Ég skammaðist mín niður í tær fyrir þennan sjúkdóm vegna þess hvernig samfélagið hefur stimplað þunglyndissjúklinga. Ég sagði ekki nokkrum manni frá þessu og viðurkenndi þetta ekki einu sinni strax fyrir kærastanum mínum. Mér fannst asnalegt að þurfa að taka einhver lyf og hafði enga trú á þessu. Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta ætti eftir að gjörbreyta lífi mínu til góðs.
Að skammast sín fyrir það að greinast með sjúkdóm á ekki að vera hægt. Það er ömurlegt hvernig samfélagið hefur stimplað þunglyndissjúklinga. Það er hálfpartinn gert lítið úr þeim. Afhverju þarf ég að ljúga þegar ég hringi mig inn veika? Afhverju segist ég vera með magaverki þegar fólk spyr mig hvað sé að?
Ég kenni samfélaginu um. Ég get ekki sagt beint út að ég sé að fá þunglyndiskast af því að þá er ég bara orðin letingi að leitast eftir athygli. Sumir leggjast það lágt að kalla þetta sjálfsvorkunn eða aumingjaskap! Þegar fólk segir manni að brosa bara og hætta þessari fýlu hvað er það þá að hugsa? Eins og maður geti það bara? Þunglyndi væri eflaust ekki svona alvarlegur sjúkdómur ef fólk gæti bara hætt þessari fýlu og verið hamingjusamt. Nei, það virkar ekki svoleiðis. Þunglyndi er sjúkdómur eins og aðrir líkamlegir sjúkdómar. Sjúkdómur sem getur dregið fólk til dauða.
Ég skil að þetta viðhorf hafi viðgengist áður fyrr þegar engin þekking var á sjúkdómnum en núna í dag er það glórulaust. Mér finnst fordómar gagnvart þunglyndi samt vera stöðugt að minnka þrátt fyrir að einstaklingar séu margir hverjir óttalegir þverhausar og neiti að taka því að þetta sé sjúkdómur.
Ef fólk vissi í raun hvernig það er að þurfa að berjast við þunglyndi á hverjum degi myndi það ekki láta svona. Það er sem betur fer ekki hægt að lýsa sársaukanum sem getur fylgt þunglyndisköstum. Að þurfa stundum að glíma við daglegt sjálfshatur – það mikið að finnast maður eiga skilið að deyja, er ólýsanlega erfitt. Stundum vilja sumir ekki einu sinni vakna næsta dag, þ.m.t ég. Það er rosalega erfitt að tala um það og ég skammast mín innilega fyrir þessar hugsanir. Ég ræð ekki alltaf við þær. Sem betur fer á ég góða að sem bregðast fljótt við og geta yfirleitt dregið mig upp á yfirborðið aftur.
Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var alvarlegt sem ég var að gera sjálfri mér. Ég var orðin svo skemmd að ég var hætt að finna fyrir þessari venjulegu „hungurtilfinningu“. Í hvert skipti sem ég varð svöng fann ég fyrir svona þæginlegri tilfinningu. Þessar hungurtilfinningar voru hálfpartinn eins og gleðilyf, veittu mér vellíðan og ég var ánægð með sjálfa mig. Það var ekki fyrr en pabbi fór með mig á Bugl að ég áttaði mig á því hversu djúpt sokkin ég var. Ég tek hinsvegar eftir því í dag hvað sjúkdómurinn skemmdi mig mikið.
Ónæmiskerfið mitt er í rugli og ég fæ yfirleitt allar flensur sem eru að ganga. Í þokkabót leggjast þær verr á mig núna heldur en fyrir tíð átröskunarinnar.
Á Bugl fékk ég loksins staðfest að ég væri þunglynd. Ég og aðrir fjölskyldumeðlimir höfðum alveg grunsemdir um það, enda er þunglyndi erfðatengdur sjúkdómur og nokkrir í ættinni minni glíma við þunglyndi. Þetta var samt sem áður feimnismál og enginn talaði opinskátt um það. Ég er einnig barn alkóhólista og hefur ævin mín verið samkvæmt því. Ég finn ennþá fyrir áhrifum þess. Ég elska foreldra mína afar heitt og er pabbi minn búinn að vera edrú í 7 ár í dag, er að springa úr stolti. Ég kenni þeim ekki um þetta - en að alast upp í svona óstabílu umhverfi segir sitt.
Eftir nokkra tíma á Bugl var send beiðni á átröskunardeild LSH. Sálfræðingurinn minn þar hjálpaði mér rosalega mikið í gegnum allskonar, ekki bara átröskunina. Ég er ennþá í dag að berjast við sjúkdóminn en mér gengur rosalega vel og er mjög jákvæð á framhaldið.
Ég var hjá sálfræðingi á Bugl, samhliða prógramminu hjá átröskunarteyminu, að ræða um allt annað en átröskunina. Ég var sett á lyf og fór í hugræna atferlismeðferð. Mér leið töluvert betur eftir að lyfin fóru að virka sem var eftir rúmar 3 vikur. Í fyrsta skipti í langan tíma náði ég að sofna. Ég lá ekki andvaka uppi í rúmi í svitakasti útaf stressi fyrir morgundeginum. Ég á það til að stressast upp útaf öllu.
Ég get, sem dæmi, ekki pantað mér pizzu. Ég get ekki borðað á nýjum veitingastöðum því ég verð stressuð yfir því hvað ég á að panta mér. Ég stressast upp í nýjum aðstæðum og líður mjög illa. Daginn eftir náði ég líka að vakna. Ég lá ekki bara uppgefin uppi í rúmi. Ég var úthvíld. Lyfin hjálpuðu mér mikið með þetta.
Kærastinn minn tók eftir breytingum. Ég var jákvæðari og auðveldari í umgengni. Hann þurfti ekki stanslaust að tipla á tám í kringum mig. Hann er örugglega þolinmóðasta manneskja sem ég veit um. Hann er kletturinn minn og hefur hjálpað mér í gegnum ótrúlegustu hluti. Hugsanir eins og „ég er einskis virði“, „þau eru betur sett án mín“, „ég er ógeðsleg“ o.s.frv. komu ekki eins oft upp í hausinn á mér.
Ég lenti í tveim átakanlegum áföllum á stuttum tíma sem dró mig mjög langt niður aftur og hægði á bataferli mínum. Mér finnst lyfin hafa hjálpað mér mikið ásamt fjölskyldu minni, vinum, kærasta og hundunum mínum að takast á við áföllin. Það er allt á réttri leið allavega.
Fólki finnst rosalega skrítið þegar ég viðurkenni að ég sé þunglynd. Þeim finnst eins og að þetta geti ekki komið fyrir fólk sem eigi ágætis líf. Þetta er eitthvað sem getur komið fyrir alla. Já, ég á æðislegan kærasta, frábæra vini, yndislega fjölskyldu og 3 fallega hunda en mér getur liðið illa. Það sést kannski ekki utan á mér en innst inni er ég stundum að deyja.
Ég er í fyrsta skipti á ævinni farin að tala um það opinskátt að ég sé þunglynd. Ekki öllum til mikillar gleði því þetta er oft mikið feimnismál fyrir fólki. Í dag finnst mér ég ekki þurfa að skammast mín fyrir sjúkdóminn minn eins og ég gerði fyrst. Það er rosalega gott að geta talað um þetta og fengið góð viðbrögð hjá fólki en ekki hneykslunarsvip.
Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að tala um hlutina getur gert kraftaverk fyrir mig.