Nafn: Páll Gunnar Pálsson
Menntun & Starf:
Í grunninn er ég matvælafræðingur frá HÍ, síðan hef ég hlaðið utan á þá grunnþekkingu fjöldanum öllum af styttri og lengri námskeiðum t.d. þriggja anna námi í viðskipta- og rekstrafræði hjá Endurmenntun HÍ. Ég fór að vinna í niðursuðu- og fiskvinnslufyrirtæki eftir nám og hef verið meira og minna að sinna störfum tengdum sjávarútvegi síðan. Störfin hafa verið mjög fjölbreytt, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun, vöruþróun og markaðsstörf.
Síðan um aldamótin síðustu hef ég starfað, fyrst hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar hjá Matís, við allskonar verkefni, m.a. sá ég um starfsemi AVS sjóðsins fyrstu átta árin í starfsemi sjóðsins og samhliða því hef ég komið að fjölbreyttum verkefnum – mikið tengd rannsóknum, vöruþróun og upplýsinga- og fræðslumálum.
Lýstu sjálfum þér með nokkrum orðum:
Ég hef mjög gaman af því að velta fyrir mér nýjum möguleikum og fátt er skemmtilegra en að að búa eitthvað til, útskýra með myndum eða texta, finna leiðir og þróa lausnir eða vörur. Mjög gaman er að sjá eitthvað sem maður hefur þróað koma fyrir almenningssjónir t.d. eins og neytendavörur í stórmörkuðum erlendis eða fræðsluefnið sem ég hef unnið að undanfarið. Skapandi umræður þar sem fundnar eru raunhæfar og óraunhæfar lausnir að allskonar málum er skemmtun.
Stundar þú einhverja hreyfingu ?
Á mínum yngri árum var ég mjög virkur í íþróttum, einkum handbolta, en eftir að „rútína“ vinnu og fjölskyldu fékk meira vægi í deginum dró töluvert úr skipulagðri hreyfingu, smá trimm og fótbolti með félögum meðan hnén héldu en síðan hafa göngutúrar með konunni komið sterkir inn.
Helstu áhugamál ?
Ég hef afar gaman að allskonar smíðum, laga til og breyta utanhúss og innan og það er mjög gaman að eiga góð og fín verkfæri, pínulítill græjufíkill á því sviði. Við húsið okkar er stór og mikill garður sem fær stóran skammt af frítíma sumarsins, en auk þess reyni ég að komast eitthvað í veiði og þar er toppurinn Laxá í Mývatnssveit, einstök veiði- og náttúruperla.
Í þinni vinnu er aukin verðmætasköpun, hagkvæmni, betri nýting og gæði efalaust efst í huga. Hefur þú einhvern tímann svigrúm til að stíga út fyrir þann ramma og huga að heilsufarslegum ávinningi af aukinni neyslu á afurðum úr sjó. Hvernig sérð þú fyrir þér að mögulegt sé að auka þessa neyslu ?
Flestir á mínum aldri upplifðu það að borða fisk, aðallega ýsu, mörgum sinnum í viku. Um tíma á lífsleiðinni voru það ekkert jákvæðar minningar svo fiskur varð ekki málið um árabil, en eftir að vinnan snérist meira og minna um sjávarfang þá hefur slíkt hráefni verið efst á mínum lista sem góður og hollur matur. Mér finnst t.d. ekkert að því að borða fisk alla daga vikunnar og minningarnar um fiskátið hér áður fyrr eru bara orðnar góðar minningar. Það skemmir heldur ekki fyrir sannfæringin um að þetta hafi verið hollur og góður matur sem maður var alinn uppá.
Ég er nokkuð viss um að flest sjávarfang sé nauðsynlegt og hollt fyrir unga sem aldna, en hvernig koma á slíku til skila þannig að það hafi áhrif á aukna neyslu er annar handleggur og örugglega engin ein leið til. Umræðan um sjávarútveg hefur lengi verið á neikvæðu nótunum, að vinna í fiski þótti t.d. ekki töff, en á síðustu áratugum hefur þessi vettvangur breyst í tæknivædda matvælavinnslu þar sem lögð er áhersla á að framleiða gæðamatvæli. Það er síðan langhlaup að halda þessari hollustu að fólki og gífurleg tækifæri fyrir þá sem leggja fyrir sig vöruþróun og nýsköpun.
Hvar liggja helstu tækifæri Íslendinga á sviði fiskafurða bæði sem verðmætasköpun en einnig með tilliti til framleiðslu á heilsusamlegu og hreinu fæði ?
Við erum mjög heppin að eiga aðgang að víðáttumiklum náttúruauðlindum til sjós og lands, ennþá eru þær tiltölulega lítið mengaðar en það er ekki sjálfgefið að svo verði um aldur og ævi ef við stöndum ekki vaktina. Okkar tækifæri liggja í okkar sérstöðu, hreinni náttúru og sjálfbærni. En það þarf líka að hafa það í huga að mörg lykilhugtök sem skipta mestu máli í dag voru sum hver ekki til í hugum okkar fyrir nokkrum árum, svo við þurfum að vera vel með á nótunum hvað kemur til með að skipta neytendur máli í nánustu framtíð, það verða kannski allt aðrar áskoranir sem bíða okkar.
Ég verð nú að fá að nota tækifærið og nefna það hvað sjávarafurðir eru stundum fjarri því að vera taldar matur þegar sumir mætir menn og konur tala um fæðuöryggi. Því það er ekki ósjaldan sem talað er þannig að landbúnaður (kjöt, mjólk, grænmeti) sé „eina“ matvælaframleiðslan hér á landi. En við skulum halda því til haga að við flytjum út margfalt meira af mat en við flytjum inn, og þegar við setjum fiskinn inn í jöfnuna þá er fæðuöryggi þjóðarinnar allt annað og landbúnaðurinn verður litla talan í þeirri jöfnu.
Eigum við Íslendingar að gera meira út á matinn okkar, ferskt hráefni, okkar matarmenningu og frumlegheit gagnvart ferðamönnum og ferðamennsku tengt mat og matarkynningum ?
Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með öllum þessum frumkvöðlum um allt land sem eru að skapa nýjar vörur. Neytendum finnst áhugavert að geta komist í tæri við uppruna matvælanna, hverjir það eru sem búa til hráefnið eða matinn, hvaðan hann kemur o.s.frv. Það má líkja þessu við byltingu því það er ekki svo langt síðan að öllum mat hér á landi var stýrt í gegnum ríkisverndaða kanala, það er að vísu ekki alveg búið ennþá.
Matarhönnun, matarferðamennska eru hugtök sem voru ekki til fyrir ekki svo mörgum árum síðan og nú er fullt af fólki að vinna með þessi hugtök og skapa sér og sínum tækifæri og verðmæti. Á þessum vettvangi eru óteljandi möguleikar og í raun þak hugarflugsins eini takmarkandi þátturinn.
Nú hefur þú unnið nýjar handbækur og leiðbeiningar um vinnsluaðferðir á saltfiski, þurrkun á fiski og ferskfiskframleiðslu, sem nýverið hafa verið gefnar út. Hver er helsti ávinningurinn af þeirri útgáfu og eru fleiri slíkar í farvatninu eða önnur verkefni sem segja má frá ?
Að mínu mati er mjög mikilvægt að hafa fjölbreytt framboð af fræðsluefni og það er fátt mikilvægara en að geta sótt sér áreiðanlegar og góðar upplýsingar þegar hentar, slíkt styður þá sem eru að vinna í tilteknum greinum matvælaframleiðslu og eflir þá í að gera góða hluti. Það er mjög gaman og gefandi að búa til efni af þessum toga, viðtökurnar hafa bara verið góðar svo við hjá Matís munum halda áfram að miðla þekkingu okkar og nýta tækifærin sem felast í nýrri tækni á þeim vettvangi.
Nálgast má handbækurnar á vef Matís undir miðlun HÉR.