Fara í efni

5 staðreyndir um líffæragjafir

Líffæragjafir - Ert þú skráð/ur sem Líffæragjafi ?
5 staðreyndir um líffæragjafir

1. Á hverju ári bjarga líffæragjafir fjölda mannslífa og getur hver líffæragjafi bjargað allt að átta mannslífum.

2. Við líffæragjöf eru líffæri látins einstaklings fjarlægð og þau grædd í sjúklinga sem þurfa á þeim að halda vegna bilunar í eigin líffærum. Þau líffæri sem gefin eru eru hjarta, lungu, lifur, nýru, bris og þarmar. Einnig er hægt að gefa aðra hluta líkamans og eru hornhimnur þar algengastar. Hluti líffæragjafa, svo sem nýrnagjafir, koma frá lifandi einstaklingum sem oftast eru náskyldir líffæraþeganum.

3. Á Íslandi þurfa um 25-30 einstaklingar líffæragjafir á ári en skortur á líffærum er mikill. Það skiptir því miklu máli að sem flestir Íslendingar séu skráðir líffæragjafar.

4. Ekki er hægt að nýta líffæri látinna einstaklinga í öllum tilfellum. Forsenda þess að hægt sé að nýta líffæri til ígræðslu er að andlát sé vegna heiladauða en þannig er hægt að fjarlægja líffæri áður er blóðrás stöðvast og líffæri skemmast.

5. Við líffæragjöf er alltaf hætta á því að líkami líffæraþega hafni nýja líffærinu. Því er mikilvægt að vefjagerð líffæragjafa og líffæraþega sé sem líkust og að líffæraþegi taki inn ónæmisbælandi lyf eftir ígræðslu til að koma í veg fyrir höfnun.

 

Auðvelt er að gerast líffæragjafi á Íslandi og má nálgast frekari upplýsingar um það hér. Við skráningu er hægt að taka fram hvort takmarka eigi líffæragjöf við ákveðin líffæri.

Grein af vef hvatinn.is