Fara í efni

Vefjagigt í kjölfar slyss – viðtal við Fjólu Signýju frjálsíþróttakonu

Við mælum með þessu flotta og ýtarlega viðtali við Fjólu Signý.
Vefjagigt í kjölfar slyss – viðtal við Fjólu Signýju frjálsíþróttakonu

Við mælum með þessu flotta og ýtarlega viðtali við Fjólu Signýju.

 

Fullt nafn:  Fjóla Signý Hannesdóttir

Segðu okkur aðeins frá þér í stuttu máli og hvaðan ertu ?

Ég er sveitastelpa frá Stóru Sandvík og mín aðal ástríða eru frjálsíþróttir. Þrátt fyrir ítrekuð meiðsli, veikindi og það nýjasta eru tvö bílslys haustið 2013 held ég alltaf ótrauð áfram. Frjálsar gefa mér svo mikið að ég get ekki hætt. Ég held að það spili einnig inn í að alast upp í sveit og til dæmis að temja hesta að það hafi alist upp mikil þrjóska í mér að ná markmiðunum og hafa sjálf stjórn á aðstæðum. Ég hef í gegnum tíðina mætt miklu mótlæti ekki bara með meiðslum í íþróttum heldur einnig með mikla lesblindu, áföll og kem frá efnalítilli fjölskyldu. Ég hef því alltaf þurft að hafa mikið fyrir öllu sem ég hef áorkað sem gerir hvern sigur sætari.

Ég hef oft fengið að heyra að ég geti ekki það sem ég ætla mér. Sem dæmi þá átti ég ekki að geta stundað íþróttir eftir að ég veiktist mjög illa af einkirningasótt árið 2008 en komst í fyrsta sinn í landsliðið í frjálsum ári síðar! Annað dæmi er að leiðbeinandi í háskólanum sagði að það væri ekki raunhæft að ég gæti skrifað lokaritgerðina mína á ensku og að ég væri með of mikla lesblindu til þess að ég gæti uppfyllt kröfurnar til að ná lágmarkseinkunn. Ég fékk svo hæstu einkunn fyrir ritgerðina og ritgerðin var síðan notuð sem fyrirmynd fyrir næsta ár hvernig ætti að gera góða ritgerð. Nýjasta dæmið er að ég lenti í tveim bílslysum haustið 2013 og í kjölfarið varð ég slæm af vefjagigt. Ég fékk slæm hálsmeiðsli og átti ekki að geta stokkið hástökk aftur né orðið afreksmanneskja í íþróttum með vefjagigt. Þetta er það erfiðasta sem ég hef þurft að komast yfir. Ég er hinsvegar byrjuð að stökkva hástökk og á bestan árangur kvenna utanhúss það sem af er sumri. Ég er byrjuð að keppa aftur og keppti með landsliðinu á Smáþjóðleikunum. Það styttist óðum í að ég komist í mitt rétta form. Það skal engin ákveða fyrir mig hvað ég get og hvað ekki.

Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára hef ég gengið í gegnum ýmislegt. Ég sé ekki eftir neinu eða viljað að neitt hafi verið öðruvísi því þá væri ég ekki sú manneskja sem ég er í dag.

Hvaða íþróttir hefur þú stundað í gegnum tíðina og hvaða íþróttagrein varð síðan fyrir valinu og hvers vegna ?

Ég byrjaði í fótbolta þegar ég var 5 ára og var í honum af til þangað til ég var 17 ára. Ég var efnilegur markvörður en fann mig ekki í hópíþrótt. Ég prófaði einnig um tíma handbolta og körfubolta. Mig langaði að æfa fleiri íþróttir og þá sérstaklega dans en staðreyndin er sú að það var bara ekki til nægur peningur til að greiða æfingagjöld, þó svo að sá þáttur hafi alltaf verið leystur á farsælan máta með hjálp góðs fólks.

Ég byrjaði að keppa í frjálsum þegar ég var 13 ára eftir að frjálsíþróttaþjálfarinn á Selfossi, Sigríður Anna Guðjónsdóttir sá mig óvart stökkva hástökk í skólaíþróttum. Fyrsta árið var ég aðalega að keppa og æfði lítið. En eftir að HSK sigraði 12-14 ára meistarmótið á Dalvík 2003 var ekki aftur snúið. Félagskapurinn, upplifunin, athyglin, virðingin, sjálfstraustið og ánægjan var svo æðislegt að ég vildi ná lengra í frjálsum. Það var þó ekki fyrr en ég var tvítug að ég fór að mæta á allar æfingar og bara í frjálsum. Síðustu 6 árin hafa frjálsar verið í forgang hjá mér og lífið snúist í kringum íþróttina.

Sama hvað hefur gengið á í lífinu þá hef ég alltaf “átt frjálsar að.” Ég á heima á frjálsíþróttavellinum. Ef eitthvað er að angra mig get ég gleymt stað og stund á æfingum, fengið útrás. Það sama á við ef ég er alveg í skýjunum og full að orku þá fæ ég enn meiri útrás á vellinum. Mér finnst svo frábært að í frjálsum eins og flestum einstaklingsíþróttum fær íþróttamaðurinn lof eða last í takt við það hvernig hann stendur sig. Hins vegar í hópíþróttum er þér hrósað þegar liðið vinnur þó svo að þú hafir ekki átt góðan dag og öfugt. Í frjálsum er einnig hægt að sjá tölulega hvort árangurinn er góður eða ekki og hvort viðkomandi er að bæta sig eða hversu langt maður er frá sínu besta.

Ég legg núna megin áherslu á grindahlaup. Ég keppti lengi vel í öllum greinum og oft í sjöþraut sem mér finnst enn mjög skemmtilegt sem og að stökkva hástökk. Mér finnst mikilvægt að brjóta upp rútínuna og finna sig í öðrum greinum. Fá tilfininguna að ég sé sterk, létt og öflug. Það er meira fyrir andlega þáttinn. Ég er hinsvegar með mestu hæfileikana í grindahlaupi og þá sérstaklega í 400m grind. Því er fókusinn þar og grindaræfingar ganga fyrir.

Hvar varst þú stödd á þínum afreksferli þegar best lét ?

Besta formið sem ég hef verið í hingað til var sumarið 2012. Þá bætti ég mig í öllum greinum varð þrefaldur Íslandsmeistari og hljóp 400m grind á mínum besta tíma 59.62 sek sem er 6. besti tími íslenskrar konu frá upphafi. Ég er þó staðráðin í að komast aftur í enn betra from því ég á enn eftir að sýna hvað ég get gert.

Markmiðið mitt fyrir bílslysin var að fara á Ólympíleikana 2016. Það átti að vera hápunkturinn á ferlinum. Hinsvegar hef ég þurft að endurskoða markmiðin mín í kjölfarið meiðsla og vefjagigtarinnar. Ég veit af lágmarkinu sem er aðeins 3 sek frá mínum besta árangri í 400m grindarhlaupi en stefni því frekar á að ná að komast á HM 2017. Ég á um 3-4 ár eftir í þessari grein til að toppa og ég veit að ég get hlaupið á 56s en til þess þarf ég að ná að æfa almennilega sem hefur verið erfitt síðustu 2 ár.

Ég bjó út í Svíþjóð í tvö og hálft ár og æfði þar undir leiðsögn Benke Blomkvist sem er heimsklassa þjáfari. Hann hefur þjálfar heimsmethafa, Ólympíu- og Evrópumeistara ofl. Samhliða því að æfa hjá Benke stundaði ég nám við Högskolan Dalarna og útskrifaðist þaðan sem viðskiptafræðingur 2013. Skólinn er með akademíu fyrir afreksmenn í íþróttum þar sem kennurum er skylt að veita íþróttamönnum sveigjanleika með mætingu, verkefnaskil og próf ef það rekst á við íþróttina (æfingar, ferðir ofl.). Akademían útvegað íþróttaföt fyrir iðkendur og við höfðum aðgang að mælingum og rannsóknum t.d blóðprufur, súrefnisupptökumælingu, fitumælingu o.f.l. Slagorðið þeirra er “þú mætir á æfingar og við sjáum um rest.”

Að fara út var það besta og skemmtilegasta sem ég hef gert en ég neyddist svo til að flytja heim vegna fjárhagsvandræða.

Nú lendir þú í slysi sem snéri lífi þínu gjörsamlega við, segðu okkur frá því og afleiðingum þess ?

1.október 2013 var ég að hjóla í Laugardalnum á hjólreiðastígnum meðfram Laugardalsvellinum í átt að sundlauginni. Þá kom bíll út af bílaplaninu hjá World Class og keyrði á mig með þeim afleiðingum að ég tognaði illa á hálsi, kom blæðing inn á læri og fótlegg ásamt að togna illa á ökkla. Hjólið eyðilagðist og stuðarinn á bílnum brotnaði, en ég var óbrotin. Ég gat samt varla gengið fyrst á eftir. Ég gat ekki farið aftur til Svíþjóðar fyrr en mánuði seinna og þá með aðstoðarmann með mér. Ég var ótrúlega dugleg að gera endalausar æfingar í sjúkraþjálfun og var komin á smá skrið þegar ég kem til Íslands í heimsókn yfir jólin.

Föstudaginn 13. desember 2013 þegar ég var aðeins búin að vera í 24 klst á Íslandi var ég farðþegi í bíl sem lenti slæmri aftanákeyrslu. Um leið og höggið kom komu gríðalegir verkir og hálsinn varð margfalt verri. Seinna slysið var mun erfiðara andlega en það fyrra. Bæði var mjög erfitt að byrja upp á nýtt að byggja sig upp, miklir verkir, svefnleysi og þegar ég svaf fékk ég oft martaðir um að ég væri að lenda í bílsslysum. Ég hitti íþróttasálfræðinginn Hafrúnu Kristjánsdóttir í kjölfarið til að hjálpa mér að vinna úr þessu og núna er ég að vinna með Helga Héðins. Bæði Hafrún og Helgi hafa hjálpað mér mikið.

Ég var dugleg í endurhæfingaræfingunum og vorið 2014 var ég búin að ná mér nokkuð vel eftir slysin og byrjaði að keppa og vinna alveg á fullu. Það var hinsvegar of mikið álag og ég fór í ofálag. Ég var með mikla verki, endalaust þreytt og taugakerfið allt í rugli. Ég svaf lítið sem ekkert fyrstu 6 vikurnar eftir ég flutti heim en hélt samt alltaf áfram. Ég þurfti að hætta að keppa, síðan hætta að æfa, vinna minna að lokum skipti ég um vinnu um haustið. Í kjölfarið fór ég að fylgja mælitækinu Checkmylevel sem hjálpaði mér að byggja mig hægt og rólega upp. Þá byrjaði ég í allskonar rannsóknum til að finna út hvað væri að. Af hverju þessir verkir, þreyta, svefnleysi ofl. Allar rannsóknir sýndu að ég væri stálhraust.

Í janúar 2015 fékk ég það á endanum staðfest eftir greiningu hjá Þraut að ég væri með vefjagigt.

Þetta eru erfiðustu meiðslin sem ég hef þurft að vinna mig uppúr. Áður hef ég getað verið dugleg að gera fullt af öðrum æfingum dugleg, dugleg, dugleg. Núna þarf ég oft að gera ekki neitt. Ég verð svo eirðarlaus að gera ekkert og finnst erfitt að skilja að ég sé að byggja mig upp með því að hvíla. Ég hef þó reynt að taka jafnvægisæfingar, rúlla eða fara í gufu. Ég mæti alltaf á æfingar til að halda æfingunum í rútínu. Mér finnst einnig auðveldara að hafa Checkmylevel sem staðfestir hvernig mér líður – að ég sé þreytt en ekki löt eða hreinlega aumingi.

Ég var nokkuð viss um að ég væri með vegjagigt og þjálfarinn minn líka. Benke var búinn að reyna að haga æfingarálaginu í takt við það. Það kom mér á óvart hvað það er rosalega mikil fáfræði og fordómar í garðs þessa sjúkdóms hér á Íslandi. Fáir vita hvað þetta er og margir telja að þessa sé “ruslakistu greining”. Það er búið að rannsaka vefjagigt mikið. Þeir einstaklingar sem fara í gegnum nákvæmt greiningaferli eins og Þraut býður upp á verða samt fyrir fordómum og upplifa vantrú annarra. Það finnst mér sorglegt. Ég hef yfirleitt fengið að heyra að ég geti ekki verið með vefjagigt því þá gæti ég ekki æft og keppt eins og ég geri. Arnór Víkinsson gigtarlæknir talaði einnig um að ég væri einstakt tilfelli þar sem hann sjálfur áttaði sig ekki á hvernig ég færi að þessu miða við að vera með svona mikil einkenni vefjagigtar.

Hverju hefur þú þurft að breyta í þínu lífi og lífsháttum og hvar hefur þú fengið mestan stuðning ?

Þrátt fyrir að ég nái að vera í betra líkamlegu formi og með meiri orku en flestir sem eru með vefjagigt þá hef ég þurft að breyta ótrúlega miklu. Ekki aðeins að skipta um vinnu og fara úr vinnu þar sem ég var á fótunum allan daginn með óskipulagða matmálstíma og í vinnu þar sem ég gat setið aðeins meira og haft meira svigrúm varðandi matartíma. Líkamlegt álag á vinnutíma var minna. Einnig þarf ég alltaf að taka mér frí frá vinnu daginn sem ég keppi því það er of mikið álag ef ég vinn allan daginn líka. Ég æfi margfalt minna en allir aðrir og ég þarf að passa hvað ég borða enn betur en áður. Ég þoli sykur mjög illa og fær mér til dæmis alltaf að borða á Lifandi Markað á keppnisdegi til að vera viss um að fá góða næringu án þess að þurfa að standa lengi í að elda sjálf. Eftir keppni fer ég svo yfirleitt í pottinn jafnvel Laugar Spa til þess að ná að slaka vel á og hjálpa líkamanum að endurnærast.

Frjálsar eru í forgangi hjá mér sem þýðir að ég missi einnig af ýmsu. Ég missi reglulega af afmælum, útilegum og öðrum viðburðum því ég frjálsar ganga fyrir. Ég mætti einu sinni seint í aðfangadagsmatinn því ég gleymdi mér á æfingu. Þá hef ég fengið spurninguna “þarftu í alvörunni að taka æfingu á aðfangadag?” Svarið er “nei, auðvitað ekki”. Hins vegar finnst mér best að æfa á frídögum því þá hef ég næstum allan tímann í heiminum til að gera það sem mér finnst skemmtilegast. Það má samt segja að ég sé ekki að missa af neinu, ég er bara að gera annað og jafnvel með öðru góðu fólki.

Þegar ég var yngri fannst mér frídagar heilagir til að gera ekkert, frí frá öllu (líka æfingum). Ég hafði enga sérstaka rútínu eða hugsaði hvað ég var að borða fyrir eða yfir keppnisdag. Það hefur breyst mikið. Með tímanum finn ég hvað allt hefur áhrif, hvernig svefninn hefur verið síðustu nætur, hvernig ég hef borðað eða verið mikið upptekin fyrir keppi. Ég hef aldrei þvingað mig til að æfa eða keppa, hef alltaf notið þess. Ég held að krakkar séu stundum þvinguð og of mikil pressa sett á þau. Það er mikilvægt að þau finni það sjálf hvað þau vilja gera.

Þegar ég var lítil og út menntaskólann var ég matvönd og borðaði fáranlega óhollt. Ég fékk nóg af því að vera alltaf lasin og orkulaus og fór í að breyta lífsstílnum. Fyrst tók ég út allt óhollt en það gekk ekki upp, það tók mig 3 ár að þróa hægt og rólega að komast yfir í hæfilega heilbrigðan lífsstíl. Borða fjölbreytt, reglulega og hollt. Á tímabili var ég mun hollari en systir mín hún Jóhanna Hannesdóttir sem í dag er búin að skrifa bókina “100 heilsuráð til langlífis” og er með heilsubloggið vanillaoglavender.is. Mæja eldri systir mín vann lengi í Lifandi Markaði og erum við erum því oft að deila og ræða ýmis heilsutengd málefni. Það hjálpar mjög mikið að fjölskyldan borði hollt og hugsi um heilsuna.

Mæja systir, Ísold dóttir hennar ásamt kærastanum mínum Jóni Steinari hafa einnig verið ótrúlega gott stuðningslið. Þau mæta með mér á flest öll mót og styðja mig alltaf áfram, sama hvernig fer. Þau koma til mín á erfiðum dögum og peppa mig upp jafnframt hoppa með mér af gleði þegar vel gengur. Ég hef einnig flotta styrktaraðila sem hafa haldið áfram að styðja mig og hafa trú á mér þrátt fyrir meiðslin. Það er einmitt á erfiðum stundum eins og við að koma sér upp úr meiðslum sem íþróttamaðurinn þarf hvað mestan stuðning.

Við hvað starfar þú í dag ?

Ég hef unnið sem Viðskiptastjóri hjá Hópkaupum síðan sept 2014. Ég er mjög heppin með vinnustað þar sem ég fæ góðan sveiginleika vegna æfinga og keppni. Öðruvísi mundi þetta ekki ganga upp hjá mér.

Hver er besta bók sem þú hefur lesið og ertu að lesa eitthvað núna ?

Pollýanna er uppáhalds bókin mín. Þú þarft alltaf að sjá það jákvæða í hlutunum. Horfa á hvað þú hefur en ekki hvað þú hefur ekki eða getur ekki gert. Ég er núna að lesa bókina Hámarks Árangur eftir Brian Tracy.   

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Ég á alltaf til Hleðslu, egg og epli (helst lífræn). Nýjasta æðið hjá mér að borða epli með hreinu hnetusmjöri (99,9% hnetur) t.d frá H-berg.

Hver er þinn uppáhaldsmatur ?

Ég segi yfirleitt “eftirrétturinn” því ég svo mikill sælkeri. Það er þó ekkert sem jafnast á við fylltan kalkún ásamt öllu meðlæti sem fylgir á gamlársdag. Ég verð einnig að viðurkenna eins ódýrt og það hljómar að pizza er alltaf í uppáhaldi. Það er erfitt að velja einn uppáhaldsmat þar sem ég elska mat og hef bæði gaman af því að elda og baka.

Hvað gerir þú þér til gamans annað en að lifa og hrærast í frjálsíþróttum ?

Ég er sveitastelpa og elska fátt meira en að vera út í náttúrunni. Hvort sem það er að fara í reiðtúra, veiða, gönguferðir, taka ljósmyndir, útilegu ofl. Oft þarf ég að hvíla mig en langar samt að vera úti þá hef ég stundum farið í Laugardalinn og legið bara í grasinu og notið þess í botn. Ég þarf ekki að leita lengra. Það er mjög mikilvægt að dreifa huganum og að hitta vini og fjölskyldu. Mín reynsla er að hláturinn getur lagað 80% allra vandamála. Enginn nær árangri ef honum líður ekki vel.

Hvað er það besta sem þú gerir eftir æfingu ?

Miklvægt að borða strax, ég er yfirleitt með Hleðslu/kókómjólk og banana. Það er mjög gott að rúlla og nudda auma vöðva áður en lengra er haldið. Eftir það finnst mér best að fara í pottinn helst með æfingafélögum og spjalla. Eftir erfiða intervalæfingu fæ ég mér oft Magnesíum-kalk að drekka. Ég þarf að taka Magnesíum inn á hverju kvöldi annars sef ég illa.

Svo jafnast ekkert á við tilfinninguna þegar líkaminn hefur jafnað sig eftir erfiða æfingu. Þá er eins og ekkert geti sigrað „mann“ – þá er bara að njóta!

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Ég elska ís og pizzu. Það alveg ótrúlegt hvað ég fæ aldrei nóg af þeirri tvennu. Yfir veturinn er yfirleitt heimabökuð föstudags pizza. Ef ég er þreytt fer ég með góðri vinkonu í Laugar spa og slaka á þar, það er mjög endurnærandi fyrir líkama og sál.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Ég skal, vil og get. Ef ég hef áhyggjur af einhverju eða er efins þá minni ég mig ávalt á “Don’t worry be happy” eða ekki hafa áhyggjur vertu hamingjusamur. Ég hlustaði á þetta lag í æfingabúðum árið 2009 og ákvað að segja upp sumarvinnunni. Af því að það var vaktarvinna og hefði verið erfitt að ná árangri í frjálsum samhliða. Ég hugsaði að mér þætti skemmtilegra að hlaupa hratt, stökkva og kasta lengra en eiga peninga.

Ég minni mig einnig á að ég næ aldrei árangri ef ég gerir eitthvað af því að ég þarf þess, þetta þarf að snúast um að vilja.

Hvar sérð þú þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Eftir 5 ár verð ég búin að hlaupa 400m grind á 56 sekúndum. Ég verð örugglega enn með mörg járn í eldinum og alltaf á fullu, öðruvísi virka ég ekki. Líklegast með erfingja á leiðinni, að undirbúa að skrifa bók þar sem ég hef frá svo miklu að segja. Ég vil láta gott af mér leiða og hjálpa öðrum að læra af minni reynslu t.d að koma sér í form efti slys og læra að lifa með vefjagigt.