Hann borðar heitan mat frá Bergsson Mathúsi í hádeginu í vinnunni en gengur þess á milli fyrir Aktu-Taktu samlokum, Kóki og Prins Póló sem hann styrkir með B-,C-,D- og E-vítamínum sem hann tekur með þunglyndislyfjunum á morgnana.
Hann fattaði fyrir sextán árum að hann væri alkóhólisti og hefur síðan þá farið í þrjár meðferðir og hætt fjórum sinnum að drekka.
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum þínum?
Helling af Kóka Kóla, vatn, beikonsmurost, skólaost, jarðarberja Skyr.is og grænan Smjörva.
Nú fórstu í meðferð í sumar, hvað var það sem dró þig þangað í þriðja sinn ?
Svarið hlýtur að vera að ég fór í þriðja sinn í meðferð vegna þess að ég er drykkjusjúklingur og með reglulegu millibili kemur að því að ég rústa taugakerfinu, sjálfum mér og lífi mínu.
Þegar maður stendur frammi fyrir því að drepa sig eða hætta að drekka á maður það til að reyna að hætta. Auðvitað er það ekkert annnað en bölvuð óheppni að geta ekki leyft sér að fá sér í glas af og til án þess að það endi með hörmungum og veseni en maður situr uppi með þetta helvíti. Og þetta væri varla mikið vandamál ef maður gæti hrist þetta af sér í einni meðferð, eða hvað?
Fallið er alltaf yfirvofandi og ég er frekar gjarn á að láta það eftir mér stundum að verða notalega dofinn og þá fer ofnæmið á fleygiferð og þá er þetta ekki spurning um hvort, heldur hvenær maður neyðist til að leita sér hjálpar.
Hvað finnst þér um SÁÁ og þeirra meðferð?
Ég ber takmarkalitla virðingu fyrir SÁÁ og því góða starfi sem þau samtök vinna en hef aldrei náð að tengja mig við AA sem er plöggað grimmt á Vogi. En það starf sem unnið er hjá SÁÁ er frábært og þau eru ófá mannslífin og fjölskyldurnar sem samtökin hafa bjargað. Þessir átta dagar mínir á Vogi 2005 voru mér mjög lærdómsríkir og maður býr nú einhvern veginn alltaf að því sem maður lærir í meðferðunum, þótt það bjargi manni ekki alltaf frá falli. En maður veit þá í það minnsta hvað maður þarf að gera til þess að rífa sig lausan.
Tókstu þessa svo kölluðu eftirmeðferð líka?
Fyrsta meðferðin mín var á Teigi 2003, sex vikna dagprógramm og svo fór ég á Vog 2005 og í eftirmeðferð þar í einhverjum kvöldskóla. Hef aldrei farið út í sveit til að hætta að drekka. Nú síðast, í sumar, var ég á Teigi sem er orðinn partur af geðprógrammi Landspítalans. Það var frábær hugræn atferlismeðferð sem gerir manni mögulegt að nota hausinn til að vinna í edrúmennskunni frekar en leggja allt í hendur einhvers æðri máttar.
Ég held svo sem að það sé aukaatriði hvaða leið maður velur úr ógöngunum, hvort sem það er AA eða HAM eða hvað annað. Það sem er algilt í þessu er að maður verður að sinna prógramminu, sama hvaða nöfnum það nefnist, eigi árangur að nást. Og þar sem blekkingarleikir og agaleysi eru helstu styrkleikar alkóhólistans er það nú meira en að segja það að sinna sjálfum sér og meininu alla daga.
Ertu að æfa eitthvað þessa dagana ?
Get ekki sagt það. Ég sleit liðband í úlnlið hægri handar í blakkáti í fyrravor og fór í frekar ógeðslega skurðaðgerð í byrjun desember. Er enn í gifsi og læt mér daglega göngutúra duga. Fer beint i sund þegar ég losna við umbúðirnar og þá fer nú fyrst aftur að verða gaman að lifa. Sund og heitur pottur eru besta andans- og líkamsrækt sem völ er á.
Inn á líkamsræktarstöð hef ég aldrei stigið fæti og mun aldrei gera. Mér finnst fólk sem stundar svona stöðvar alveg átakanlega hallærislegt og alveg laust við töffheit.
Áttu uppáhalds stað á Íslandi ?
Mér finnst Ísland ljótt og leiðinlegt land en Vesturbær Reykjavíkur, svo kallaður 107 ber af. Það er allt fallegast og best í 107. Vesturbæjarlaugin, Melabúðin, Háskólabíó, Ægissíðan, KR, Háskólatorg og svona mætti lengi telja.
Fer í taugarnar á þér þegar fólk er að drekka í kringum þig?
Nei, mér finnst það frábært. Sá sem er edrú innan um fullt fólk hefur algera yfirburði og fer heim með skemmtilegustu konunum á meðan slefandi fíflin æla eða pissa á sig. Það sem er helst þreytandi við fullt fólk, og nú hef ég reynslu af því að vera beggja vegna borðsins, annað hvort mökkölvaður eða bláedrú, er að það er alltaf að segja sömu hlutina. Vælir yfir því sama kvöld eftir kvöld og segir sömu hetjusögurnar og brandarana ár eftir ár eftir ár. Þetta er í raun ósköp dapurleg tilvera.
Ef þú ættir bara eftir að lifa í eina viku, hvað væri það fyrsta sem þú myndir gera?
Senda börnunum mínum SMS og segja þeim að lífið sé ofmetið þannig að það sé óþarfi að syrgja mig. Síðan myndi ég byrgja mig upp af rauðvíni og Camel Lights, loka mig af og blasta The Doors í botni og dansa nakinn þangað til kallið kæmi.
Ertu tengdur fjölskyldunni þinni ?
Mér finnst það já, en það geta liðið mánuðir á milli þess sem ég heyri í mínum nánustu. Mér finnst að það ætti að loka fólk inni á stofnunum sem er í daglegu sambandi við til dæmis foreldra sína og systkini. Það er eitthvað verulega sjúkt við svoleiðis.
Ef þú værir beðinn um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það ?
Hvering væri að prufa einu sinni að hugsa um annað en rassgatið á ykkur sjálfum áður en þið gangið inn í kjörklefa og steypið okkur öllum í glötun? Lýðræði var ekki hannað fyrir fábjána.