Valdimar Þór Svavarsson
Ég er 42ja ára, fjögurra barna faðir og giftur dásamlegri konu sem heitir Berglind Magnúsdóttir. Ég fæddist og ólst upp á Selfossi en hef að mestu leiti verið á höfuðborgarsvæðinu frá tvítugs aldri.
Upprunalega náði ég mér í sveinsbréf í rafvirkjun en hef bætt ýmsu við á síðustu árum. Þar ber helst að nefna nám í endurmenntun Háskóla Íslands sem heitir markaðs- og útflutningsfræði, BA gráða í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og svo er ég að ljúka MA námi í stjórnun og stefnumótun í sama skóla. Ég starfa sem framkvæmdarstjóri hjá fyrirtæki sem heitir Lausnin fjölskyldumiðstöð. Samhliða því sinni ég ráðgjöf og fyrirlestrum.
Ég hef ódrepandi áhuga á útivist og heilsurækt af ýmsu tagi og hef í gegnum tíðina lagt stund á motocross, fjallgöngur, hlaup, fótbolta, BootCamp og ýmislegt fleira. Íslenska náttúran heillar mig stöðugt og það sama á við um fallega hönnun ýmissa mannvirkja. Ég hef gaman að því að skrifa um áhugaverða þætti mannlegrar hegðunar. Upptalning áhugamála gæti verið mun lengri en það er ekki hægt að ljúka henni án þess að nefna ferðalög og góðan mat.
Ég var ekkert sérstaklega virkur í íþróttum fram eftir aldri og notað unglingsárin á frekar óheilbrigðan hátt. Eftir tvítugt fór ég hinsvegar að stunda hin ýmsu sport, sérstaklega fótbolta og motocross. Síðar fór ég að starfa í heilsuræktargeiranum, lærði einkaþjálfun og varð seinna BootCamp þjálfari í 1-2 ár. Þessu hef ég svo blandað saman í gegnum árin ásamt fjallgöngum og skokki. Í dag mæti ég í BootCamp þjálfun í Sporthúsinu auk þess sem ég skokka og geng á fjöll.
Ég hef lengi haft áhuga á mannlegri hegðun og talsvert langa reynslu af svokölluðu 12 spora starfi. Ég misnotaði áfengi sem unglingur og þurfti að taka ákvörðun þegar ég var tvítugur, hvort ég ætlaði að rústa lífi mínu með brennívínsdrykkju eða bjóða því birginn og verða bindindismaður. Ég ákvað að taka síðari kostinn og vinna í mínum málum. Það var upphafið af sjálfsvinnu og vinnu með öðrum sem hefur mótað líf mitt talsvert síðustu 22 árin. Í gegnum þá vinnu hefur áhugi minn vaknað á að hjálpa öðrum að breyta lífi sínu og efla og hvetja fólk ef ég fæ tækifæri til þess. Þegar fjármálakreppan bankaði upp á árið 2008 þá gafst mér langþráður möguleiki til að stoppa í því sem ég hafði verið að gera og nota tíma til þess að auka við mig menntun og reynslu á félagslega sviðinu. Ég fór þá í félagsráðgjafanám og flutti í lok námsins til Oslóar þar sem fjölskyldan bjó í 2 ár. Við heimkomuna árið 2014 var mér boðið að koma til Lausnarinnar þar sem ég byrjaði að starfa við ráðgjöf, námskeiðshald og fyrirlestra, samhliða mastersnámi í stjórnun og stefnumótun. Um áramótin 2014/2015 var mér svo boðið að takast á við það verkefni að móta framtíðarstefnu Lausnarinnar og gerast framkvæmdarstjóri fyrirtækisins. Það starf hefur vaxið jafnt og þétt samhliða vexti Lausnarinnar. Starf mitt sem ráðgjafi hefur að sama skapi minnkað, þó ég gefi mér alltaf ákveðinn tíma til að sinna því og sæki stöðugt aukna þekkingu á því sviði.
Meðvirkni er gríðarlega stórt vandamál á Íslandi og hægt að færa rök fyrir því að aðstæður hér séu sérstaklega „hagstæðar“ fyrir þróun meðvirkni. Það er enginn ákveðinn hópur sem talist getur í meirihluta, það geta allir orðið meðvirkir.
Meðvirkni mótast fyrst og fremst á meðan við erum börn. Við erum afar móttækileg fyrir ytri aðstæðum þegar við erum börn og öll viðvarandi vanvirkni í uppeldinu leiðir til meðvirkni. Vanvirkar uppeldisaðferðir eru í raun allar aðferðir sem ekki geta talist nærandi og jákvæðar fyrir börn. Því vanvirkari sem aðstæðurnar eru, því hraðar mótast meðvirknin og getur komið fram hjá mjög ungum börnum.
Orsakir meðvirkni eru eins og áður sagði, það sem kallast vanvirkar uppeldisaðstæður. Þegar ákveðnum grunneiginleikum okkar er ekki sinnt á virkan hátt, þá verður til skekkja sem leiðir til meðvirkni. Þegar talað er um grunneiginleika barna þá eru það fimm þættir sem öll börn eiga sameiginlega og mikilvægt er að hlúa að þeim á nærandi máta.
Eitt þessara fimm atriða er að börn eru verðmæt. Mjög margir alast upp á þann hátt að þeim finnst sem þeir séu lítils virði eða jafnvel verðlausir. Reglulegar skammir og aðfinnslur leiða til þess að börn fá það á tilfinninguna að þau séu ekki í lagi, séu lítils virði af því þau séu ekki nógu góð. Þetta á alltaf við ef ofbeldi er beitt, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Líkamlegar refsingar eru alvarleg áföll fyrir börn enda aðstöðumunurinn verulegur. Vitsmunalegt ofbeldi er annarskonar ofbeldi og eitthvað sem mörg börn upplifa, þ.e.a.s að þau upplifa sig vitlaus og um leið verðlaus af því verið er að setja út á að þau viti ekki eitthvað eða geti ekki eitthvað. Þegar uppalendur eru reglulega að skipta sér af börnunum á neikvæðan hátt, verða til óheilbrigð tengsl, eitthvað sem við köllum „klessutengsl“ (e. enmeshment). Við þessar aðstæður hættir barnið að tengjast sjálfu sér á eðlilegan hátt, það hættir í raun að vera það sjálft og er orðið meðvirkt. Á hinn boginn getur líka verið um það að ræða að uppalendur skipta sér ekki af börnunum, hafa ekki tíma eða getu til að sinna þeim og svara þeim ekki á virkan hátt. Börn sem alast upp við slíkt afskiptarleysi eða vanrækslu, upplifa sig líka verðlaus af augljósum ástæðum.
Margir alast upp við að uppalendur eru reglulega að beita einhverju af ofangreindum aðferðum eða framkomu sem leiðir til þess að þeir fá það á tilfinninguna að þeir séu verri en aðrir, minna virði, verðlausir. Það eru líka til dæmi um að börn eru alin upp við að þau séu betri en aðrir, að uppalendur kenni þeim að gera lítið úr og dæma aðra með yfirlæti og hroka sem er ekki síður skaðlegt þegar fram í sækir.
Eins og sjá má er verið að tala um uppeldi sem einkennist af öfgum, óheilbrigðum tengslum sem eru ýmist of mikil eða of lítil. Afleiðingin er að meðvirkni þróast út frá því að okkur finnst við ekki jafnverðmæt og aðrir eða verðmætari en aðrir. Það veldur því að við erum ýmist óttaslegin við aðra, finnst þeir betri en við eða að við séum yfir aðra hafin. Það leiðir svo til ójafnvægi í öllum samskiptum þegar fram í sækir, hvort sem það er við systkini, foreldra, skólafélaga, vini, vinnuveitendur eða maka. Það er augljóslega erfitt að eiga í nánum samskiptum og samböndum þegar okkur líður eins og við séum lítils virði, eða að okkur finnist við geta komið illa fram við aðra á þeim forsendum að við séum betri en aðrir. Manneskju sem finnst hún minna virði en aðrir á erfitt með að segja hvað henni finnst, breytir reglulega um skoðun út frá skoðunum annarra, finnst skoðanir annarra meira virði en sínar eigin, finnst hún ekki hafa rétt til að sinna sjálfri sér eða sínum áhugamálum, upplifir að aðrir sjái ekki hvað hún er að leggja sig fram, vaði yfir hana og komi illa fram við sig og þannig mætti lengi telja. Manneskja sem telur sig yfir aðra hafin særir annað fólk með hroka og yfirlæti sínu og á oftast erfitt með að sýna samkennd, ástand sem leiðir í versta falli til siðblindu.
Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi birtingamynd meðvirkninnar út frá einum af fimm grunneiginleikum okkar sem barna. Aðrir grunneiginleikar okkar sem börn eru að við erum viðkvæm sem hefur með mörk okkar að gera, að við erum ófullkomin sem þýðir að við megum gera mistök, að við erum háð öðrum í uppvextinum og því þarf að sinna á réttan hátt og að síðustu þá erum við hvatvís og opin sem börn og þurfum að fá jákvæða leiðsögn á því sviði. Allir þessir eiginleikar eru mikilvægir og langvarandi vanvirkni í uppvextinum gagnvart hverjum og einum þeirra, leiðir til meðvirkni. Rétt er að taka fram að ekkert í úrvinnslu meðvirkninnar snýst um að finna sökudólga. Almenna reglan er að gera ráð fyrir því að uppalendur okkar, rétt eins og við sjálf hafi verið að gera sitt besta og notað aðferðir sem þeir sjálfir lærðu. Við erum fyrst og fremst að skoða af hverju við erum eins og við erum og hvað hægt er að gera til þess að bæta samskipti og breyta neikvæðri hegðun og líðan í jákvæða.
Það getur verið ógnvekjandi að takast á við breytingar, hverjar sem þær eru. Meðvirkni er hegðun, viðbrögð og viðhorf sem hefur þróast frá barnæsku og þar af leiðandi orðin samofin lífi okkar þegar við fullorðnumst.
Það getur vissulega verið erfitt að takast á við meðvirknina en reynsla okkar hjá Lausninni er að langflestir ná góðum árangri og vilja frekar leggja á sig vinnuna sem fylgir því að kynnast sjálfum sér og aflæra lærða hegðun, heldur en að leggja á sig hinar miklu byrgðar sem fylgja því að vera veikur af meðvirkni.
Það hættir enginn meðvirkni en við lærum að sjá hvernig meðvirkni birtist í lífi okkar og annarra og getum þar af leiðandi minnkað áhrif hennar verulega. Það er ekki hægt að segja að það séu slæmar afleiðingar af því að vinna með meðvirknina og í raun er engin fjárfesting betri en sú sem leiðir til þess að við upplifum meiri frið, vellíðan og sátt í lífinu. Það hefur áhrif á okkur sjálf og öll samskipti og sambönd sem við eigum í að vinna með meðvirknina.
Ég tel að við séum nánast á byrjunarreit hvað það varðar. Það er stöðugt að verða meiri þekking og skilningur á meðvirkni og ljóst að hún er mjög alvarlegt vandamál. Það er engin inniliggjandi meðferð til á Íslandi vegna meðvirkni en vísir að slíku er Meðvirkninámskeiðið í Skálholti sem haldið verður í 17 skiptið núna í febrúar. Þar er um að ræða 5 daga námskeið sem óhætt er að kalla lífsbreytandi námskeið og nánast alltaf biðlisti á það.
Hjá Lausninni starfa nokkrir ráðgjafar sem hafa mikla þekkingu á meðvirkni og hafa sumir hlotið sérfræðimenntun í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody. Pia Mellody hefur rannsakað meðvirkni í 30 ár og gefið út mikið af efni því tengdu, þar á meðal bókina Meðvirkni, orsakir, einkenni, úrlausnir sem gefin var út á Íslensku síðastliðið sumar. Lausnin hefur frá 2009 verið í fararbroddi þegar kemur að úrvinnslu meðvirkni og markmið okkar er að bjóða upp á sérfræðimeðferð áður en langt um líður. Hjá okkur í Lausninni er boðið upp á viðtöl, styttri og lengri námskeið um meðvirkni auk þess sem hjá okkur eru margir hópar sem hittast vikulega með ráðgjafa og vinna úr meðvirkninni.
SÁÁ býður aðstandendum fíkla m.a. upp á fræðslufundi og Coda samtökin eru 12 spora samtök sem fjalla um meðvirkni
Eins og fram hefur komið þá er meðvirkni ástand sem þróast við vanvirkt uppeldi. Vanvirkt uppeldi er allt það sem ekki getur talist jákvætt nærandi uppeldi barna. Á Íslandi er talsverð áhersla lögð á vinnusemi sem hefur áhrif á viðveru foreldra og átti það ekki síst við um feður hér á árum áður. Það hefur jákvæð áhrif að börn alist upp í jákvæðum tengslum við báða foreldra á meðan það getur talist til vanvirkra aðstæðna ef svo er ekki. Þetta er eitt þeirra atriða sem hafa áhrif. Það hefur fylgt feðraveldinu, sem vel er þekkt á Íslandi og ekki síst þegar síðustu kynslóðir voru að alast upp, að karlmönnum hefur verið uppálagt að vera með harðan skráp, vera ekki að flíka tilfinningum og veita þar af leiðandi ekki þá nánd og tilfinningatengsl sem við vitum í dag að er mikilvægt fyrir börn sem eru að alast upp. Að sama skapi þótti sjálfsagt að konur væru heima við og áttu erfiðara með að láta drauma sína rætast, ef þeir voru aðrir en að sinna heimilinu. Allt eru þetta atriði sem hafa áhrif á þætti sem skipta máli í virku uppeldi og leiða til meðvirkni.
Áfengisneysla á Íslandi hefur einkennst af „túra drykkju“ (e. binge drinking) þar sem markmiðið er að finna fyrir áhrifum áfengissins með því að drekka mikið magn á skömmum tíma. Þessi tegund drykkju leiðir til ástands sem er afar skaðlegt í samskiptum á milli fullorðinna sem og við börn. Áfengissýki er algengt vandamál og miklar líkur á að henni fylgi vanvirkni í uppeldi barna. Það sama á við um aðra geðsjúkdóma, alvarleg og langvarandi veikindi innan fjölskyldu, fötlunar einstaklings og fleira getur leitt til þess að uppalendur eiga erfiðara með að sinna fyrr greindum kjarnaeiginleikum barna eins og best væri á kosið.
Allt hefur þetta áhrif á þróun meðvirkni og um leið eru samskipti lituð af einkennum meðvirkninnar. Ótti, undirgefni, óheiðarleiki, ójafnvægi, stjórnsemi og yfirlæti eru hluti af einkennum meðvirkninnar sem hafa neikvæð áhrif á samskipti fólks.
Ég á alltaf til egg, spínat og töfradrykk sem ég bý til úr engifer, túrmerik, pipar og karrý.
Ég gæti ekki valið á milli en góð nautasteik er gulli betri og sú besta sem ég hef fengið lengi var á Snaps. Annars þykir mér fátt betra en að fara út að borða með konunni minni og fyrir mér er andrúmsloftið á staðnum jafn mikilvægt og maturinn sjálfur. Líklega höfum við oftast náð góðu spjalli á Ítalíu.
Ég er að glugga í þrjár bækur núna, sem er tilfallandi því almennt er ég ekki nógu duglegur að lesa annað en námsbækurnar. Þær sem liggja á náttborðinu eru Growing yourself back up eftir John Lee sem er frábær bók í tengslum við meðvirknina, bókin Týnd í paradís eftir Mikael Torfason kom í einum jólapakkanum og það sama á við um Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle sem er gott að lesa að minnsta kosti árlega. Besta bók sem ég hef lesið er örugglega AA bókin.
Það er áhugavert að skoða persónuleikapróf til þess að kynnast sjálfum sér betur. Ég kem almennt út sem meira „extrovert“ heldur en „introvert“ og ætti þar af leiðandi að sækja orku út á við í góðum félagsskap. Þegar ég vil „tríta“ mig koma hinsvegar innhverfar hugmyndir eins að fara í fjallgöngu einn með sjálfum mér, koma við í spa og nuddi á leiðinni til baka og enda á rómantískum kvöldverði með konunni minni.
„Allt verður í lagi“, „Við klárum þetta“ og ef öll von bregst þá er ágætt að grípa til „Þetta reddast“...
Ég sé mig heilsuhraustann og hamingjusaman mann sem leggur áherslu á andlegt og líkamlegt heilbrigði. Ég verð búinn að festa mig enn betur í sessi sem stjórnandi og ráðgjafi og er með fjölskyldulíf, vinnu og áhugamál í jafnvægi.