Fara í efni

30 hlutir sem ég hef lært á 30 árum

Ég er orðin 30 ára! Þetta eru stór tímamót í lífinu, maður er orðin frekar fullorðins núna, eða hvað? Ég er ennþá að bíða eftir þessu mómenti þegar mér finnst ég vera orðin fullorðin, það virðist ekki vera komið ennþá. Ég hélt kannski að það mundi gerast þegar ég eignaðist börnin mín og varð móðir. Það gerðist ekki þá. Ég er farin að hugsa að það muni kannski bara aldrei gerast og að maður verði bara eins ungur og maður leyfir sjálfum sér að vera. Gæti verið að á meðan maður heldur í barnið innra með sér og taki lífinu ekki of alvarlega að þá verði maður ungur að eilífu? er aldur ekki bara tala? Í tilefni að deginum langaði mig að skrifa til þín 30 hluti sem ég hef lært á 30 árum hér á þessari jörðu
30 hlutir sem ég hef lært á 30 árum

Ég er orðin 30 ára! Þetta eru stór tímamót í lífinu, maður er orðin frekar fullorðins núna, eða hvað?

Ég er ennþá að bíða eftir þessu mómenti þegar mér finnst ég vera orðin fullorðin, það virðist ekki vera komið ennþá. Ég hélt kannski að það mundi gerast þegar ég eignaðist börnin mín og varð móðir. Það gerðist ekki þá. 

Ég er farin að hugsa að það muni kannski bara aldrei gerast og að maður verði bara eins ungur og maður leyfir sjálfum sér að vera. Gæti verið að á meðan maður heldur í barnið innra með sér og taki lífinu ekki of alvarlega að þá verði maður ungur að eilífu? er aldur ekki bara tala? 

Í tilefni að deginum langaði mig að skrifa til þín 30 hluti sem ég hef lært á 30 árum hér á þessari jörðu

Það sem allir fá með tímanum er meiri reynsla, hvað við gerum síðan við hana er upp á okkur komið. Við getum ákveðið að halda áfram að læra, bætt okkur sem manneskjur, horft á hindranir með jákvæðum augum eða við getum gefist upp, haldið fast í afsakanirnar okkar, neikvæð viðhorf og blótað umheiminum. Það er í okkar höndum og hvet ég þig til þess að vera ávallt með opin huga og tilbúin að læra nýja hluti.

Hér eru 30 hlutir sem ég hef lært síðustu 30 ár:

1. Ef þú reynir ekki einu sinni, þá muntu aldrei ná árangri

Að horfa til baka með eftirsjá er líklega ein versta tilfinning sem hægt er að upplifa, því það sem við fáum EKKI til baka er tíminn okkar. Ég tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að ég ætlaði ekki að vera manneskjan sem mundi hlusta á óttan sinn og EKKI fara eftir draumum og markmiðum vegna þess að mér gæti mistekist, eða fengið gagnrýni yfir mig. Já stundum getur verið stressandi að prófa eitthvað nýtt eða fara algjörlega út fyrir þægindahringinn, og stundum heppnast ekki endilega allt, en maður veit ekki fyrr en maður reynir og það er svo sannarlega þess virði ef það tekst. 

2. Að fókusa á vellíðan og orku er miklu meira hvetjandi en að fókusa á kg tölu

Ég tók MÖRG ÁR þar sem ég var alltaf í basli með þyngdina mína, ég var alltaf að byrja og hætta í “átaki” og prófa nýja megrunarkúra, en ég náði aldrei langtímaárangri fyrr en ég HÆTTI að horfa á kg og útlitið og byrjaði að fókusa á það sem veitti mér orku og vellíðan. Þannig varð ALLT svo miklu auðveldara, því hver einasta ákvörðun hafði afleiðingar um leið og hún var tekin, þ.e.a.s ég fann ávinninginn strax, “mun mér líða vel eða illa eftir þessa máltíð?” “Verð ég orkumikil ef ég vel hamborgarann eða salatið?” í staðinn fyrir “Er þetta fitandi eða grennandi?” “mun ég ná að missa 5 kg ef ég borða þetta?” Því um leið og þú ferð að taka ákvarðanir útfrá öðru en útlitinu, eitthvað sem þú finnur strax, eitthvað sem hefur áhrif á lífið þitt um leið, eins og orka og líðan, þá verður svo miklu auðveldara að velja betur, því viljum við ekki öll líða vel ?

3. Heilsan þín er það verðmætasta sem þú átt

Að læra þetta var eitt af því erfiðasta og besta sem hefur komið fyrir mig. Ég sé hvað heilsan er dýrmæt og hvað það gerir fyrir lífið að missa hana. Ég hef upplifað það á sársaukafullan hátt þegar móðir mín veiktist, en á sama skapi kann ég virkilega að meta heilsuna mína og get þannig verið betri þjálfari og betri fyrirmynd. Ekki taka heilsuna sem sjálfsögðum hlut, hún er það ekki og hún getur verið farin á morgun ef við pössum okkur ekki að hugsa vel um hana. 

4. Munum að lifa í núinu 

Lífið er í DAG! Ekki á morgun, ekki í gær. Það er svo auðvelt að vera alltaf að plana næstu viku, næsta sumarfrí, næstu helgi, eða velta fyrir sér hvað gerðist í gær eða í síðasta saumaklúbbi. En það eina sem maður hefur er augnablikið núna og ef maður passar ekki að njóta þess þá mun lífið fljúga framhjá manni og maður tók ekki einu sinni eftir því.

5. Þú verður ekki hamingjusamari við að eignast fleiri hluti 

Það að eignast meiri peninga eða hluti getur verið þægilegt, skemmtilegt og gert lífið auðveldara en það gefur þér ekki sanna hamingju. Þú finnur kannski gleði í nokkra daga eftir að þú kaupir þér nýjan bíl, nýja tölvu eða nýjan Iphone, en svo verður það bara partur af draslinu sem þú átt og verður “venjulegt”. Hamingjan kemur innan frá og þú þarft að framkalla hana sjálf og vita hvað það er sem veitir þér virkilega hamingju og gleði. Það þarf ekki að vera það sama og manneskjan við hliðina á þér, og það er uppá þér komið að finna út hvað það er og byrja að skapa það inn í lífið þitt. 

6. Sambönd skipta ÖLLU máli 

Ég lærði þessa lexíu fyrir alvöru nokkuð nýlega, en fyrir tæpum 3 árum flutti ég til DK þar sem ég þekkti engan. Þá fann maður hvað vinir eru mikilvægir og sú tilfinning að finnast maður vera partur af einhverju skiptir gríðarlega miklu máli. Mér fannst ég í rauninni aldrei eiga heima hérna eða tilheyra samfélaginu fyrr en ég fann vini sem ég elska, sem búa hérna og tengja mig þannig við Sonderborg. Því það er í raun ekki bærinn, kaffihúsið, ströndin, skógurinn, allt þetta sem ég elska við staðinn sem ég bý á, heldur er það fólkið sem gerir þetta að heimili og tengir mig við staðinn. 

7. Árangur er ekki línulaga og mistök eru partur af ferðalaginu. 

Þú byrjar ekki á markmiðunum þínum og tekst allt í fyrsta skipti, þetta er ferðalag, við misstígum okkur, við dettum í “verri” tímabil, við tökum tvö skref framá við á eitt aftur, en á meðan við höldum áfram að taka skrefin í rétta átt þá erum við á réttri leið. Alltof margir byrja og halda að þetta verði tekið 100% alla leiðina að endalínunni, síðan er gefist upp við fyrsta bakslag. Það er partur af þessu “all or nothing” hugsunarhætti sem gengur EKKI og verður því miður ástæðan fyrir því að svo margir hætta og gefast upp. Ég reyni að horfa á mistök sem lærdóm, þau eru fullkomlega eðlilegur partur af ferðalaginu. Ekki halda að þú eigir að geta gert allt í fyrstu tilraun. Við þroskumst og verðum betri við að reka okkur á, ekki blóta erfiðleikunum, taktu þeim frekar fagnandi og horfðu á þá sem tækifæri til að verða ennþá sterkari.

8. Það er engin ein rétt leið fyrir alla

Ég hélt alltaf að eina leiðin til þess að vera í formi eða lifa heilbrigðum lífsstíl væri að mæta 5-6 sinnum í ræktina, æfa klukkutíma í senn og borða þurran kjúkling og brokkolí til að ná árangri. Sem betur fer vaknaði ég uppfrá þeirri martröð og fór að sjá allar þær mismunandi og skemmtilegri leiðir sem eru í boði. Þú þarft að finna þá leið sem hentar þér, eitthvað sem þú sérð fram á að geta haldið áfram til lengri tíma, ekki byrja á einhverju sem þú veist að þú springur á. Ég elska HiiT heimaæfingar því þær gefa mér frelsið til að æfa hvar og hvenær sem er og spara mér tíma svo ég geti verið meira með börnunum mínum.

9. Hreinn matur lætur þér líða eins og ofurhetju

Mataræði hefur svo mikil áhrif og þú hefur kannski ekki einu sinni upplifað það. Það var ekki fyrir það mörgum árum (Okey kannski 10 :P ) sem ég upplifði það sjálf á eigin líkama og það var gjöf sem ég gleymi seint. Brjáluð orka, sjúklega mikil vellíðan, léttleiki, skínandi húð, sterkari neglur, fallegra hár, skýrari hugsun, sterkari og kröftugari líkami og listinn heldur áfram, allt eitthvað sem þú getur haft BEIN áhrif með matarvalinu þínu! Eftir þessa upplifun er þúsund sinnum auðveldara að halda mataræðinu góðu, því hver vill ekki líða eins og ofurhetju á hverjum degi?

10. Mikilvægasta vinnan er innri vinnan 

Að huga að og vinna í að gera eigin líðan betri, snúa neikvæðum hugsunum upp í uppbyggjandi, margfalda innri frið og hamingju er ómetanlegt. Ekki ganga í gegnum lífið ómetvituð um þessa hluti, jafnvel að hunsa þá, eða láta umhverfið stjórna því hvernig þér líður hverju sinni. Taktu stjórnina og skapaðu þína eigin innri veröld, þar sem þú ert friðsæl, hamingjusöm og jákvæð. Þú munt þakka þér fyrir og þínir nánustu.

11. Það sem þú fókusar á VEX 

Ef þú ert alltaf að hugsa og endurtaka það sem þér þykir erfitt eða styðjast við afsakanirnar sem þú endurtekur við sjálfan þig muntu ekki búa til pláss fyrir lausnirnar. Ef þú byrjar daginn á að hugsa um allt það “leiðinlega” sem þú þarft að gera í dag, þá verður dagurinn líklega leiðinlegur. Það sem þú einbeitir þér að verður stærra og þú skalt því vanda vel það sem þú ert að endurtaka við sjálfan þig. 

 

12. Öfgar, boð og bönn virka EKKI

Ég hef séð það aftur og aftur, fyrir meiri hluta fólks þá þýðir ekki að setja strangar reglur, boð eða bönn þegar kemur að mataræði (og fleiri hlutum í lífinu) Hausinn virkar þannig að þegar hann “má ekki” þá vill hann ennþá frekar. Því við erum oft eins og litlir krakkar sem viljum ekki fylgja því sem mamma og pabbi segja. Reynum frekar að setja upp eitthvað jafnvægi og munum eftir 80/20 reglunni. 

13. Það er ENGINN fullkominn 

Mundu að þó svo að fólk líti út fyrir að vera með allt á hreinu, þá eru allir að kljást við eitthvað. Það er engin svo fullkominn að vera með allt á hreinu, fullkominn líkama, fullkomin börn, fullkominn maka, vini, föt, bíl, hús o.s.frv. (meira að segja Instagram stjarnan sem þú ert að fylgjast með er að díla við eitthvað). Þannig ekki fara að líða illa yfir því að vera ekki með allt á hreinu, þrátt fyrir að vera orðin X mikið gömul. Sem barn hélt ég alltaf að fullorðna fólkið væri með allt á hreinu, en ég sé það alltaf meira og meira að aldur segir EKKERT til um þessa hluti, og “fullorðna” fólkið er alls ekki búið að “finna útúr öllu”, hvenær sem það gerist að við verðum fullorðin (ég er ennþá að bíða) :P

14. Lífið er aðeins eins gott að þú leyfir því að verða

Þitt eigið hugarfar og hvað þú gerir úr hlutunum skiptir öllu. Þú hefur stjórnina til þess að gera gott úr öllum aðstæðum. Býrðu á köldum stað þar sem snjóar endalaust? Ekki bölva veðrinu, byrjaðu að sinna vetrarsporti og njóttu þess að kveikja á kertum og gera kósý á köldum vetrarkvöldum. Ekki vera alltaf að bíða eftir sólinni eða sumrinu, ef þú getur ekki breytt veðrinu (sem þú getur líkleg ekki), þá skaltu breyta því hvernig þú lætur það hafa áhrif á þig. Ef þú ert ósátt, spurðu sjálfan þig, “get ég gert eitthvað til þess að breyta þessu?” Ef svarið er já, þá gerir þú það, ef svarið er “nei” þá er engin tilgangur í að vera bölva, fussa og sveia. Þú gerir það besta útúr þeim aðstæðum sem þú ert í og stjórnar þínum eigin viðbrögðum og upplifunum. 

15. Þú getur náð öllum þínum markmiðum ef þú stendur ekki í vegi fyrir SJÁLFRI þér

Við erum okkar stærsta hindrun þegar kemur að ÖLLU. Við notum kraft hugans til þess að tala gegn tækifærinu, til þess að sannfæra okkur um að við getum EKKI, eða kunnum EKKI, eða séum ekki nógu fær, höfum ekki nægan tíma o.s.frv. Notaðu frekar kraft hugans í að sannfæra þig um hversu fær þú ert, úrræðagóð, klár, sterk, lausnamiðuð, snjöll, skemmtileg og hversu frábær þú ert! Því þú ert það!

16. Upplifun er mun verðmætari en hlutir

Eins og ég talaði um áðan með iphone, bíl og tölvu. Þetta verður bara partur af dótinu sem þú átt og mun ekki veita þér það mikla gleði til lengri tíma. En upplifun er eitthvað sem lifir alltaf í hjartanu þínu. Eitt af því sem ég elska að gera er að ferðast, prófa nýja hluti, sjá nýja hluti, fara út að borða, gera eitthvað saman með vinum og fjölskyldu. Því það gefur svo miklu meira af sér en nýjar buxur sem enda aftast í skápnum hjá þér. 

17. Hollur matur er þess virði að eyða í

Ég er alltaf tilbúin til þess að borga meira fyrir gæði og hollan mat. Það gefur mér gleði og stolt að velja BETUR fyrir líkamann minn. Því það er partur af sjálfsmyndinni minni að hugsa VEL um sjálfan mig. Ef ég get gefið sjálfri mér þá gjöf að velja lífrænt, eða kaupa inn meira af fæðutegundum, frekar en að velja ódýran og fljótlegan mat geri ég það hiklaust, því lífið verður svo miklu betra þegar manni líður vel og er orkumikill (Manstu með ofurhetjuna?). 

18. Sjálfsumhyggja og ást er STÓR partur af heilbrigðum lífsstíl 

Það að lifa heilbrigðum lífsstíl verður alltaf að koma útfrá ást og umhyggju. Ekki hatri á eigin líkama eða niðurrifi, það mun aldrei enda vel. Það þarf að snúa þessu samtali í burtu frá útlitsdýrkun, að horfa hornauga á mat, og að reyna líta út eins og þú sért að fara keppa á fitness sviðinu á morgun. Veljum betur fyrir heilsuna okkar, fyrir börnin okkar, til þess að vera góðar fyrirmyndir, líða vel í okkar eigin líkama og vera með orku til þess að gera það sem okkur langar til í lífinu. Allt eitthvað sem verður að veruleika þegar valið okkar kemur frá kærleika á eigin líkama og sál. 

19. Innra samtalið þitt við sjálfan þig verður að veruleika 

Manstu þegar ég talaði um að það sem þú fókusar á vex? Það sama á við um hér, það sem þú segir við sjálfan þig verður að veruleika. Hvernig er þitt innra samtal? Ertu alltaf að endurtaka við sjálfan þig um að þú gefist alltaf upp? Hefur það orðið að veruleika? Er erfitt að halda hollu mataræði? Það sem við segjum við okkur sjálf sköpum við, þegar þú breytir innra samtalinu upp í eitthvað sem er uppbyggjandi, eitthvað sem hjálpar þér yfir hindranirnar þínar, þá breytist lífið þitt. 

20. Það eru allir að gera sitt besta

Það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið að hugsa um að “allir séu að gera sitt besta”. Fólk stenst kannski ekki væntingarnar okkar, það bregst okkur, segir eitthvað vitlaust, stendur ekki við orð sín, svíkur okkur jafnvel eða gerir EKKI eitthvað sem við búumst við. Það gerist svo margt í samskiptum og við getum ekki hengt okkar eigin hamingju eða líðan á það sem aðrir gera eða hvernig aðrir bregðast við. Þetta hefur verið góð lexía og sparað mér marga klst af vanlíðan, með því að vera ekki að velta mér uppúr því “af hverju” þetta gerðist og sætta mig við það að líklega væri viðkomandi að gera sitt besta útfrá þeim stað sem þeir eru á í dag. 

21. Að fyrirgefa er fyrir ÞIG 

Þegar þú fyrirgefur einhverjum öðrum fyrir eitthvað, þá ertu í rauninni að frelsa sjálfan þig, því með því að halda fast í reiði eða sárindi ertu í rauninni aðeins að særa sjálfan þig. Ef þú blótar manneskjunni í umferðinni, mun hún finna fyrir því? Ert þú ekki bara að setja sjálfan þig í neikvætt hugarfar og pirra sjálfan þig? Með fyrirgefningu öðlast þú innri ró og getur þannig búið til pláss fyrir eitthvað jákvætt og betra. 

22. Að bera sig saman við aðra eru stór MISTÖK 

Það verður alltaf einhver sem er í betra formi en þú, fljótari, sterkari, ríkari, fallegri, gáfaðri o.s.frv. þannig við skulum algjörlega HÆTTA að bera okkur saman við aðra og byrja frekar að bera okkur saman við okkur sjálf. Reynum alltaf að vera besta útgáfan af OKKUR og gera okkar besta, það er það eina sem við getum gert. Hitt leiðir bara til niðurrifs og óánægju, þannig við skulum bara sleppa því. 

23. Þú getur breytt erfiðleikum í eitthvað jákvætt fyrir aðra 

Þín reynsla og lífssýn er eitthvað sem þú EIN hefur í öllum heiminum, það hefur engin af öllum rúmum 7,44 milljörðum manneskja í heiminum upplifað það sem þú hefur upplifað. Þetta er eitthvað sem þú átt alveg sérstakt og þú getur alveg pottþétt notað þína reynslu til góðs, hvort sem hún hafi verið erfið eða ekki. 

24. Einhver hreyfing er ALLTAF betri en engin, finndu það sem þér finnst gaman 

Þetta snýst ekki um að brenna X mörgum kalóríum á æfingu, þetta snýst um að hreyfa líkama þinn og halda honum sterkum og hraustum. Sama hvað þú gerir reyndu að hreyfa þig eitthvað daglega, líkaminn var ekki gerður til þess að sitja allan daginn, þá molnar þú bara niður. 

25. Súkkulaði er ómissandi 

Súkkulaði er partur af heilbrigðum lífsstíl, veldu þetta dökka og lífræna og njóttu þess að tríta þig í hófi. Það er nauðsynlegt að leyfa sér að njóta líka, veldu hluti sem þér líður vel af, ég veit ekkert betra en að tríta mig með 1-2 molum af 70% súkkulaði ásamt heitum te bolla eftir annasaman dag. 

26. Farðu eftir draumunum þínum 

Við fáum bara þetta eina líf, þetta eina tækifæri til þess að fara á eftir draumunum okkar. Af hverju að sóa því og sitja með sárt ennið, lifa í ótta og eftirsjá. Með rétta hugarfarinu, vinnu og skuldbindingu getur þú látið hvað sem er verða að veruleika. 

 

27. Sjáðu hlutina frá sjónarhorni annarra 

Árekstrar, rifrildi og ósætti koma alltaf upp þegar við sjáum ekki hlutina útfrá sjónarhorni annarra. Viðkomandi er líklega með allt aðra sýn á hlutina en þú og hefur ábyggilega góða ástæðu fyrir því útfrá fyrri reynslu eða lífsviðhorfi. Reynum frekar að skilja hinn aðilann, spyrja spurninga og ræða málin í rólegheitum frekar en að byrja að öskra og troða okkar skoðunum ofaní hinn aðilann. 

28. Ekki hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst

Það eru ALLIR með skoðanir. Ef þú eyðir orkunni þinni í að hafa áhyggjur af því hvað öllu öðrum finnst verður þú örmagna af áhyggjum og orkuleysi. Það er eins og að endurfæðast sem ný manneskja þegar maður tekur ákvörðun um að “vera sama” hvað öðrum finnst og fylgja innsæi sínu. 

29. Hættu að hlusta á eigin afsakanir

Hugurinn þinn er sterkur, eins og ég hef nokkrum sinnum komið inná! Hann mun alltaf vera þarna til staðar til þess að stoppa þig af, fá þig til þess að efast um sjálfan þig, halda þér inní þægindahringnum og ekki taka áhættur. En hann getur líka unnið MEÐ þér, og þú verður að læra að hætta að hlusta á innri púkann og ákveða að hann sé ekki lengur við stjórnvöldin, heldur er það BESTA útgáfan af sjálfri þér sem tekur ákvarðanirnar. Hvaða ákvarðanir muntu taka þá?

30. Vertu þakklát fyrir lífið og fólkið í kringum þig

Eitt af því sem ég hef lært sérstaklega núna síðustu ár er að vera þakklát fyrir fólkið í kringum mig sem ég elska. Á tæpum 5 árum hef ég misst móðir mína, stjúpmóðir og ömmu, og hefur þetta allt minnt mig á hvað lífið er stutt og dýrmætt. Ég hef því ákveðið að njóta þess eins vel og ég get og gera allt sem ég get til þess að vanda mig vel, gefa af mér eins og ég get, hjálpa öðrum, vera besta útgáfan af sjálfri mér og lifa eftir gildunum mínum. Þannig heiðra ég minningu þeirra, því allt voru þetta svo kröftugar konur sem áttu það sameiginlegt að gefa mér ótrúlega mikinn kærleik útí lífið. 

Ég lít björtum augum á næsta áratug og veit að lífið verður bara betra og betra. Ég vona að þú gerir það sama og munir eftir því sem skiptir raunverulega máli í lífinu. 

Húrra fyrir 30 árunum!

Heilsukveðja

Sara Barðdal 

ÍAK einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi 

Stofnandi www.hiitfit.is