Ásdís byrjaði að æfa íþróttir sem krakki og þá voru fæðubótarefni ekki inni í myndinni. „Þegar svo ég eltist og æfingarnar fóru að aukast, þá var það fyrir tilstilli þjálfara míns, sem á þeim tíma var Stefán Jóhannsson, að ég kynntist fæðubótarefnum. Það var alltaf passað vel upp á mig þegar ég var yngri, pabbi minn var til dæmis alveg harður á því að ég byrjaði ekki að stunda lyftingar fyrr en ég var orðin 16 ára. Hann vildi að ég næði góðum líkamsþroska áður en ég færi að lyfta þungum lóðum. Svo byrja ég að lyfta lóðum, og æfingar byrja að þyngjast og þá byrja ég að taka prótein eftir þær æfingar, það var þjálfarinn sem fræddi mig um hvers vegna ég ætti að gera það. Seinna þegar æfingarnar voru orðnar enn þyngri byrjaði ég að taka kreatín, en þessi efni tek ég ekki á hverjum degi heldur eingöngu þegar æfingaálag er mikið.“
Ásdís lauk mastersnámi í lyfjafræði 2012 og er nú í doktorsnámi í ónæmisfræðum í Zürich í Sviss og segir þá þekkingu hjálpa sér mikið varðandi eigin notkun á fæðubótarefnum. „Ég skil betur hina lífeðlisfræðilegu ferla sem notkun þeirra hefur í för með sér. Það hjálpar mér við að nota þessi efni mjög markvisst. Ég veit á hvaða tímapunkti ég þarf á meira próteini að halda en ég fæ úr fæðunni og hvenær ég á að taka það inn eftir æfingu. Ég tek prótein eftir lyftingar og stundum eftir aðrar æfingar, það fer eftir því hversu erfiðar þær eru, hvað ég er að gera, hvernig mér líður, hvernig dagurinn hefur verið hjá mér og svo framvegis. Það eru svona alls konar svona atriði sem ég fer eftir. Þótt það hafi alltaf verið gott fólk í kringum mig sem ég treysti þá hef ég lært að þekkja líkama minn sjálf og get stjórnað sjálf hvernig ég nærist.“
„Já, hún er það. Það er ekki hægt að gefa einhverja forskrift sem gildir fyrir alla. Gott dæmi er efnið kreatín. Í miklum og snöggum átökum gengur hratt á orkuforðann í vöðvafrumunum, uppistaðan í orkunni eru kreatínfosföt sem líkaminn framleiðir sjálfur og með því að taka inn kreatín aukalega endist orkan aðeins lengur. Segjum sem svo að maður sé í bekkpressu og getur lyft þrisvar sinnum áður en orkuna þrýtur, þá nær maður fjórum eða jafnvel fimm lyftum með því að taka inn kreatín og fær þannig meira út úr æfingunni. En sumir eru með þannig vöðvagerð að það hjálpar þeim, öðrum gagnast það ekki neitt. Ég er með þannig vöðva að kreatín gerir mikið fyrir mig í sambandi við endurheimt og að fá aukaorku til að ganga lengra á æfingum en annars. Þetta er bara eitthvað sem ég hef þurft að finna út úr fyrir sjálfa mig og get alls ekki sagt við alla aðra að þeir eigi að taka kreatín. Þetta er eins og með vítamínin, suma skortir B-vítamín og þá græða þeir á því að taka það inn, aðrir gera það ekki.“
„Nei, það er mikill misskilningur að maður sé að æfa mest rétt fyrir stórmótin, það er einmitt þá sem ég æfi minnst. Erfiðasta æfingatímabilið er á haustin, þá er maður að byggja sig upp, þá er mesta álagið, þá þarf ég mest á fæðubótarefnum að halda. Svo nota ég þau minna. Ég nota til dæmis aldrei kreatín á sumrin þegar mótavertíðin stendur yfir. Ég nota það aðallega frá miðjum október fram að jólum eða jafnvel fram í apríl. Tímabilin hjá mér skiptast þannig að ég byrja að æfa um miðjan október, þá er áherslan fyrst og fremst á þrekæfingar. Svo fer ég í að byggja upp styrkinn og síðan þróast æfingarnar meira og meira út í tækni fyrir spjótkastið og um leið létti ég líkamlega þáttinn. Svo á sumrin snýst líkamlegi þátturinn um viðhald. Ég er ekki að reyna að bæta við styrkinn, en það sem skiptir mestu máli er snerpan og tæknin, halda sér ferskum og þá er minna um æfingar en meira um að hvíla sig á milli móta. Fæðubótarefnin koma því mun minna við sögu á þessu tímabili.“
„Mér finnst því mjög ábótavant. Það eru rosalega margir sem eru að taka þessi efni og vita í rauninni ekkert af hverju þeir eru að því. Ég er að lyfta og á ég þá ekki að taka prótein? segir fólk. En svo þegar maður fer að spyrja það um nákvæmlega af hverju það er að taka prótín þá fær maður oft engin skýr og góð svör. Og ef maður heldur áfram og spyr hvenær tekurðu próteinið og hvað tekurðu mikið í hvert sinn, þá rekur flesta í vörðurnar og vita ekkert af hverju þeir eru að gera þetta. Fólk telur sig hafa fengið einhverjar upplýsingar, heyrir eða sér að afreksíþróttmenn og þeir sem stunda lyftingar séu að taka prótein og þá fer það og kaupir sér fullt af próteini. Fólk virðist þannig almennt ekki nógu meðvitað um hvað það er í raun og veru að gera og það er rosalega oft sem ég sé að fæðubótarefnaneyslan er í engu samræmi við markmiðin. Fólk er kannski að reyna að grenna sig en er í rauninni að taka fæðubótarefni sem hjálpa því við að þyngja sig. Og fólk sem er ekkert mikið í ræktinni en tekur mikið af fæðubótarefnum áttar sig ekki á því að það er að innbyrða drykki með miklu magni af kaloríum og þarf þá ekki að borða eins mikið af mat – en gerir það samt og bætir þá bara á sig í stað þess að grennast. Þá er fólk einfaldlega ekki að æfa það mikið að það þurfi á fæðubótarefnunum að halda. Þetta er að sjálfsögðu ekki algilt en því miður alltof algengt.“
„Jú, það virðist vera í mannlegu eðli að vilja fá skyndilausnir. Fólk vill leggja sem minnst út en fá sem mest tilbaka – og það á að gerast „núna“, eins hratt og hægt er. Þess vegna seljast alls konar megrunarkúrar svo vel, því fólk vill að það gerist „í gær“. En fæðubótarefni eru engin skyndilausn heldur eiga bara að hjálpa til við að næra líkamann miðað við það sem maður er að gera. Ég held að það sé stóri misskilningurinn hjá svo mörgum, að þessi efni séu einhver lausn í sjálfum sér. Ég hef oft rekið mig á það að fólk er kannski að taka fullt af fæðubótarefnum bara af því það hefur heyrt um að einhver afreksíþróttamaður tekur þau. En þetta er auðvitað þannig að fyrst og fremst ber maður ábyrgð á eigin heilsu. Maður þarf að skilja af hverju maður er að taka efnin, þótt maður fá ráð um þau frá einhverjum sem maður treystir. Þetta er manns eigin líkami og maður verður sjálfur að taka afleiðingunum af því sem maður lætur ofan í sig.“
„Já, því miður sér maður talsvert af slíku. Vörurnar eru misjafnlega góðar, til dæmis próteinvörur. Það eru bæði þekktir og virtir framleiðendur sem hafa ákveðinn gæðastimpil og svo er alltaf fullt af alls konar rusli. Fyrir utan fæðubótarefnin sjálf þá eru líka alls konar brennslutöflur og dót sem er ekki bara gagnslaust heldur hreinlega skaðlegt. Það er erfitt að hafa stjórn á þessu. Ég kynni mér bara það sem mig vantar og ég þekki þau efni, en það er fullt til af efnum sem ég veit ekki mikið um. Og stundum hefur maður séð alls konar lausnir þar sem settar eru fram fullyrðingar sem fá mann til að hrista hausinn. Gæðin eru þannig mjög mismunandi á því sem er í boði og ég held mig við það sem ég þekki. Ég fer líka reglulega í lyfjapróf og það myndi ekkert þýða fyrir mig að benda á próteindrykkinn og segja að það hlyti að vera eitthvað að honum ef niðurstaða lyfjaprófsins yrði mér í óhag. Ég ber ábyrgð á öllu sem fer inn í minn líkama, og þess vegna tek ég ekki fæðubótarefni frá öðrum. Ég er með ákveðna tegund af fæðubótarefnum sem ég held mig við af því ég þekki þau og veit að þau eru lagi. Ég tek enga sénsa.“
„Tja, það er erfitt að segja. Meira að segja afreksíþróttafólk verður að gera upp við samviskuna hvað það leggur nafn sitt við. Sumir virðast hugsa bara um peninga en það er lítið hægt að alhæfa um þetta. Ég veit bara að ég myndi aldrei auglýsa annað en það sem ég vissi að væri gott og yfirleitt held ég að afreksíþróttafólk auglýsi góð efni. En svo hristir maður hausinn þegar maður sér íþróttamenn til dæmis auglýsa kók og aðra gosdrykki. Það eru margir íþróttamenn í Bandaríkjunum styrktir af Kóka Kóla, og Red Bull er líka stórt á því sviði. Það finnst mér orka mjög tvímælis, því þetta þýðir ekki að Kók sé gott fyrir íþróttamenn, heldur einfaldlega bara að Kók sé að borga þessum tilteknu íþróttamönnum fullt af peningum fyrir að setja nafnið sitt við það og að þeim þyki það allt í lagi.“
„Fæðubótarefni eru að mínu mati ekki alfarið góð eða alfarið slæm. Þau virka en það skiptir öllu máli að nota þau rétt. Það eru hins vegar sorglega margir sem nota þau ekki rétt. Aðallega út af því að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera. Maður þarf ekki að vera lyfjafræðingur til að hafa þekkingu á þessu. Mér finnst að fólk ætti almennt séð að kynna sér málið vel og vandlega áður en það fer að nota þessi efni, vita hvernig þau virka og hvaða gagn það sjálft getur haft eða ekki af þeim efnum sem það er að velta fyrir sér að nota. Safna upplýsingum og ráðfæra sig við þá sem hafa þekkingu og reynslu af þessum efnum. Fólk sem er að byrja í ræktinni á að spyrja þjálfara sinn og fá grunnupplýsingar um efnin þannig að það viti að hverju það er að leita fyrir sjálft sig og með sín eigin markmið að leiðarljósi – ekki annarra.“
Viðtal: Páll Kristinn Pálsson, ritstjóri SÍBS blaðsins
Ásdís Hjálmsdóttir, lyfjafræðingur