Bjarni Kjartansson Thors
Ég ólst upp í Reykjavík, nánar tiltekið í Fossvoginum. Var mjög skapandi og uppátækjasamur sem krakki. Ég hef alla tíð haft mikla sköpunarþörf og er ákaflega þrjóskur, ég gefst ekki upp ef ég ætla mér eitthvað. Sem barn krotaði ég bókstaflega á allt, mörgum til mismikillar ánægju. Ég geri það reyndar ennþá, en sem betur fer er ég farinn að nýta mér meira skissubækur og þ.h. til þess. Til að gera langa sögu stutta þá hef ég alltaf haft brennandi þörf fyrir að teikna eða skapa eitthvað.
Ég held það skipti engu máli í sjálfu sér hvert listformið er, ef þú hefur áhuga á skapandi greinum, þá er það oftast bara einhver þörf til að skapa eða tjá þig á einhvern máta og þú finnur eitthvað form sem hentar þér. Ég hef gríðarlega gaman af flestum skapandi greinum, ég teikna mála, skrifa, spila, hlusta á tónlist, dansa og allskonar. Þetta er bara þar sem hjartað mitt slær og hefur alltaf gert.
Ég er menntaður grafískur hönnuður og hef unnið við það síðan árið 2006. Ég var samt alltaf með þá hugmynd í kollinum að framleiða mína eigin vöru en var frekar óviss hvers konar vara það yrði. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fatahönnun og tísku en það var í mínum huga frekar ógerlegt að fara þá leiðina þar sem þessi geiri krefst meðal annars þekkingar og sambanda við framleiðendur.
Í lok árs 2014 missi ég vinnuna á lítilli auglýsingastofu sem ég vann hjá, en það var mín mesta gæfa þar sem ég fór þá á fullt að vinna í mínum draumi, að framleiða eigin vöru. Mér til happs er mér margt til lista lagt og ég er mjög duglegur og góður að vinna með höndunum þannig ég réð mig í vinnu við smíðar og múrverk. Þar vann eins og skepna í hátt í ár á meðan ég var að safna fyrir fyrstu sendingunni, skissa hugmyndir, tengja mig við og finna rétta framleiðendur, ásamt því að læra allt sem ég fann um fatahönnun.
Ég þarf að sjálfsögðu að læra allt um efnin sem ég er að velja, taka mál og þ.h. en eins og fyrr sagði þá er ég ótrúlega þrjóskur þegar ég ætla mér eitthvað.
Það kom mér töluvert á óvart að það var ekki um auðugan garð að gresja að finna einhvern sem gat kennt mér að taka mál og þ.h. þrátt fyrir að ég þekki þó nokkra sem hafa klárað fatahönnun í Listaháskólanum, ég lærði þetta því bara upp á eigin spýtur.
Ég hef mörg áhugamál, mörg þeirra fjalla um að skapa eða búa eitthvað til eins og kemur fram hér á undan en önnur hafa meira með hreyfingu að gera eða eitthvað sem kallar fram adrenalín. Eins með skíðaiðkun, ég hef gaman af því að fara á bretti eða skíði og finnst einmitt mesta fjörið að renna mér hratt niður brekkuna.
Auðvitað er það þetta klassíska, sem á líklega hug og hjörtu allra Íslendinga, að ferðast og komast öðru hvoru frá þessari yndislegu eyju er eitt af mínum áhugamálum líka.
Mér finnst gaman að kynnast nýjum siðum og venjum, mér finnst fólk mjög áhugavert og hef virkilega gaman að því að læra hvernig fólk annars staðar í veröldinni hugsar og hvernig það er frábrugðið því sem ég á að venjast.
Á þessum nótum, langar mig að nefna gríðarlega áhugaverða bók, Small data, eftir Martin Lindstrom sem fjallar um það sem kallað er „Small data“. Bókin fjallar í raun um markaðsmál en einnig er hægt að læra þar um siði og venjur fólks um allan heim og afhverju fólk gerir suma hluti.
Það er nú samt þannig í mínu tilviki að það hefur ekki verið mikill tími til að sinna neinum áhugamálum þessa dagana og hefur ekki verið sl. 3 ár. Ég hef reynt af fremsta megni að taka frá tíma til að sprikla aðeins í ræktinni því það er nauðsynlegt fyrir mig til að ná að kúpla mig aðeins frá öllu áreiti og fá útrás. Eins er það reyndar líka alveg frábær tími til að nota í hugmyndavinnu, oft sem ég nýti tímann á hlaupabrettinu til þess að skapa í huganum. Það er líka mjög algengt að ég sé með einhverja skissu í hausnum og geti mótað hana og þróað á brettinu.
Ég á stórbrotinn feril í íþróttum það er ekki hægt að segja annað, varð í öðru sæti á Íslandsmeistaramóti í Tae Kwon Do í senior flokki, reyndar vorum við bara tveir í þessum flokki hahaha.
Að öllu gamni slepptu þá er ég búinn að æfa allskonar íþróttir, held að ég hafi byrjað í fimleikum hjá Ármanni. Mér fannst það sjúklega gaman en langaði í einhverja bardagaíþrótt þannig að ég fékk að æfa júdó, einnig hjá Ármanni og náði ágætis árangri en vildi frekar vera í Karate þannig að ég hóf að æfa með Þórshamri og hafði gríðarlega gaman af. Þess fyrir utan þá hef ég stundað töluvert af allskonar íþróttum, svo sem badminton, borðtennis, siglingar og svo auðvitað Tae Kwon Do. Ég heillaðist einhvern veginn ekki mikið af boltaíþróttum, var og er meira fyrir einstaklings íþróttir.
Brandson er í stuttu máli bara íslenskt vörumerki. Merkið sjálft er samsetning af rúnum sem mynda nafnið á vörumerkinu. Ég vildi hanna föt og um leið koma á framfæri tengingu við Ísland og íslenska menningu og eða sögu. Ég vinn mikið með menningararfleið okkar úr Íslendingasögunum og tengdu efni eins og goðafræðinni. Í dag er ég bara með dömulínur sem heita eftir Valkyrjum en væntanleg herralína mun þá heita eftir víkingum eða einhverjum persónum úr Íslendingasögunum. Dæmi um það er “Ívar nefndur beinlausi”. Þetta er lína sem samanstendur af compression buxum, hnésíðum buxum ásamt hlýrabol og stuttbuxum. Núna þegar ég er kominn af stað með herralínuna er auðvitað rosa margt sem mig langar að bæta við og það eru fleiri vörur á leiðinni. Get líka sagt að ég er mjög sáttur við að vera loksins kominn með föt á sjálfan mig!
Ég er búinn að vera í rúmt ár að þróa compression buxurnar það er svipaður tími og fór í að hanna fyrstu buxurnar fyrir dömurnar. Þetta er bara svona langt ferli, ég fer ekki þá leið að fá hönnun frá verksmiðju og setja merkið mitt á vörurnar og segja að ég hafi hannað þetta. Ég hanna mitt frá grunni, vel efnið sjálfur, sendi málin, sniðin og alla litlu hlutina sem kannski fáir taka eftir en þurfa að vera til staðar.
Ég fór til Kína og hitti framleiðendur og er með gríðarlega góð sambönd þar fyrir allskonar framleiðslu. Sambönd mín við mína framleiðendur eru á persónulegum nótum og við vinnum mjög náið saman. Ef eitthvað kemur upp á (sem mun alltaf gerast) þá er samstarfið það gott að við leysum úr því saman. Það hefur alveg reynt á þetta nokkrum sinnum. Ef samstarfið væri ekki svona gott væri ég líklega búinn að opna matarbíl einhverstaðar og farinn að selja samlokur.
Það mikilvægasta sem ég hef lært í þessu ferli er að einbeita mér bara að því sem ég er að gera og treysta á sjálfan mig. Það getur enginn einbeitt sér fullkomlega að mörgum hlutum í einu og náð árangri með þá alla. Ég hef gríðarlega gott fólk í kringum mig sem ég get leitað til og fengið ráð og eða sérfræðiaðstoð hvenær sem er. Bara sem dæmi; að vera karlmaður sem hannar föt á konur getur verið brögðótt, ég þarf mikið að fá mátun og oft liggur gríðarlega mikið á því þannig að ég hef verið að bögga vinkonur, oft á mjög ókristilegum tímum, til að máta fyrir mig.
Af því að framleiðsluferlið er langt, eða að minnsta kosti þrír mánuðir, þá skiptir hver dagur gríðarlegu máli, ég á kannski laust pláss í framleiðslu á ákveðnum tíma og þá verður að hafa hraðar hendur þegar ég er að senda ábendingar og breytingar á framleiðslusýnishornum. Annars getur framleiðslan mögulega dregist töluvert og það er aðstaða sem ég get ekki verið í þegar mikið liggur við, til að reyna að koma mínum vörum á markað.
Berja má vörurnar augum HÉR og einnig er mjög sterkur leikur að fylgja okkur á Instagram, Brandson sem er hægt að finna á slóðinni https://www.instagram.com/brandson.design/ eða @brandson.design
Eins og fyrr sagði þá er herralínan á leiðinni og svo hannaði ég nærföt fyrir konur sem eru ekki með földun, sem þýðir að það kemur síður nærbuxnafar utan á buxur, pils, kjól eða hvað er sem konur klæðast sem liggur upp við líkamann.
Það er búið að taka langan tíma að þróa þessa vöru, finna rétta efnið og sniðið hefur verið smá barningur. Þrátt fyrir að vera með góð sambönd þá er þessi bransi, þ.e.a.s. nærfatabransinn ekki sá auðveldasti, þeirra lágmark er mjög hátt og þeir nenna ekki að ræsa framleiðslu fyrir svona litla aðila. Þannig að ég verð að fara smá krókaleiðir í þessu og er búinn að hanna að því sem mér skilst eðal nærbuxur. „Perfect“ hef ég heyrt en get því miður ekki sannreynt það sjálfur, því verður þetta bara að koma í ljós á næstu vikum.
Skyr, AB-mjólk og lýsi. Þetta er kjarninn í mínum morgunmat sem ég get ekki verið án. Að vísu bæti ég tröllahöfrum, chia fræjum og hnetusmjöri í skálina en það eru vissulega ekki kælivörur þannig það er geymt utan ísskápsins
Ég myndi segja að Rib-ey og béarnaise sé alveg mitt uppáhald og sú besta sem ég veit um er á Apótekinu - bara á öðru leveli. Annars ef ég ætla fá mér skyndibita þá er það á NAM, ég er alveg „sökker“ fyrir hrísgrjóna skálinni hjá þeim með Bang bang sósu. Eins er þetta bara sneggsti og hollasti skyndibiti sem ég veit um og ég fæ ekki nóg, liggur við að ég sleiki skálina þegar ég er búinn að tæma hana. Ef ég hins vegar er í stuði fyrir fisk þá er þorskhnakkinn á „Mat og Drykk“ líka eitthvað alveg í nýjum hæðum, mæli alveg eindregið með honum. Svo er það auðvitað thailensk matargerð, ég elska thailenskan mat og grænt karrí er í miklu uppáhaldi.
Það er tvennt sem ég get látið mér detta í hug ef / þegar tími gefst til. Annað er að slökkva á símanum, fá mér NAM og annaðhvort að lesa góða bók eða horfa á þátt. Hitt væri að fara með vinum út að borða og reyna kúpla mig frá vinnu í smá tíma.
Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að kúpla sig fá vinnu og tríta sig af og til. Hins vegar hefur það verið þannig sl. þrjú ár að ég er búinn að vinna sleitulaust á hverjum degi frá morgni til kvölds, þó með allavega tveimur „pásum“ sem voru kannski ekki pásur því ég var í vinnuferð í Kína í bæði skiptin. Var á vörusýningum á daginn og fram á kvöld, en að svara viðskiptavinum kl. 6 á morgnana og svo aftur seint á kvöldin.
„Þetta er ekkert má, hef dílað við erfiðari verkefni en þetta!“
„Hvernig borðar maður fíl, bara einn biti í einu“
Það hefur reynst mér best að hugsa ekki of mikið um verkefnið í heild sinni heldur brjóta það niður í smærri verkefni og byrja bara þar sem ég er sterkastur og vinna mig svo áfram.
Eftir fimm ár verð ég enn að hanna æfingaföt, mun búa á Íslandi að mestum hluta en hafa annan fótinn erlendis sérstaklega í skammdeginu. Ætla mér að vera kominn með meira af fólki til að vinna með mér til að létta aðeins á. Segir sig alveg sjálft að það er ekki hægt að þræla sér út nema takmarkað og auðvitað mismikið hvað hver og einn getur haldið út, en ég hef gott úthald, er mjög þrjóskur þegar ég ætla mér eitthvað. En já ég mun vera búinn að kynna mitt vörumerki á nýjum mörkuðum og verð búinn að kortleggja og stilla þessu upp þannig að leiðin verði greiðari þegar ég kem til með að láta til skarar skríða. Ég hef í huga að byrja á litlu gæluverkefni og verð vonandi búinn að skapa mér tíma til að geta byrjað á einhverju nýju, hef alveg gríðarlega gaman af því að planta fræi og vökva það, sjá hvert það leiðir.