mjög góður kostur. Ég vel það frekar en hvítt kjöt af dýrum sem eru alin í búrum, en það er bara mitt, hver hefur sína speki. Fiskur er frábær, íslenskt grænmeti æði og dökkt alvöru súkkulaði bætir alltaf daginn.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Hluti af stefnunni minni að lifa litríku lifi er að njóta menningar. Lesa, horfa á valið myndefni í sjónvarpi, fara á tónleika, í leikhús og á listasýningar. Ég les tímarit og margskonar bækur og ég kaupi bækur reglulega af því að ég vil styðja við höfunda og bókaútgáfu, ef við kaupum ekki bækur verða þær ekki til. Ég er í mjög gefandi og persónulegum bókaklúbbi sem heitir Söguhetjur og við lesum bækur um konur og eftir konur. Ég les bæði bækur sem eru léttlesnar og renna eins og lækur gegnum vitundina, til dæmis bækur hinnar skosku Jenny Colgan og líka allskonar aðrar bækur ævisögur og fræðibækur. Núna er ég að lesa Myndir og minningar tekið saman af Kristínu Aðalsteinsdóttur, nýja kilju, Bréfið eftir Kathryn Hughes og The art of making memories eftir Meik Wiking forstjóra Hamingjurannsóknarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn.
Á hvað ertu að hlusta þessa dagana, tónlist/podcast?
Ég bý mér til mína tónlistarlista á Spotify, þeir heita til dæmis gamalt og rómantískt íslenskt, spænskt og dillandi, allskonar létt, róandi í apríl og ýmislegt fleira. Svo finnst mér gagnlegt og gaman að hlusta á samtalsþætti til dæmis, Segðu mér með Sigurlaugu Margréti Jónasardóttir. Það er svo holt fyrir okkur að heyra um bjástur annars fólks en festast ekki bara í okkar hring og hugsunum.
Viltu segja okkur frá fleiri áhugamálum?
Já, ég tók upp á því fyrir þremur árum að fara að mála olíumálverk, lenti fyrir tilviljun á námskeið hjá Þuríði Sigurðardóttur, ég sem hafði hvorki málað neitt né teiknað frá því ég var tólf ára. En teningnum var kastað, ég elska að leika mér á minn litríka og barnslega hátt með eigin hugmyndir á striganum og myndirnar sem telja nú tugi eru allar mín sýn á náttúruna, fjöll og fossa og ár svona til dæmis. Svo er alltaf á þeim drottning, kona eða konur, flestar í rauðum, appelsínugulum, bleikum eða fjólubláum kjólum. Mér finnst gaman að hafa dagana og vikurnar fjölbreyttar utan vinnu. Fara og synda, í pottana eða vatnsleikfimina, ganga í náttúrunni eða hjóla, prjóna eða vinna myndir í tölvunni, mála myndir, hlusta á tónlist, horfa á ferðaþætti og kynningar á þjóðum og löndum í sjónvarpi, elda góðan mat og hlusta á tónlist um leið og svo auðvitað að hitta fólkið mitt.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Það er þessi litríki fjölbreytileiki dagsins sem gefur mér mest. Góður kaffibolli, gönguferð í einn, tvo tíma þar sem fegurð og náttúra á nýjum og nýjum slóðum. Ég hvet alla til að fara á nýjar og nýjar slóðir í sínum gönguferðum ekki festast í sama hringnum. Það er til dæmis kjörið að skrifa upp tíu leiðir í nágreninu sem gott og gaman er að ganga í sumar og ganga þær til skiptis. Ef það er á höfuðborgarsvæðinu gæti það til dæmis verið:
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?
Ég sé mig í rauðri lopapeysu og slarkfærum útibuxum að týna ber í Þingeyjarsýslu í kyrrð og ró á litfögrum haustdegi. Svo stefni ég ótrauð á að vinna áfram að því að bæta líðan, heilsu og lífsgæði fólks á sálfræðistofunni, það er ákveðin köllun í lífi mínu sem ég er þakklát fyrir að sinna. Ég sé mig líka í ótrúlega smart rauðum skóm alveg í stuði og gleði að leiða skemmtilegan hóp af fólki gegnum listina að lifa farsælu, heilbrigðu og gleðiríku lífi byggt á sálfræðilegum grunni á hagnýtu, fræðilegu og gagnlegu sálfræðinámskeiði hjá mér á Spáni, ekki spurning! Næst er það Albír og Tenerife í október og nóvember, nú þegar eru margar konur bókaðar og það verður svo gaman, ekki spurning, ég veit það af því að allar fyrir ferðir okkar Ingu hafa fært sönnur á það.