Fara í efni

Að fyrirgefa er eins og að létta á sér, maður sleppir. Falleg orð frá Guðna á miðvikudegi

Hugleiðing á miðvikudegi~
Hugleiðing á miðvikudegi~

Þegar ég þakka hinum aðilanum fyrir hans framlag þarf ég ekki að fyrirgefa honum – reyndar get ég ekki fyrirgefið annarri manneskju því þá set ég mig í dómarasæti; ég er að segja að hegðun hennar hafi verið góð eða slæm, og í því felst dómur sem er viðnám og þar með ekki ást.

Því það er aðeins ást.

Og það er aðeins núna.

Og það ert aðeins þú.

Manneskja sem heldur í marga þræði sem liggja í köggla langt úti í sjó er ekki aðeins mjög upptekin (og þar með fjarverandi og ó-fullkomin) heldur líka illa lyktandi. Frá henni stafar illum daun. Aðrar sálir í kringum hana finna þennan daun.

Sumir laðast að honum (þeir sem þurfa og vilja slíkt) en aðrir hrökklast í burtu.

Enn aðrir komast hvorki lönd né strönd (t.d. börn viðkomandi eða maki) og sitja því uppi með illa lyktandi einstakling.

Að fyrirgefa er ekkert flókið.

Að fyrirgefa er eins og að létta á sér. Maður bara sleppir.

Og það getur enginn létt á þér nema þú sjálfur.