Fara í efni

Að blása lífi í tilganginn, hugleiðing frá Guðna

Hugleiðing á föstudegi~
Hugleiðing á föstudegi~

Að blása lífi í tilganginn.

Markmið eru skilgreind og markmið sem hefur vægi er nákvæmt, tímasett, verulegt, framkvæmanlegt og mælanlegt. Markmið sem eru einhvers virði eru skriflegar yfirlýsingar, áþekkar teikningum af húsi eða byggingu.
Tilgangurinn er kjölfesta vel skilgreindra markmiða. Tilgangurinn er þetta mikilvæga „af hverju“ – ástæðan fyrir því að við viljum verja orku í tilteknar athafnir í lífi okkar.

Markmið reist á tilgangi = draumar með tímamörkum.

Þegar við höfum skilið að athygli er ást sem er ljós og að okkar er valdið og ábyrgðin þá fyllumst við innblæstri og ástríðu til að skapa okkar eigin tilgang – til að ákveða og velja eigin tilgang.

Hvernig finnum við þennan innblástur? Með því að leyfa heiminum að blása okkur hann í brjóst.
Hvað gerist við djúpan andardrátt? Ég tek inn súrefnið (innblásturinn) frá heiminum og lungu mín þenjast út, full af innblæstri, en líka full af rými.

Ef líkaminn er kamína þá þarf alltaf innblástur í formi súrefnis til að glæða eldinn sem er ástríðan – og þá verður hitinn mikill og reykurinn þéttur.

Þá verður tjáningin sterk, heit, rjúkandi.