Menntun & Starf ? B.ed. próf í kennslufræðum. Skrifstofustjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á Akureyri, kennari á þjálfaranámskeiðum ÍSÍ.
Hver er Viðar Sigurjónsson, hver er þinn bakgrunnur og hver eru þín helstu áhugamál önnur en að fræða sem flesta um þjálfun, næringu og annað er snýr að íþróttaþjálfun?
Er fæddur og uppalinn Vopnfirðingur, bjó þar í kvartöld (25ár). Hef stundað íþróttir alla tíð, mest knattspyrnu. Þjálfaði knattspyrnu í mörg ár, í öllum deildum, alla flokka og bæði kyn. Stunda veiðiskap með börnunum mínum, bæði stang- og skotveiði. Á sumrin reyni ég að eiga sem flesta daga í útilegu með fjölskyldunni í tjaldvagninum mínum.
Uppáhalds veitingastaðurinn þinn og hverju mælir þú með þar?
Eldhúsið mitt þar sem ég matreiði sjálfur, mæli sérstaklega með bananafiskinum J
Hvaða hreyfingu eða heilsurækt stundar þú sjálfur?
Knattspyrnuæfingar tvisvar í viku í Boganum á Akureyri við góðar aðstæður.
Þegar þú vilt gera sérlega vel við þig, hvað kemur fyrst upp í hugann?
Útilega í tjaldvagninum með fjölskyldunni, gott á grillið með eftirrétti að hætti hússins/tjaldvagnsins. Gítar og söngur í kjölfarið.
Hvað er best við Akureyri ?
Minna en 5mín í allar áttir innan bæjar, engar vegalengdir, allt til alls J
Eru íþróttir og heilsuefling á uppleið á Akureyri og hvaða viðburðir eru stærstir hjá ykkur ?
Íþróttafélög á Akureyri eru öflug og mörg þeirra að gera góða hluti. Aðstaðan er yfir höfuð afar góð fyrir mjög margar íþróttagreinar. Töluverður fjöldi stórra íþróttamóta eru haldin á ári hverju, vil ekki gera upp á milli þeirra.
Hvernig er fjarnám Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) byggt upp og hvað eru stigin mörg. Hvaða fög eru kennd innan þess og er þetta aðeins bóklegt nám ?
Fjarnám ÍSÍ í þjálfaramenntun tekur til allra stiga menntakerfisins, 1. 2. og 3. stigs. Fjarnámið er almennur hluti þekkingar íþróttaþjálfara sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Það verða því allir íþróttaþjálfarar að taka þetta fjarnám og sérgreinahluta hvers stigs taka þjálfarar/nemendur svo hjá viðkomandi sérsambandi ÍSÍ eða sérnefnd. Meðal efnis í þessum almenna hluta má nefna íþróttasálfræði, næringarfræði, kennslufræði, framsögn, íþróttameiðsl, lyfjamál, uppbyggingu líkamans, öndun og blóðrás, vöðvafræði og almenna heilsufræði s.s. um svefn og hvíld. Allt eru þetta þættir sem íþróttaþjálfari þarf að þekkja, ekki síður en að vera vel að sér í íþróttagreininni sjálfri. Í fjarnámi almenna hlutans er nær eingöngu um bóklegt nám að ræða og engar staðbundnar lotur. Eðlilega eru meiri kröfur gerðar til verklegra þátta í ségreinahluta námsins.
Getur hver sem er skráð sig í námið og hvaða bakgrunns er krafist. Hvaða gráða fæst að námi loknu ?
Það eru allir velkomnir í námið sem lokið hafa grunnskólaprófi. Allir sem ljúka 1. stigi ÍSÍ alm. hluta fá afhent þjálfaraskírteini með staðfestingu námsins og inn á það skírteini á svo allt nám að fara, almennt sem sérhæft og einnig staðfestingar á skyndihjálparnámskeiðum og þjálfunarreynslu sem gerðar eru kröfur til á milli stiga. Það einfaldar málin mikið að vera með eitt skírteini fyrir alla menntunina. Það eru afar vel menntaðir og reynslumiklir kennarar sem kenna að námskeiðum ÍSÍ og sem dæmi má nefna að á 3. stigi almenns hluta eru 5 kennarar sem koma að kennslunni í eina viku hver þeirra í 5 vikna löngu námi. Allir eru þeir með menntun og sérþekkingu á því sem er til umfjöllunar hverju sinni.
Er hægt að hefja nám hvenær sem er og vera staðsettur hvar sem er í heiminum?
Fjarnám ÍSÍ er í boði þrisvar á ári, vorönn, sumarönn og haustönn á öllum stigunum þremur. Búseta er algjört aukatriði svo fremi sem viðkomandi er með tölvutengingu.
Hefur þú upplýsingar hversu margir hafa farið í gegnum námið hjá ykkur á þessum fjarnámsgrundvelli ?
Fjöldi þjálfara sem lokið hafa í.þ.m. 1. stigi ÍSÍ síðustu 5 ár eru um 500 talsins. Það veltur svo á því hversu langt sérsambönd ÍSÍ eru komin í ségreinahluta námsins hversu langt þjálfarar fara í almenna hluta þekkingarinnar. Það hefur í raun lítið upp á sig og í raun ekki rétt leið að fara upp á 3. stig ÍSÍ ef viðkomandi sérsamband hefur ekki gengið frá skipulagi námskeiða sinna upp á það stig. Hvert stig er ekki klárað fyrr en bæði almenna hlutanum og ségreinahlutanum hefur verið lokið.