Nú ætlum við að kynnast henni Emelíu Dögg, heilsunuddara á Kírópraktorstöðiinni en hún ásamt Bergi Konráðssyni kírópraktor frá sömu stöð, ætlar að birta hér reglulega greinar á síðunni okkar. Við erum afskaplega lukkuleg að fá þau í liðið okkar og hlökkum mikið til samstarfsins. Fylgist vel með.
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:
Emelía Dögg Sigmarsdóttir, fædd á Húsavík þann 17. janúar 1990 en ólst svo upp á Akureyri þar sem ég kláraði náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum þar. Eftir smá ferðalag um heiminn bý ég núna í Garðabænum, búin að læra heilsunuddarann frá Nuddskóla Íslands og er í fjarnámi í sálfræðinámi frá Háskólanum á Akureyri.
Við hvað starfar þú í dag?
Ég starfa sem heilsunuddari á Kírópraktorstöðinni og með því er ég að klára sálfræðinám frá Háskólanum á Akureyri núna um jólin.
Hver er þín helsta hreyfing?
Handbolti og útivera. Ég er að æfa handbolta með meistaraflokki kvenna í Víking og svo finnst mér fínt að fara í göngutúra í góðu veðri með góðu fólki.
Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Ég var heppin að fá að búa erlendis í 3 ár eftir stúdentspróf þar sem ég bjó í Þýskalandi, Danmörku og Qatar og þá var auðvelt að ferðast um meginlandið. Ég hef komið til margra fallegra borga en frá því ég var 9 ára og fór í fyrsta skipti til Barcelona þá hef ég haldið mjög mikið upp á þá borg og farið á hverju ári síðustu 5 eða 6 ár.
Hver er þinn uppáhalds matur?
Jólamaturinn heima hjá foreldrum mínum er alltaf uppáhalds.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Hvítlaukur og chilli er eitthvað sem er alltaf til og ég gæti sett í allan mat sem ég elda.
Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Ég er reglulegur gestur á Flatey og í sumar uppgötvaði ég Rok, það er flottur staður.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Ég er á síðustu önninni minni í sálfræðinámi þannig að það hefur ekki verið mikill tími fyrir yndislestur með því, en “Hugsanir hafa vængi” er alltaf á náttborðinu og ég mæli með fyrir alla að lesa hana. En annars hafa spennusögurnar hennar Yrsu oft orðið fyrir valinu þegar tími fyrir lestur hefur verið.
Á hvað ertu að hlusta þessa dagana?
Það fer allt eftir stemmingunni hvaða playlista ég vel mér á Spotify en ég get alltaf sett á minn uppáhalds Drake.
Hver eru áhugamálin þín?
Þetta klassíska klisjukennda eru áhugamálin mín. Fjölskyldan mín og vinir, hreyfing, tónlist, ferðalög, útivera og að elda góðan mat.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Þá myndi ég panta mér tíma í nudd eða einhvers konar dekur og fara í góðan dinner og rauðvín. Eða skella mér bara í “kósý-gallann”, poppa, kveikja á kerti og horfa á eitthvað gott í sjónvarpinu. Eða fara í sumarbústað!! Ég væri til í að búa í sumarbústað, það er best!
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Gerðu bara þitt besta, þú getur ekki gert neitt meira en það!
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?
Eftir 5 ár ætla ég að vera hamingjusöm og í góðri heilsu og vera að gera nákvæmlega það sem ég vil vera að gera á þeirri stundu!