Fara í efni

Á sumardaginn fyrsta fer víðvangshlaup ÍR fram í miðbæ Reykjavíkur

Á sumardaginn fyrsta fer víðvangshlaup ÍR fram í miðbæ Reykjavíkur

Á sumardaginn fyrsta fer Víðvangshlaup ÍR fram í miðbæ Reykjavíkur og gefst þá tækifæri til þess að spretta úr spori á einstakri hlaupaleið sem hæfir ungum sem öldnum, skemmtiskokkurum sem og keppnishlaupurum.  

Víðavangshlaup ÍR hefur verið órjúfanlegur þáttur í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar á sumardaginn fyrsta í eina öld. Á síðasta ári var ný hlaupaleið kynnt til leiks sem liggur um hjarta borgarinnar og tóku um 1200 þátttakendur á öllum aldri á rás niður Laugarveginn við rífandi stemmingu einsog sjá má á myndbandi sem tekið var með drónum [skoða myndband].
 
Hlaupaleiðin er 5 km löng og liggur um hjarta borgarinnar. Hlaupið er ræst kl. 12:00 í Tryggvagötunni og m.a. hlaupið upp Hverfisgötuna, niður Laugaveginn og umhverfis Tjörnina áleiðis í mark við Arnarhól. Dagskráin hefst með upphitun þátttakenda við Kolaportsbílastæðahúsið við hressandi tónlist kl. 11:15. Allir hlauparar fá Powerade drykk þegar í mark er komið en hlaupið er hluti af Powerade sumarmótaröðinni. Upplagt er að enda daginn á sundferð, en ÍTR býður öllum þátttakendum í sund að loknu hlaupi. Fjöldi útdráttarverðlauna og mikil stemning og stuð í bænum sem Landsbankinn hefur veg og vanda að.
 
ÍR-ingar hvetja fjölskyldur til að taka sig saman og fjölmenna í þennan einstaka viðburð sem ekki hefur fallið niður í heila öld.  Víðavangshlaup ÍR er í senn viðburður sem hæfir öllum sem vilja gera sér dagamun og taka þátt í gleðinni. Fyrir keppnishlaupara er hlaupið jafnframt Íslandsmeistaramót í 5 km götuhlaupi.
 
Skráning í Víðavangshlaup ÍR er í fullum gangi á hlaup.is og verður opin til miðnættis miðvikudaginn 20. apríl, en jafnframt verður hægt að skrá sig á hlaupdag. Þátttökugjald hækkar á miðnætti þriðjudaginn 19. apríl og því eru allir hvattir til þess að skrá fyrir þann tíma. Samhliða Víðavangshlaupi ÍR fer fram 2,7 km Grunnskólahlaup Lindex fyrir nemendur í 7. til 10. árgangi. Grunnskólamótið verður ræst í Lækjargötunni og hlaupa nemendur ásamt hlaupurum í Víðavangshlaupi ÍR þann hluta leiðarinnar sem eftir er.
 
Ekkert þátttökugjald er í Grunnskólamót Lindex og fer skráning fram hér.
 

Allar nánari upplýsingar um skráningu og dagskrá er að finna á heimasíðu hlaupsins og á Facebook síðu hlaupsins.

Frekari upplýsingar veitir undirrituð hlaupstjóri hlaupsins,
Inga Dís Karlsdóttir , s. 695 4460.