Fullt nafn: Eygló Ósk Gústafsdótti
Aldur: 20 ára
Hver ert þú í hnotskurn ?
Sundkona
Hvað gerir þú fyrir utan að æfa sund x klst á dag x daga vikunnar, er tími fyrir nokkuð annað ?
Ég stunda nám í FB, slappa af með fjölskyldu og vinum, þjálfa sund og horfi á sjónvarpið. Annars er ég bara í fullri vinnu við sundæfingarnar.
Hvenær byrjaðir þú að æfa sund og hafa einhverjar aðrar íþróttir freistað þín um tíðina, ef já hverjar þá ?
Ég byrjaði að æfa sund þegar ég var fimm ára. Ég æfði einnig frjálsar í sirka tvö ár þegar ég var í kringum 12-14 ára.
Hver þjálfar þig í dag ?
Þjálfarinn minn heitir Jacky Pellerin, en ég hef einnig þrjá aukaþjálfara sem heita, Þuríður Einarsdóttir, Ragnar Friðbjarnarson og Jón Oddur Sigurðsson. Allir þessir þjálfarar eru að þjálfa mig ásamt elsta sundfólkið sem eru að æfa í Reykjavík.
Hvað er það besta sem þú gerir eftir æfingu ?
Það besta sem ég geri eftir æfingar er að kíkja í heitapottinn og fara svo heim í tilbúinn kvöldmat hjá foreldrum mínum.
Hvert er eftirminnilegasta mótið sem þú hefur keppt á ?
Klárlega Ólympíuleikarnir í London.
Hvaða mót er næst á dagskrá hjá þér ?
Næsta mót sem ég keppi á eru smáþjóðaleikarnir sem haldnir eru á Íslandi en strax eftir það mót fer ég til Barcelona og Monaco að keppa á Mare Nostrum sem er sundmótaröð en hún er haldin árlega.
Tekur þú þátt í Smáþjóðaleikunum á Íslandi í júní og ef já, númer hvað í röðinni eru þeir þá ?
Já ég keppi á smáþjóðaleikunum.
Hver er besta bók sem þú hefur lesið og ertu að lesa eitthvað núna ?
Marley and me er held ég besta bók sem ég hef lesið vegna þess að ég hef sjaldan hlegið og grátið jafn mikið yfir einni bók. Ég er ekki að lesa neina bók í augnablikinu.
Ertu með stór framtíðarplön sem þú lætur uppi ?
Ég ætla mér að komast í undanúrslit og úrslit á Ólympíuleikunum í Rio 2016.
Nefndu fjögur matvæli sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?
Kókómjólk, beikon, pasta og jógúrt.
Hver er þinn uppáhaldsmatur ?
Minn uppáhaldamatur er þessi týpíski grillmatur, pabbi er mjög duglegur að grilla um helgar allann ársins hring.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?
Eg kaupi mér jarðaber og vínber, blanda því saman í skál og þeyti rjóma. Þetta er eitt af mínu uppáhalds snarli.
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?
Ég segi við sjálfan mig, „ég veit ég get þetta“ og minni mig á það hversu lengi ég hef unnið að markmiðum mínum.