7 ástæður til að drekka kaffi
Kaffi er ekki bara orkugefandi, heldur getur það líka verið mjög hollt.
Á undanförnum árum og áratugum hafa vísindamenn rannsakað áhrif kaffis á heilsu og niðurstöður þeirra eru hreint út sagt magnaðar.
Hér eru 7 ástæður fyrir því að kaffi sé meinhollt.
1. Kaffi getur gert þig klárari
Kaffi heldur þér ekki bara vakandi, það getur líka gert þig skarpari.
Virka efnið í kaffi er koffín sem er örvandi.
Aðal hlutverk koffíns í heilanum er að vinna gegn áhrifum taugaboðefnis sem kallast adenósín.
Með því að vinna gegn áhrifum adenósíns eykur koffín í raun virkni taugafruma í heilanum og losun annarra boðefna eins og dópamíns og noradrenalíns.
Í mörgum samanburðarrannsóknum hafa áhrif koffíns á heilann verið könnuð. Samkvæmt þeim getur koffín geti bætt skap, viðbragðstíma, minni, árvekni og almenna vitræna getu.
Niðurstaða: Koffín blokkar hamlandi taugaboðefni í heilanum, sem leiðir til þess að kaffi hefur örvandi áhrif. Rannsóknir sýna að koffín bætir bæði skap og heilastarfsemi.
2. Kaffi getur hjálpað þér að brenna fitu og bæta líkamlega getu
Það er góð ástæða fyrir því að þú finnur koffín í flestum fæðubótarefnum sem ætlað er að auka fitubrennslu.
Koffín, að hluta til vegna örvandi áhrifa þess á miðtaugakerfið, bæði örvar efnaskipti og eykur oxun fitusýra.
Koffín getur einnig bætt árangur í íþróttum eftir nokkrum leiðum, þar á meðal með því að losa fitusýrur úr fituvef.
Í tveimur aðskildum rannsóknum kom í ljós að koffín bætti árangur á æfingum um 11-12% að meðaltali.
Niðurstaða: Koffín eykur efnaskiptahraða og hjálpar til við að losa fitusýrur úr fituvef. Það getur einnig bætt líkamlega afkastagetu.
3. Þeir sem drekka kaffi hafa mun minni líkur á að fá sykursýki 2
Sykursýki 2 er lífsstílstengdur sjúkdómur sem hefur aukist gríðarlega á undanförnum áratugum. Nú eru um 300 milljónir manna í heiminum með sykursýki.
Þessi sjúkdómur einkennist af háum blóðsykri vegna insúlínóþols eða vangetu líkamans til að framleiða insúlín.
Í faraldsfræðilegum rannsóknum hefur endurtekið sýnt sig að kaffi tengist minni hættu á sykursýki. Munurinn er á bilinu 23% og allt upp í 67%.
Í einni yfirlitsgrein þar sem teknar voru saman niðurstöður úr 18 rannsóknum með 457.922 þátttakendum kom í ljós að hver kaffibolli á dag lækkaði hættu á sykursýki um 7%. Því meira kaffi sem menn drukku, því minni var hættan á sykursýki.
Niðurstaða: Kaffidrykkja tengist verulega minni hættu á sykursýki 2. Fólk sem drekkur nokkra bolla á dag er mun ólíklegra til að verða sykursjúkt.
4. Kaffi getur dregið úr hættunni á Alzheimer og Parkinsons
Ekki aðeins getur kaffi gert þig klárari til styttri tíma, heldur getur það einnig verndað heilann til lengri tíma.
Alzheimer-sjúkdómur er algengasti taugahrörnunarsjúkdómur í heiminum og helsta orsök heilabilunar.
Í rannsóknum eru þeir sem drekka kaffi í 60% minni hættu á að fá Alzheimer og heilabilun.
Parkinsons er annar algengasti taugahrörnunarsjúkdómurinn, sem einkennist af því að taugafrumur sem framleiða dópamín í heila deyja. Þeir sem drekka kaffi hafa 32-60% lægri líkur á að fá Parkinsons.
Niðurstaða: Kaffi tengist minni hættu á heilabilun og taugahrörnunarsjúkdómum eins og Alzheimer og Parkinsons.
5. Kaffi getur verið sérlega gott fyrir lifrina
Lifrin er merkilegt líffæri sem gegnir hundruðum mikilvægra hlutverka í líkamanum.
Hún er mjög viðkvæm fyrir nútíma áreiti eins og óhóflegri neyslu áfengis og frúktósa.
Skorpulifur er lokastig lifrarskemmda af völdum sjúkdóma eins og alkóhólisma og lifrarbólgu, þar sem lifrarvefjum hefur að mestu verið skipt út fyrir örvef.
Margar rannsóknir sýna að þeir sem drekka kaffi hafa allt að 80% lægri líkur á að fá skorpulifur, mestu áhrifin koma fram hjá þeim sem drekka 4 bolla eða meira á dag.
Þeir sem drekka kaffi hafa einnig 40% minni hættu á að fá lifrarkrabbamein.
Niðurstaða: Þeir sem drekka kaffi hafa allt að 40% lægri líkur á lifrarkrabbameini og 80% lægri líkur á skorpulifur.
6. Kaffi getur dregið úr líkum á ótímabærum dauða
Margir virðast halda að kaffi sé óhollt.
Þetta kemur svo sem ekkert á óvart, þar sem það er mjög algengt að að almenn þekking í næringu sé algjörlega á skjön við það sem rannsóknir sýna.
Í tveimur mjög stórum faraldsfræðilegum rannsóknum, var kaffidrykkja tengd minni hættu á dauða af öllum orsökum.
Þessi áhrif eru sérstaklega áberandi varðandi sykursýki 2, ein rannsókn sýndi að kaffidrykkjufólk var 30% ólíklegra til að deyja yfir 20 ára tímabil.
Niðurstaða: Kaffidrykkja hefur verið tengd minni líkum á dauða í faraldsfræðilegum rannsóknum, einkum hvað varðar sykursýki 2.
7. Kaffi er hlaðið næringarefnum og andoxunarefnum
Kaffi er ekki bara svart vatn.
Mikið af næringarefnum úr kaffibaununum skila sér alla leið í kaffið sem inniheldur ágætis magn af vítamínum og steinefnum.
Einn kaffibolli inniheldur:
- 6% af ráðlögðum dagskammti pantóþensýru (B5 -vítamín).
- 11% af ráðlögðum dagskammti ríbóflavíns (B2 -vítamín).
- 2% af ráðlögðum dagskammti níacíns (b3) og þíamíns (B1).
- 3% af ráðlögðum dagskammti kalíums og mangans.
Virðist kannski ekki vera mikið, en ef þú drekkur nokkra kaffibolla á dag þá er þetta fljótt að vinda upp á sig.
En þetta er ekki allt, kaffi inniheldur einnig gríðarlegt magn andoxunarefna.
Í raun er kaffi stærsta uppspretta andoxunarefna í vestrænu fæði. Fólk fær meiri andoxunarefni úr kaffi en bæði ávöxtum og grænmeti til samans.
Að lokum,
Jafnvel þó kaffi í hófi sé gott fyrir þig, getur allt of mikil kaffidrykkja samt verið skaðleg.
Ég vil líka benda á að margar ofangreindra rannsókna voru svokallaðar faraldsfræðirannsóknir. Slíkar rannsóknir geta aðeins sýnt fram á tengsl, þær geta ekki sannað að kaffi valdi áhrifunum.
Passaðu þig að bæta alls ekki sykri eða öðrum óþverra í kaffið! Ef það hefur áhrif á svefninn þinn skaltu heldur ekki drekka kaffi eftir kl. 14.
Það virðist alveg ljóst að kaffi er ekki jafn slæmt og áður var haldið. Ef eitthvað er, getur kaffi bókstaflega verið einn hollasti drykkur jarðarinnar.
Grein fengin af betrinaering.is